04.02.1928
Efri deild: 14. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (1387)

19. mál, stjórnarskipunarlög

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg vildi segja fáein orð um stjórnarskrána, áður en hún kemur nú til atkvæða, ekki af því, að jeg hafi ekki nú á nokkrum undanförnum þingum haft tækifæri til að skýra frá minni skoðun, heldur af því, að það er viss hlið á málinu, eins og það hefir verið borið fram af fyrverandi stjórn, sem jeg ekki sá ástæðu til að gagnrýna fyr en nú.

Í þessu máli eru tvö atriði, sem koma til greina. Annað er sú breyting, að þingið skuli vera haldið annaðhvert ár, þangað til Alþingi með einföldum lögum gerir aðra ráðstöfun. Þetta álit jeg, að sje ekki heppilegt, og það er auðsjeð, að fráfarandi stjórn hefir ekki treyst því mjög vel, að þetta yrði framkvæmt til lengdar, úr því að hún sló þennan varnagla, sem hennar lið í báðum deildum hefir fylgt, að þessu mætti breyta með einföldum lögum.

Hitt atriðið er það, að breyta skuli landskjörinu. Það er breyting, sem jeg álít miklu óheppilegri. Jeg gæti vel samþykt, að landskjör fjelli niður, en sú limlesting á landskjörinu, sem hjer er farið fram á, er miklu verri, og jeg hefi grun um það, að þessi breyting á landskjörinu hafi verið aðalatriðið, sem vakti fyrir fyrverandi stjórn, því að viðvíkjandi þessari breytingu ljet hún ekki fylgja nokkurn kost gagnbreytingar, nema þá með stjórnarskrárbreytingu.

Jeg ætla nú, í svo stuttu máli sem hægt er, að minna á gang þessa máls, síðan þetta umtal hófst. Jeg ætla, að sú hríð hafi verið hafin í kreppunni, sem var árin 1920–21, þegar menn fóru að átta sig á vandræðunum. Þá var það, eins og hv. 3. landsk. (JÞ) ber fram, að það blað, sem núverandi forsrh. var ritstjóri við, beitti sjer fyrir þessari breytingu. Síðan tók þingið málið til meðferðar, og hafa margir menn, bæði í Framsóknar- og Íhaldsflokknum, viljað, að gerð yrði tilraun með að hafa fjárlagaþing aðeins annaðhvert ár. En sá er munur á aðstöðu flokkanna, að Framsóknarmenn hafa hvað eftir annað reynt að koma fram þessu aðalatriði einu og blanda ekki inn í það öðrum deiluatriðum. En Íhaldsflokkurinn hefir, um leið og hann fór að sinna þessari gömlu uppástungu Tímans, tengt við það ýms hættuleg aukaatriði. Ef jeg man rjett, þá var það á þinginu 1922, sem Sigurður heitinn Stefánsson í Vigur beitti sjer fyrir stjórnarskrárbreytingu, en það var altaf nælt einhverju varhugaverðu aukaatriði á þinghaldið annaðhvert ár. Stundum það, að ráðherra skyldi ekki vera nema einn. Stundum, að kjörtímabilið skyldi vera 6 ár, og seinast, að breyta algerlega landskjörinu. Á móti þessum breytingum, ráðherrafækkuninni og því, að lengja kjörtímabilið, beitti blað Framsóknarmanna sjer altaf, þótti það vera spor aftur á bak og í kyrstöðuáttina. Það leiðir af sjálfu sjer, að fyrir frjálslynda menn er það eftirsóknarvert, að kjörtímabilið sje sem styst, en Íhaldsmenn gerðu það að kappsmáli um stund, að hafa það mjög langt, helmingi lengra en í Noregi. Fyrir þá menn, sem ráða yfir handbæru fje og ýmsum meðulum til kosningakúgunar, er það um að gera, að hafa kosningar sem sjaldnast. En þegar það var sýnt, að þjóðin var á móti þessum fleygum, fann fyrverandi stjórn upp á því, að gera það að höfuðatriði í málinu, að landskjörið skyldi verða limlest og því gerbreytt, og þá er komið að þeirri breytingu, sem jeg hygg, að hafi verið höfuðatriðið fyrir fyrverandi forsætisráðherra, hv. 3. landsk. (JÞ), þegar hann beitti sjer fyrir samþykt þessa frv. í fyrra. Það var tiltölulega kænn útreikningur frá hans hálfu, að bæta flokksaðstöðu sína og auka kyrstöðu í pólitísku lífi landsins, með því að haga breytingunni eins og hjer er gert ráð fyrir.

