04.02.1928
Efri deild: 14. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (1386)

19. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Þorláksson:

Jeg kannast við það, að langar umr. eru þýðingarlitlar í máli þessu. Á síðasta þingi var þetta frv. mál þáverandi stjórnar, og er því mjer í nokkru skylt. Á þessu þingi er það mál núverandi stjórnar; hefir hún lagt það fyrir þingið af fúsum og frjálsum vilja, án þess að henni bæri til þess nokkur skylda, nema sú, er samviska hennar býður henni. Hæstv. forsrh. bar fram þetta frv., enda er það í fullu samræmi við afstöðu þá, er hann tók til málsins í fyrra, í blaði sínu, svo og það, að hann studdi mál þetta í fyrra með atkv. sínu.

Ástæður gegn frv. þessu eru margræddar — og marghraktar. Rök þau, sem fram hafa verið borin á báða bóga, eru öllum hv. þdm. kunn, sem hjer áttu sæti í fyrra, og hinir tveir hv. þm., sem nýir eru, eru þegar búnir að binda atkv. sitt með undirskrift undir nál. Út af nokkrum ummælum í nál. meiri hl., að gera megi ráð fyrir, að sparnaður við fækkun reglulegra þinga sje vafasamur, vil jeg vísa á það, sem hæstv. forsrh. hefir áður skrifað um þetta mál. Hann hefir manna mest og best sýnt fram á, hvern sparnað þinghald annaðhvert ár hafi í för með sjer. Jeg fyrir mitt leyti er sannfærður um, að spara megi við það helming þess þingkostnaðar, sem nú er.

Jeg fæ ekki sjeð, að það breyti miklu frá því fyrirkomulagi, sem nú er, þótt fjárlögin yrðu samin til tveggja ára í senn. Þau eru ætíð samin í ársbyrjun, ári áður en þau eiga að koma í gildi, án þess að þingið geti haft nokkra hugmynd um afkomu atvinnuveganna næsta ár, og varla um árið þar á undan. Vissan er hvorki meiri nje minni, þótt fjárlögin eigi að gilda til 2 ára. Líkurnar fyrir því, að áætlanir geti jafnvel verið rjettari, eru meiri en áður, því að meiri líkindi eru til þess, að tvö ár bæti hvort annað upp, heldur en þeim bregði báðum til sama vegar, hvort heldur er til ills eða góðs árferðis.

Ef sú tilhögun væri, að fjárlögin væru sett stuttu á undan því tímabili, sem þau ættu að gilda, svo að sjá mætti afkomu ársins á undan, þá væri kanske ástæða til þess að hafa á móti frv. Nú er þessu ekki svo farið, svo að hjer er ekki um neina afturför að ræða frá því fyrirkomulagi, sem nú er. Meiri hl. vísar í landsreikningana 1926, til þess að sanna mál sitt, að ekki takist vel að setja fjárlög fyrirfram. Það stendur sjerstaklega á með landsreikningana árið 1926, og þau útgjöld, sem af þeim fjárlögum voru goldin. Þessi fjárlög voru sett í ársbyrjun 1925, og þá var búist við að verja öllum tekjum ríkissjóðs til lúkningar á lausaskuldum. Þess vegna voru útgjöldin svo naumlega skömtuð hvað verklegar framkvæmdir snertir, eins og þau bera með sjer. En nú var greiðslu á lausaskuldum lokið 1925, svo að ástæðan fyrir íhaldssemi til verklegra framkvæmda 1926 var þar með í burtu fallin. Þá tók stjórnin það á sína ábyrgð, að verja nokkru meira fje til verklegra framkvæmda en þingið 1925 hafði búist við að hægt yrði. Svona gátu áætlanirnar brugðist, þótt eigi væri nema um eins árs fjárlög að ræða, en þar fyrir er ekki ástæða til að ætla, að svo muni fara, þótt fjárlögin verði sett til 2 ára í senn.

