03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (137)

1. mál, fjárlög 1929

Sigurjón Á. Ólafsson:

Fyrir 25. brtt. á þskj. 353 er jeg skráður ásamt hv. 2. þm. Reykv. (HjV). Það er utanfararstyrkur til Björns Björnssonar gullsmiðs, til þess að kynna sjer myndlist, teiknilist og listiðnað nágrannaþjóðanna, 2500 kr.

Jeg veit ekki, hvort hv. þm. hafa lesið umsóknina, sem liggur fyrir frá þessum manni, en jeg get þá í fáum dráttum skýrt frá, hvað hjer er um að ræða.

Björn hefir sótt um styrk til þess að kynna sjer þær listgreinir, sem jeg nefndi. Hann hefir verið kennari við iðnskólann hjer í Reykjavík, einnig kent við kennaraskólann; þar að auki hefir hann starfað mikið fyrir heimilisiðnaðarfjelag Íslands. Hann hefir kent listteikningu sjerstaklega. Þessi maður er að dómi þeirra manna, sem þekkja hann best og gefa honum vottorð, sjerlega listhneigður maður og hefir lagt sig mjög eftir þeim fræðum, er jeg áður nefndi, svo að hann er orðinn afburða vel hæfur í þeim efnum. En nú er það svo, að hann mun þurfa að fá sjer frekari fræðslu í þessum efnum heldur en kostur er á hjer, og því hefir hann hugsað sjer að ferðast til útlanda, til þess að kynna sjer allar nýjungar á þesau sviði, sem sjá má af vottorði þeirra, sem mæla með honum; en það eru alt mikils metnir menn, þeir dr. Páll Eggert Ólason, Einar Jónsson myndhöggvari, Gísli Guðmundsson gerlafræðingur, Helgi Eiríksson skólastjóri iðnskólans og Lúðvík Guðmundsson skólastjóri á Hvítárbakka. Þessir menn gefa þau vottorð, að Björn sje frábærum hæfileikum gæddur á þessu sviði og mæla mjög fastlega með nefndum styrk honum til handa. Björn hygst að ferðast til Parísar og Þýskalands, og sjerstaklega tekur hann það fram, að hann vilji kynnast öllum þjóðlegum listiðnaði á Norðurlöndum. Er enginn vafi, að slíkt ferðalag mundi bera mikinn ávöxt; því að eins og kunnugt er, er mikill áhugi hjá Heimilisiðnaðarfjelagi Íslands um að beita sjer fyrir því, að hjer gæti myndast þjóðlegur iðnaður. En til þess að nám í þessum efnum komi að notum, þarf einhver að vera til að kenna; og teikning er þá sem frumatriði þeirrar kenslu.

Við iðnskólann er það svo, að þar læra menn úr öllum stjettum, menn sem alls ekki eiga samleið í þeim fræðigreinum, sem þar eru kendar. Einn vill læra þetta og hinn hitt. Þess vegna þarf maður sá, sem kensluna hefir á hendi, að vera svo fjölhæfur, að hann geti kent hverjum nemanda það, sem er við hans hæfi og honum best hentar. Maður sá, sem hjer er um að ræða, er fátækur, og eina leiðin til þess, að hann geti komist þessa ferð, er sú, að Alþingi samþykki þennan ferðastyrk handa honum. Fjölyrði jeg svo ekki frekar um þessa tillögu.

Þá er jeg, ásamt fleirum flokksmönnum mínum, flutningsmaður að brtt. XXIX á þskj. 353. Er þar farið fram á 10 þús. kr. fjárveitingu til Slysavarnafjelags Íslands. Jeg verð að byrja á því að biðja hv. dm. afsökunar, þó að jeg geri fyllri greinargerð fyrir till. þessari en venja er til um slíkar tillögur. Liggur þar tvent til, fyrst það, að upphæð þessi er nokkuð há, og í öðru lagi, að fjelag þetta er ekki ennþá orðið svo kunnugt almenningi sem skyldi, en mikil nauðsyn er, að till. nái fram að ganga.

Jeg hefi nú átt tal um till. þessa við ýmsa þingmenn, og hafa sumir tekið henni vel, en aðrir virðast ekki skilja nauðsyn hennar til hlítar. Er jeg því ráðinn í að láta hana ekki koma til atkvæða við þessa umræðu, til þess að hv. þm. gefist kostur á að kynna sjer hana betur. En eigi að síður vil jeg leyfa mjer að skýra tilgang hennar nú við þessa umræðu.