Jeg vil þá reyna að útskýra það, í hverju þessi kæni útreikningur er fólginn. Eins og til hagar nú, eru landskjörnir þm. kosnir um land alt, í tvennu lagi. Við síðustu kosningar kom það í ljós, að Íhaldsflokkurinn fjekk einn fulltrúa, Framsóknarmenn einn og Alþýðuflokkurinn einn, og ef þessu heldur áfram, þá fær hver flokkur tvo fulltrúa í Ed. En nú stendur svo á, að Íhaldsflokkurinn á þar þrjá fulltrúa landskjörna, en Alþýðuflokkurinn ekki nema einn, en eftir þeirri reynslu, sem nú er, er Íhaldsflokkurinn nokkru sterkastur, Framsóknarflokkurinn næstur honum og Alþýðuflokkurinn nokkru minstur. En það, sem hefir vakað fyrir hv. 3. landsk. með þessari breytingu á landskjörinu, mun hafa verið það, að undir svipuðum kringumstæðum og verið hafa, mundi Íhaldsflokkurinn geta fengið þrjá menn af sex, ef kosning fer fram í einu, Framsóknarflokkurinn tvo og Alþýðuflokkurinn einn, eða verkamenn tvo og bændur einn. Það er náttúrlega ekki hægt að lasta, þó að hv. þm. (JÞ) vilji koma því svo fyrir, að hans flokkur standi vel að vígi, vilji helst fá jafntefli á móti hinum tveim flokkunum, en jeg verð samt nú þegar að koma að því, í hverju það liggur, að þessi breyting er svo sjerstaklega óheppileg fyrir bændastjettina.

Eins og kunnugt er, er lögfestur sumardagur fyrir landskjör, en aftur á móti er fyrsti vetrardagur lögfestur fyrir kjördæmakosningu. En með þeirri breytingu, sem hjer er um að ræða, hverfur landskjör yfir á haustið, og verða hinir landskjörnu þá kosnir um leið. Nú muna það margir frá landskjörinu síðasta, aukakosningu í staðinn fyrir Jón heitinn Magnússon, að þá var stórhríð og snjókyngi mikil á Norður- og Austurlandi, en aftur á móti gátu menn sótt á kjörstað í verstöðvum og kaupstöðum, enda eru þar bifreiðar löngum til taks, til að safna saman kjósendum. Aðstaða sveitamanna er þess vegna sú, að í ofanálag á þann óhentuga, lögfesta kjördag, fá þeir landskjörið flutt yfir á haustið, og þó að þessu kynni að verða breytt síðar, þá er engin vissa, máske ekki líkur, að það takist í náinni framtíð. Jeg man vel eftir, að slíkt frv. var stöðvað í Ed. fyrir nokkru, að flytja kjördaginn frá haustinu yfir til sumarsins, af Íhaldsmönnum. Nú skulum við hugsa okkur, að haustkosning verði líkt sótt og var haustið 1926. Bæirnir safna öllum sínum kjósendum saman, en í hálfu landinu getur verið stórhríð og fannfergi svo mikil, að varla verði hægt að komast á milli bæja í hásveitum, eða að minsta kosti nóg til þess, að mjög mikill hluti kjósenda geti ekki notið atkvæðisrjettar. Að vísu getur farið fram lögleg kosning í hjeraði, þó að tiltölulega mjög lítill hluti af kjósendum sæki kjörfund í sveitum, þar sem haustveðrið er venjulega verst. En bændaþátttakan í landskjörinu yrði tiltölulega mjög lítil. Í Árnessýslu, haustið 1919, var svo slæmt veður, að Sigurður heitinn Sigurðsson fullyrti um miðjan dag, að hann væri fallinn, sem og líka var, af því að í upphreppunum var hríðarveður, svo að fólk komst ekki á kjörstað. Það er auðsjeð, hver niðurstaða mundi verða af slíkum kjördegi, það mundi verða kosnir þrír Íhaldsmenn, sem berðust fyrir hagsmunum bæjanna, tveir Alþýðuflokksmenn, sem líka berðust fyrir hag bæjanna, þó að nokkuð sje á annan hátt, og svo einn Framsóknarflokksmaður. Upp úr þessari kosningu hefði þá bæjaveldið fimm menn, en bændur aðeins einn, og þessu má altaf búast við um landskjör í vetrarbyrjun.

Þegar bændur landsins fara að athuga það, hversu kaldrifjaður hv. 3. landsk. hefir verið í þeirra garð með þessu, þótt það komi sjer vel fyrir hans flokk, með höfuðvald sitt í kauptúnunum, þá þykir mjer ekki ósennilegt, að þessi útreikningur hans verði honum til lítillar ánægju, þegar hann fer að tala við sveitamenn um það, hve vel hann unni þeim alls góðs af stjórnmálavaldi þeirra í landinu.

