11.04.1928
Neðri deild: 68. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2493 í B-deild Alþingistíðinda. (1367)

34. mál, varðskip landsins

Jóhann Jósefsson:

Það eru aðeins örfá orð til andsvara hæstv. dómsmrh., sem sýnilega telur sig vera búinn að vinna sitt hlutverk hjer í hv. deild og er nú horfinn hjeðan, eins og hann á vanda til, en jeg held samt, að jeg verði að gera þessa aths., þó hann sje ekki viðstaddur.

Jeg vil þá, að vísu með allri virðingu fyrir sparnaðarhjali hæstv. dómsmrh., segja það álit mitt — og sama dóm fær hann eflaust hjá mörgum í þessu landi —, að mjer finst sparnaðarráðstafanir hæstv. ráðh. byrja á skökkum enda og lenda á óverðugu starfi, er hann með frv. þessu vill ganga á gerða samninga við starfsmennina á varðskipum ríkisins. Enda virðist hann hafa gert sjer þetta ljóst sjálfur, því hvarvetna í rökum sínum leitar hann til þess flokks manna, sem að öllu leyti eru ósambærilegastir við skipherrana á varðskipunum, svo sem skrifstofustjórar í stjórnarráðinu og prófessorar hjer við háskólann.

Í frv. því, sem hjer liggur fyrir og ótvírætt má sjá fingraför hæstv. dómsmrh. á, er gert ráð fyrir, að skipherrarnir sjeu ráðnir til 6 ára í senn. Á það að sýna vilja hæstv. stj. til þess að tryggja það, að jafnan sjeu ólúnir og fullfrískir menn á varðskipunum. Slíkur ráðningarmáti gildir alls ekki um skrifstofustjórana í stjórnarráðinu. Þeim er ætlað að gegna starfi sínu fram í rauða elli, en lítur ekki út fyrir, að skipherrarnir eigi að verða ellidauðir á varðskipunum. Þarna er því um ærið mikið ósamræmi að ræða, úr því verið er að bera laun þessara manna saman. Auk þess hafa skrifstofustjórarnir ýmsar aukatekjur, sem sýnir, að starfi þeirra er þann veg háttað, að þeir geta tekið að sjer önnur störf og þegið laun fyrir. Á varðskipunum hlýtur aðalstarf skipherranna að vera þeirra eina starf, og því hvorki um aukastarf eða aukatekjur að ræða.

Þá er það og alt annað að vera embættismaður í landi og geta á hverjum degi litið eftir heimili sínu en að vera úti í sjó og mega aldrei um frjálst höfuð strjúka. Skipherrarnir á varðskipunum eru eiginlega aldrei sínir eigin herrar, eins og til dæmis á sjer stað á öðrum skipum; þar eru skipstjórarnir þó sjálfráðir, þegar þeir liggja í höfn hjer í Reykjavík. En á varðskipunum mega þeir vera við því búnir að leggja í haf samstundis og þeir láta sjá sig í höfn, annaðhvort til að hremma landhelgibrjóta, eða þá að þeir eru sendir af stj. til að bjarga öðrum skipum, sem eru nauðulega stödd. T. d. á sjálfa jólanóttina í vetur var Óðinn sendur til að leita að mótorbát og tókst að bjarga honum. Lífskjör þessara manna eru svo ólík þeim, sem þeir hafa við að búa, er í landi vinna, að það er með öllu ósambærilegt.

Nú sje jeg, að hæstv. dómsmrh. lætur ljós sitt skína hjer í háttv. deild, mjer og öðrum til ánægju; þó ætla jeg ekki að endurtaka annað af því, sem jeg hefi sagt, en að samanburður hæstv. ráðh. á launum skipherranna á varðskipunum og ýmsra embættismanna í landi fer altaf í öfugar áttir við það, sem hann ætlast til.

Þá drap hæstv. ráðh. á annað, sem er fremur sambærilegt, en það eru laun skipstjóranna hjá Eimskipafjelaginu, sem auk 8000 kr. og dýrtíðaruppbótar hafa þó rjett til eftirlauna. Og þó má bæta við, að þeim er alls ekki ætlað að láta af starfi fyr en þeir eru orðnir 60 ára.

