24.01.1928
Efri deild: 5. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (1379)

19. mál, stjórnarskipunarlög

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Þar sem hv. 3. landsk. talaði um, að það vildi gleymast, sem ritað væri í blöðin, þá vildi jeg nota tækifærið til að minna á eitt átakanlegt dæmi þess, sem hv. þm. ætti að kannast við, en það dæmi er frá árinu 1908, grein sem hv. þm. (JÞ) ritaði þá í blöðin, en sem hann síðan hefir ekki virst vilja standa fullkomlega við.

En þetta var nú ekki aðalatriðið, heldur hitt, að jeg vil leyfa mjer að spyrja hv. þm. (JÞ) hvað olli því, að stjórnarskrárbreytingarfrv. voru drepin á þinginu 1924. Þáverandi forsrh. bar þá fram frv. til stjórnarskrárbreytingar í Ed., og jeg annað. Þau voru því bæði til athugunar, og var frv. forsrh., Jóns heit. Magnússonar, lagt til grundvallar, þar sem hans flokkur var í meiri hluta. En hvað skeði? Frv. var drepið, og flokksmenn hv. þm., sem þá rjeðu öllu í Ed., voru svo gráðugir í að drepa það, að þeir leyfðu því ekki einu sinni að komast til Nd., þar sem hv. 3. landsk. (JÞ) átti þá sæti.

Það væri heppilegt, að ástæðan fyrir því kæmi fram. En mesta þýðingu hefði það þó fyrir Íhaldsflokkinn sjálfan, að glöggva sig á því.