Eins og mörgum hv. þm. mun eflaust kunnugt, var í síðastliðnum jantíarmánuði stofnað hjer fjelag, sem heitir Slysavarnafjelag Íslands. Var þörfin fyrir að hefjast handa í þeim málum orðin svo brýn, að ekki mátti lengur dragast. Af öllum þeim, sem farast af slysum hjer á landi, drukna í sjó 4/5. Til samanburðar má geta þess, að í Svíþjóð er það ekki nema 1/3 af þeim, sem af slysum farast, sem drukna í sjó, og í Noregi ½. Eru því tiltölulega flestar druknanir hjá okkur af Norðurlandaþjóðunum. Þetta hefir lengi verið mikið áhyggjuefni margra hugsandi manna, og þess vegna bundust ýmsir menn hjer í bæ, sem áhuga hafa á því að reyna að draga úr þessum tíðu slysum, fjelagsskap í því augnamiði að vinna að umbótum á þessum sviðum.

Þeir menn, sem tekið hafa forystu þessa fjelagsskapar, eru allir þjóðkunnir menn og fullir áhuga á því að láta eitthvað gott af sjer leiða í þessum málum. En hjer strandar á því sama skeri, sem ýmsar framkvæmdir vilja stranda á; það er peningaleysið, því að það er hjer sem annarsstaðar, að peningarnir eru afl þeirra hluta, sem gera skal, að allmiklu leyti.

Iðgjöld til Slysavarnafjelagsins eru ekki nema 2 kr. fyrir mann á ári. Þau mega til að vera svo lág, til þess að hægt sje að fá allan þorra fólks, karla og konur, í fjelagið. Fyrir iðgjöldin er því ekki mikið hægt að gera. Það er því einróma álit fjelagsstjórnarinnar, að svo framarlega sem fjelagið eigi eitthvað að geta gert þessum miklu nauðsynjamálum til framgangs, þá þurfi Alþingi að leggja því til eitthvert fje. Menn munu nú kannske margir spyrja: — hvað á fjelag sem þetta að gera með fje? Því er fljótsvarað. Fjelagið þarf að hafa fastan starfsmann, mann, sem hefir sjerþekkingu á þessum sviðum, því að verkefnin eru mörg, og slíkan mann hefir fjelagið einmitt trygt sjer.

Starf hans verður fyrst fólgið í því að kynna sjer staðhætti kringum land. Er það því fyrst til að byrja með rannsóknarstarf. Og þegar ákveðnar tillögur liggja fyrir, koma framkvæmdirnar. Ennfremur mun þeim sama manni falið að ferðast um landið að stofna fjelagsdeildir og fræða fólkið um þessi mál.

Þá vil jeg geta þess, að fjelag þetta hefir þegar gert ráðstafanir til þess að fá línubyssu frá útlöndum; ennfremur hefir það skrifað út og gert ráðstafanir til að fá fataefni, sem svo er gert, að það ver menn fyrir kulda í sjó, og getur því í sumum tilfellum forðað mönnum frá druknun.

Þetta kann nú að þykja lítils virði, en þess ber þá að gæta, að þetta eru aðeins byrjunartilraunir.

Það fyrsta, sem fjelag þetta þarf að hefjast handa með, er að fá hingað björgunarbát. Og jeg vænti, að þeir atburðir, sem hjer hafa nýlega orðið, megi verða til þess, að það verði ekki látið líða á löngu, þangað til það verður framkvæmt að fá hingað góðan björgunarbát; enda er þegar hafinn undirbúningur frá fjelagsins hálfu um það mál.

Verkefnin, sem fyrir liggja á þessu sviði, eru óneitanlega mörg, og má í því efni benda til nefndarálits frá nefnd þeirri, sem skipuð var af fiskiþinginu 1925 til þess að gera till. um þessi mál. Er nefndarálit þetta prentað í Ægi og er í 12 liðum. Er þar fyrst bent á, að hafa þurfi eftirlit með skipasmíðum hjer á landi. Ennfremur þurfi að hafa eftirlit með kaupum erlendra skipa, sem hingað eru fengin. Þá þurfi og að hafa eftirlit með útbúnaði skipa, svo sem björgunartækjum o. fl. Einnig þurfi að taka til athugunar vita, veðurspár, útvarp og miðunarstöðvar. Alt þetta er í áttina til þess að varna slysum, og jeg lít svo á, að það eigi að vera sameiginlegt áhugamál allrar þjóðarinnar að vinna að framgangi þessara mála, ekki aðeins með því að leggja fram fje, heldur líka með því að koma með góð og viturleg ráð, sem mættu verða til þess að draga eitthvað úr því mikla mannfalli, sem við svo að segja árlega verðum fyrir.