Með brtt. okkar höfum við ekki farið lengra en að leggja til, að hámarkslaun skipherranna yrðu sett eins og lágmarkslaun skipstjóranna hjá Eimskipafjelaginu. Og þar sem laun þau, sem Eimskipafjelagið greiðir sínum skipstjórum, voru lögð til grundvallar, er ákveðnar voru launagreiðslur við útgerð ríkissjóðs, þá þykir einmitt fara vel á, að sama fyrirmyndin sje notuð að því er varðskipin snertir. Sá munur, sem hæstv. dómsmrh. vill láta vera á launum skipstjóranna á Esju og Óðni, er svo áberandi og stór, að það er ekki hægt að rjettlæta hann á neinn hátt, og allra síst með einhverju sparnaðarhjali út í bláinn.

Þá gat hæstv. dómsmrh. þess, að ein brtt. okkar hv. þm. N.-Ísf. væri óþörf, því að starfslaun skipherranna væru miðuð við þann tíma, er þeir rjeðust í þjónustu Björgunarfjelags Vestmannaeyja, og væri því framfylgt nú í launagreiðslu til þeirra. Það gleður mig, að ráðh. er svo rjettsýnn maður, að hann hefir gengið inn á þetta í framkvæmdum sínum, þrátt fyrir öll lögbrotin. Hinsvegar get jeg alls ekki fallist á, að það sje óþarft, að þetta ákvæði standi í lögunum, þó að ráðh. hafi hagað sjer eftir því við útreikning launanna. Það er ekki víst, að allar stjórnir geri það sama, enda reglan sú, að stj. yfirleitt fari eftir því, sem í lögunum stendur, eins og ráðh. hlýtur að vera kunnugt. Að vísu þykir mjer mikilsvert að hafa fengið þessa yfirlýsingu frá hæstv. dómsmrh., en vildi þó, að þetta stæði í lögunum til hægðarauka fyrir aðrar stj., sem á eftir koma og sem legðu eitthvað upp úr því, hvað lög eru í landi.

Hann sagði, að meiri festa ætti að vera í þessu starfi varðskipanna en á öðrum skipum. En líti maður á frv., þá er ekki að sjá, að ráðh. ætlist til, að festan verði þar meiri en á strandferðaskipunum, þar sem stj. er heimilað að gera samning við starfsmenn varðskipanna aðeins til 6 ára í senn. Og eftir orðalaginu er festan ekki meiri, heldur minni, úr því að ástæða þykir til að láta þá sitja við lakari launakjör en tíðkast á öðrum skipum. Jeg tek því yfirlýsingu hæstv. dómsmrh. sem vott þess, að hann hafi engin veruleg rök fram að færa til þess að hnekkja því, er jeg og aðrir hv. þdm. höfum haldið fram. Ef hæstv. dómsmrh. hefði getað, mundi hann hafa bent á launakjör íslenskra sjómanna á skipum Eimskipafjelagsins og ríkissjóðs, en því er ekki til að dreifa. Brtt. okkar fer fram á það, að rjetta svo hluta þessara manna, að launakjör þeirra megi sæmileg kallast. Hæstv. ráðh. sagði, að þjóðin hefði ekki efni á því að borga mönnum þessum þau laun, er við förum fram á. En ef hann ber kjör þeirra saman við kjör manna í sambærilegum stöðum og tekur tillit til þess, hve mikið starf þessir menn hafa leyst af hendi í þarfir þjóðfjelagsins, þá er jeg viss um, ef vit hans og sanngirni fær að njóta sín, þá mun bæði hann og aðrir hv. deildarmenn fallast á það, að þjóðin hefir ekki efni á að launa menn þessa eins illa og gert er ráð fyrir í frv. Till. okkar á þskj. 724 um laun þessara manna er svo vel í hóf stilt, að jeg vænti þess, að hv. þingdeild leyfi henni fram að ganga.

Jeg verð enn einu sinni að biðja hæstv. ráðh. að athuga vel allar ástæður í þessu efni, og vænti þess, að háttv. deild sjái, að hjer er ekki verið að flana út í neina fjárhagslega örðugleika eða skapa skaðlegt fordæmi með samþykt þeirrar till., heldur aðeins verið að sjá fyrir því, að þessir starfsmenn ríkisins sjeu svo launaðir, að þeir megi við una.