Hjer hefir verið samþykt í deildinni í dag annað frv., sem búið er að fella fjórum sinnum í þessari hv. deild. Það hefir ávalt verið samþykt í Nd., en felt hjer, og við vitum, að það er fyrir meting og kapp tveggja manna hjer í bæ, sem standa að fyrverandi meiri hl. í þessari hv. deild. Við skulum nú hugsa okkur það, að hjer væri kominn í Ed. varanlegur stöðvunarher, eins og sá, sem beitt var á móti hinu svonefnda rakarafrv. Íhaldsflokkurinn gæti, ef þessi breyting nær fram að ganga, fengið stöðvunarvald í Ed., þótt hann væri í minni hl. í landinu og þinginu. Þess verður nefnilega að gæta, að fái sá flokkur, sem vill beita sjer fyrir kyrstöðu í Ed., þrjá fulltrúa við landskjör, getur hann fengið jafntefli þar, þótt hann kunni að vera í minni h1. í Nd., þ. e. haft nóg afl til þess að fá fjóra menn kosna upp í Ed. að nýafstöðnum kosningum, þá er svo komið, að búið er að skapa sjö manna vald í Ed., sem getur stöðvað alla framfaralöggjöf í landinu um óákveðinn tíma. Það eina, sem getur brotið slíkan flokk á bak aftur, er aðeins jafn gagngerður ósigur Íhaldsins og var í vor, og grunur minn er sá, að hv. 3. landsk. (JÞ), með sinni laglegu tölvísi, hafi fundið það, að Íhaldsflokkurinn gæti líklega aldrei fengið meiri hl. í Ed., en með þessari breytingu gæti hann e. t. v. gert sjer von um að fá neitunarvald hjer og þar með því að skapa líkt ástand og það, sem eyðilagði alt framkvæmdavald í Danmörku fyrir aldamótin. Jeg hygg, að þeir menn, sem þekkja vinnubrögðin Íhaldsins hjer í deildinni á undanförnum árum, mundu trúa þeim mönnum til að stöðva hin stærstu og bestu mál; og það með því meiri ánægju sem þau væri stærri. Jeg býst þess vegna við, að almenningur muni mjög undrast, þegar honum er ljós orðin sú undarlega ljettúð, sem jafnan hefir komið fram hjá fylgismönnum hv. 3. landsk. (JÞ) í stjórnarskrármálinu, hvernig reynt hefir verið láta afturhaldskenda fleyga loða við hverja verulega breytingu, og þegar svo hefir til komið, og flokkurinn hefir getað fengið liðveislu annara til að koma frv. í gegnum þingið, þá hefir verið ómögulegt að fá hann til þess að fella úr fleygana. Í fyrra bauð jeg og hv. 2. þm. S.-M. (IP) þrásinnis stuðning til þess að samþykkja frv., ef flokkurinn vildi fella úr þessa fleyga. Hv. þm. Seyðf. (JóhJóh) neitaði þessu boði mjög eindregið, og alveg sama átti sjer stað árið 1924 á milli mín og Jóns heitins Magnússonar, sem þá var í stjórnarskrárnefnd. Nei, það var ekki við það komandi, altaf skyldu fleygarnir vera með. Og svo vildi það til, að á því sama þingi, árið 1924, þegar Íhaldsflokkurinn var nýtekinn við stjórn, þá drepur flokkurinn frv. fyrir sínum eigin foringja, Jóni heitnum Magnússyni. Það var þó síður en svo, að þeir hefðu nokkra ástæðu til að drepa stjórnarskrá með fyrirmælum um þinghald annaðhvert ár þá, því að þeir voru í meiri hluta í báðum deildum, og sjerstaklega í sterkum meiri hl. hjer í Ed., og gátu gert hvað sem þeir vildu.

Niðurstaðan af þessum langa leik, síðan 1922, er þá sú, að aldrei hefir Íhaldsflokkurinn eða sparnaðarbandalagið fengist til að fást við breytingu á þinghaldi, svo að það yrði aðeins annaðhvert ár, nema einhverjir bakþankar hafi jafnan verið með, og einu sinni hafa þeir drepið frv. fyrir sínum eigin forkólfi. Í fyrra neituðu þeir allri samvinnu og spottuðu þá, sem vildu fylgja aðalhugmyndinni án fleyga, með því að breyta frv. þannig, að gera það sem óaðgengilegast fyrir frjálslynda menn í landinu. Í fyrra var landskjörsbreytingin sú lævísa hagsmunabreyting Íhaldinu í vil, sem var látin fylgja aðalatriðinu, þingafækkun.

Jeg býst þess vegna við, að hv. 3. landsk. geti ekki tekið það illa upp fyrir þeim, sem hann er að reyna að leika á í þessu máli, þótt þeir leggi sig ekki alveg undir öxina.

Jeg hefi skilið óheilindi Íhaldsmanna í þessu máli frá því jeg kom á þing 1923, og að jafnaði orðið að taka þátt í meðferð málsins hjer í deildinni. Jeg verð að segja, að enda þótt jeg með mikilli þolinmæði hafi beðið þar til nú með að fletta ofan af hinu innra samhengi málsins, þá er það ekki of mikill greiði við Íhaldið, þegar litið er á þá fyrirgreiðslu, sem fyrverandi stjórn gerði Framsóknarflokknum, með því að leysa þingið upp í fyrravor og hafa kosningar þá. Það var að vísu fyrst hugsað sem herkænskubragð, átti að gagna kyrstöðunni í landinu, þótt leikslok yrðu önnur.