Því hefir verið haldið fram, að þjóðin hafi skift um skoðun í þessu efni og leggi nú ekki eins mikla áherslu á sparnað við þinghald annaðhvert ár og hún gerði áður. Jeg veit ekki, hvort þessi skoðanaskifti hafa átt sjer stað; að minsta kosti hafa engar sannanir verið færðar fyrir þeim. Það var ekki nema eðlilegt, þótt frv. þetta hafi ekki verið notað sem deilumál við kosninganar í sumar, þar sem aðeins voru 9 atkv. gegn frv. í þinginu í fyrra. Menn hafa álitið það sem útkljáð mál, að breytingin yrði gerð, þar sem atkvæðamunur var svo mikill í þinginu, og hafa því ekki fundið ástæðu til þess, að taka mál þetta upp á kosningafundum. Mjer finst, að ef virkilega hefði verið nokkur mótstaða á móti máli, sem hefði haft svo mikið fylgi í nýrofnu þingi, þá hefði menn hlotið að taka málið mjög upp á þingmálafundum, til þess að tryggja afstöðu þingmanna. En þetta hefir ekki verið gert, og tel jeg það sönnun þess, að kjósendur vilji láta frv. verða að lögum.

Um þær þingmálafundargerðir, sem samþ. hafa till. um málið, er það að segja, að jeg legg ekki mikið upp úr þeim. Menn vita, hvernig stendur á þessum till. Þær eru sendar hjeðan úr Reykjavík, með tilmælum um að fá þær bornar upp og samþyktar, og svo er það gert. Þeir fáu menn, sem mæta á þingmálafundunum, gera það fyrir sína forráðamenn að bera þær upp og gefa þeim atkvæði, og jeg hygg, ef þessar tölur verða bornar saman víð tölu þeirra manna, sem eiga að ráða lagagerð hjer, að talan verði svo lág, að hún muni ekki geta rjettlætt mikið skoðanaskifti fulltrúa kjósenda, þingmannanna.

Af því, sem hv. frsm. meiri hl. hefir borið fram, ætla jeg aðeins að víkja að því, sem hann sagði um síðasta málslið 1. gr. Hv. þm. fanst þetta atriði vera hættulegast af öllu í frv., og þykir mjer það alleinkennilegt, þegar það kemur frá manni, sem vill láta hafa þing árlega. Jeg get skilið það frá mönnum, sem ekki vilja láta halda þing nema annaðhvert ár, en jeg get ekki skilið það frá hv. frsm. meiri hl. En hv. þm. fann svo annað til; hefir líklega fundið, að þetta var dálítið veil aðstaða, svo að hann bætti við, að eftir þessu mætti halda reglulegt þing tvisvar á ári. Þetta er náttúrlega alveg skakt hjá hv. þm., því að þegar stjórnarskráin ákveður, að reglulegt þing skuli halda annaðhvert ár, en heimilar, að með lögum megi ákveða að halda það árlega, þá er engin heimild til að ákveða með einföldum lögum annað en að það skuli haldið árlega; auðvitað er ekki heimild til að ákveða, að það skuli vera haldið tvisvar á ári. Jeg held, að hv. frsm. meiri hl. hafi þarna sýnt það, að honum hafi orðið svo örðug leitin að röksemdum á móti frv., að hann hafi leiðst út í það, að búa til hugsmið hjá sjálfum sjer í röksemda stað, sem ekki gat staðist.

En ef það nú væri orðið svo, að breyting væri orðin á hugum kjósenda eða hugum alþingismanna, um þörfina á því, að spara alþingiskostnað með því að hafa þinghald aðeins annaðhvert ár, þá getur náttúrlega ekki verið til þess nema ein ástæða, og hún er sú, að menn líti bjartari augum á fjárhag lands og ríkissjóðs heldur en fyrir einu ári síðan, að það, sem þeim þá þótti nauðsynlegt að gera í sparnaðar skyni, þyki þeim ekki nauðsynlegt að gera nú.

Ef frv. verður felt í þessari hv. deild, sem jeg þó vona að ekki verði, þá getur sú nýfráfarna stjórn ekki látið sjer annað en vel líka þann dóm um breytingar á fjárhagsástæðum ríkisins, frá þjóðinni, sem felling frv. óneitanlega bæri vott um.