Það er mín persónulega skoðun, að það sje íslenska ríkið, sem fyrst og fremst eigi að starfa að þessum málum. Hjá öðrum þjóðum er það svo, að björgunarstarfsemin er beinlínis rekin af ríkjunum sjálfum, eða þá styrkt af þeim. Englendingar voru í þessum málum, sem mörgum öðrum, brautryðjendurnir. Þeir stofnuðu líknarfjelag í þessu skyni 1824. Næstir þeim voru Hollendingar; þeir stofnuðu sama ár tvö „prívat“ fjelög í sama tilgangi. Í Belgíu er fjelag frá 1832, sem kostað er af ríkinu. Þá hafa Bandaríkin kostað alla björgunarstarfsemi hjá sjer alt frá því 1848. Í Danmörku hefir það líka verið gert frá 1852, og nú eru útgjöld danska ríkisins til þessara mála hartnær 1 milj. króna. Hjá Norðmönnum byrjaði þessi starfsemi 1854, og nú er þar björgunarstarfsemi rekin af fjelagi, sem nær yfir alt landið, og styrkt af ríkinu með allríflegri fjárupphæð. Í Svíþjóð er björgunarfjelag frá 1855, kostað af ríkinu, og sömuleiðis fjelag frá 1907, sem tekið hefir upp björgunarstarfsemi. Í Frakklandi eru tvö fjelög og bæði styrkt af ríkinu. Annað stofnað 1873. Í Þýskalandi er fjelag frá 1865. Á Spáni er fjelag frá 1880, styrkt af ríkinu. Og sömuleiðis í Japan, Portúgal og Lettlandi.

Jeg hefi talið þetta upp hjer til þess að sýna fram á, að við Íslendingar virðumst vera mjög aftarlega í þessum menningar- og mannúðarmálum. Við höfum hafið þessa starfsemi nú, og má ekki seinna vera. Vænti jeg því, að hv. þm. sjái, að hjer er ekkert smámál á ferðinni, heldur þvert á móti, eins og landlæknir okkar telur, eitt hið mesta vandamál, sem við eigum nú við að stríða. Jeg verð því að vona, að Alþingi sýni því velvild og skilning.

Mjer þykir leitt, að hæstv. dómsmrh. skuli ekki vera staddur hjer í deildinni, því að honum verð jeg að víkja nokkrum orðum. Jeg skal þá fyrst þakka honum fyrir undirtektir hans um það, að nýja varðskipið skuli vera útbúið með nýtísku björgunaráhöldum, sem hægt er að koma við á slíku skipi, enda þótt jeg búist við, að hjá því geti björgunarstarfsemin ekki orðið nema aukastarf, því að ekki er hægt að ætlast til þess, að það geti altaf verið til taks, þegar slys ber að höndum.

Erlendis er björgunarstarfsemin aðallega með tvennu móti. Fyrst og fremst með skipum, og í öðru lagi frá stöðvum í landi. Er slík björgunarstarfsemi öllu almennari. Gæti því verið gott að fá þetta nýja varðskip sem hjálp í viðlögum, því annað getur það í raun og veru ekki orðið.

Jeg þykist nú hafa sýnt fram á, að fjelag þetta hefir ærið að starfa, ef það hefir fje og kraft til þess að vinna að þessum málum, og þó að jeg hafi talað hjer aðallega um sjóslys, þá mun það líka taka til athugunar slys, sem verða í vötnum og ám og hverskonar slys, sem fyrir kunna að koma, og varnir gegn þeim. Það er því ekki aðeins fjelag, sem starfar við sjávarsíðuna, heldur einnig jafnt til sjávar og sveita. Það verður því líka fjelag bændanna og yfirleitt allra landsmanna.

Læt jeg svo úttalað um þetta mál að sinni, og eins og jeg tók fram í byrjun ræðu minnar, tek jeg XXIX. till. á þskj. 353 aftur.