24.01.1928
Efri deild: 5. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (1376)

19. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Baldvinsson:

Eins og kunnugt er, voru í fyrra, er mál þetta var á döfinni, mjög skiftar skoðanir manna um það. Jeg var einn þeirra, sem taldi sjálfsagt að fella það. Einkum taldi jeg skaðlegt að rýra rjett þjóðarinnar til þess að hafa áhrif á löggjöfina. Enda hefur þjóðin tekið mjög fálega undir stjórnarskrárbreytinguna. Á þingmálafundum hefir það að vísu sumstaðar verið samþykt. En víða hefir það alls ekki verið tekið fyrir, og á mörgum stöðum felt. Það er þess vegna fjarri því, að vilji þjóðarinnar standi á bak við þetta frv.

Jeg finn ekki hjá mjer sjerstaka ástæðu til að gleðjast yfir fylgi hæstv. forsrh. við frv. Jeg vona, að það hverfi ofan í þá gröf aftur, sem það átti að fara í i fyrra. Að vísu skal jeg játa, að hæstv. stjórn gat ekki, úr því sem komið var, annað en lagt málið fyrir Alþingi, en mjer finst, að þingið ætti að reyna að hraða störfum sínum og láta ekki þetta frv. tefja lengi fyrir sjer. Enda óhætt að fullyrða, að það er ekki vilji þjóðarinnar, að það nái fram að ganga.