11.04.1928
Neðri deild: 68. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (1363)

34. mál, varðskip landsins

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það hafa nú komið fram allmargar brtt. við frv. þetta, og þó að ekki væri annað, sem mælti á móti þeim, en það, að þær eru komnar fram á síðustu dögum þingsins og geta því orðið málinu til tafar, þá teldi jeg ekki rjett að samþ. þær. En auk þess er margt í þeim þess eðlis, að jeg tel ekki rjett að samþ. þær fyrir þær sakir. Hvað snertir brtt. hv. 4. þm. Reykv., þá tel jeg þær yfirleitt ekki til bóta. Fyrstu brtt. hans, um að yfirmenn skipanna skuli aðeins telja sýslunarmenn, tel jeg ekki heppilega. Þá sýnist mjer vera óþarfi að vera að setja það í lög, að, um kaup háseta á þessum skipum gildi hið sama og um kaup háseta á öðrum skipum. Hjer er töluvert öðru máli að gegna, því að það er ekki sambærilegt, hve störfin eru ljettari og mönnum yfirleitt miklu geðfeldari á þessum skipum heldur en á siglingaflotanum.

Þá hafa þeir hv. þm. Vestm. og hv. 4. þm. Reykv. hvor í sínu lagi komið með brtt. þess eðlis, að menn, sem fara burtu af skipunum áður en ráðningartími þeirra væri á enda, skuli ekki fá kaup þann hluta ráðningartímans, sem eftir er. Á þetta atriði legg jeg enga sjerstaka áherslu. Jeg setti það inn í frv. sem sanngirnismál, ef t. d. það kæmi fyrir, að breytt væri til eða hætt fyrir þann tíma, sem mennirnir væru ráðnir til. Annars þykir mjer undarlegt, að hv. þm. Vestm., sem er svo mjög kröfuharður um kaup fyrir þessa varðskipamenn, skuli ekki geta sætt sig við þessa litlu ívilnun.

Um brtt. á þskj. 724, frá, þeim hv. þm. Vestm., hv. þm. N.-Ísf. og hv. þm. Barð., er það að segja, að það eru alt hækkunartillögur, sem jeg verð að leggja á móti, því að jeg tel alls ekki rjett að fara að skapa laun við þessa starfa, sem ekki falla inn í launakerfi landsins. Eins og jeg hefi tekið fram áður hjer í þinginu, þá gekk jeg út frá því, þegar jeg samdi frv. þetta, að laun skipstjóranna yrðu lík og laun skrifstofustjóranna í stjórnarráðinu og annara virðulegustu embættismanna landsins, eins og t. d. landssímastjóra. Það eru alt eftirsótt embætti. Sýslumenn úti á landi sækja t. d. allmjög eftir því að verða skrifstofustjórar í Stjórnarráðinu. Með brtt. þessum er því farið fram á að launa skipstjórunum betur en mönnum, sem varið hafa að minsta kosti 12 árum æfi sinnar til undirbúnings undir starf sitt. Hljóta því allir að sjá, hvílíkt rjettlæti það er. Jeg verð því alvarlega að vara við þessum till., því að auk þess, sem þær ganga í þá átt að gera laun þessi óeðlilega há, þá mun líka verða vitnað til þeirra, þegar launalögin verða endurskoðuð. Og yfir höfuð sje jeg enga ástæðu, sem rjettlæti það að setja laun þeirra, sem á sjónum vinna, langt fram yfir laun þeirra, sem vinna í landi. Í sambandi við þetta vil jeg geta þess, að laun skipstjóranna hjá Eimskipafjelaginu hafa lækkað um mörg þús. kr. nú á undanförnum árum. Stafar lækkunin af því, að nokkur hluti launa þeirra er miðaður við arð skipanna. Ber þó ekkert á því, þrátt fyrir launalækkunina, að skipstjórarnir tolli ekki í vistinni. Þeir sjá, að fjelagið er fátækt, og sætta sig því við launalækkunina. Annars verð jeg að segja það, að mjer hefir verið raun að því í vetur, hve mjög Alþingi virðist hafa hallast að þeirri stefnu að hækka laun embættismanna. Því að sú stefna virðist hafa verið ofan á í báðum deildum, án tillits til afleiðinganna. Mín aðstaða til hækkunartillagna þessara þriggja hv. þm. er því sú, að með þeim sje verið að snúa snöru að hálsi þjóðarinnar síðar meir, og því til sönnunar vil jeg nefna dæmi. Við landssímann vinnur ungur verkfræðingur, sem hefir „akademiskt“ nám að baki sjer. Þegar jeg samdi frv. í vetur, setti jeg laun stýrimannanna og vjelstjóranna í samræmi við laun þessa manns; en þó hækkaði Ed. þau frá því, sem jeg lagði til, og hjer er enn farið fram á hækkun, og verði hún samþ., fer ósamræmið að verða nokkuð mikið. Maður skyldi nú ætla, að enginn fengist í stöðu þessa verkfræðings, ef hann hætti, en því fer fjarri, því að um hana myndi verða kapphlaup lærðra verkfræðinga, og það er ekki aðeins á því sviði, sem yfirfult er af lærðum mönnum. Daglega koma upp í stjórnarráð margir menn, sem vilja komast á ríkissjóðinn, fá einhvern fastan starfa. Út af þessari eyðslustefnu, sem virðist vera ríkjandi hjá sumum hv. þm., vil jeg vekja athygli á því, að komi harðindaár, eins og t. d. komu á milli 1870–'90, mun mega ganga út frá því sem vísu, að þær 12 milj., sem nú eru áætlaðar árlega í ríkissjóðinn, muni ekki koma allar inn. Verður þá ekki um annað að gera en fella niður allar verklegar framkvæmdir, sem ríkið hefir með höndum, og má þykja gott, ef það dugir til þess að halda jafnvægi á tekjum og greiðslum ríkissjóðs, án þess að taka lán til þess að greiða laun embættismannanna. Með þessu er jeg alls ekki að halda því fram, að laun allra embættismanna sjeu of há; þvert á móti játa jeg, að ýmsir þeirra lifi við sultarkjör, þrátt fyrir þessi laun einstakra manna. Það, sem jeg því hefi haldið fram, og held fram enn, er það, að fækka megi starfsmönnum ríkisins að einhverju leyti, og jafnframt að koma megi meira samræmi á laun þeirra. En allar tilraunir í þá átt hafa til þessa mætt hinni mestu andstöðu.

Jeg vil nú skjóta því til háttv. þm. Vestm., hvort honum finnist það goðgá að lækka dálítið laun skipstjóranna á varðskipunum, úr því að Eimskipafjelagið hefir lækkað laun sinna skipstjóra að miklum mun.

Á þskj. 724 er ein till., sem jeg tel, að megi samþ., enda þótt hún sje óþörf. Það er till. um, að starfstími þeirra af skipverjunum, sem áður voru að staðaldri í þjónustu Björgunarfjelags Vestmannaeyja, skuli teljast frá þeim tíma, er þeir í fyrsta skifti lögskráðust á björgunarskipið Þór. Þetta hefir einmitt verið gert síðan um nýár, að launin lækkuðu, og mun verða gert framvegis. Er því óþarfi að setja ákvæði um það í frv.

Vil jeg svo að síðustu undirstrika það, að jeg álít það hættulegt, vegna fordæmisins fyrst og fremst, að fara að hækka laun þessara manna frá því, sem þegar hefir verið gert. Enda engin þörf vegna þess, að ekki sje hægt að fá nægilega marga dugandi menn á skipin fyrir þau laun, sem þegar hafa verið ákveðin. Að fara að hækka launin enn er því ekkert annað en óhæfileg og óþörf eyðsla, sem landið má ekki við.