04.02.1928
Efri deild: 14. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (1390)

19. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg geri ráð fyrir, að við frsm. meiri og minni hl. höfum þegar lagt niður vopnin hvor gagnvart öðrum, og sje jeg ekki annað en að við höfum háðir sloppið ómeiddir úr viðureigninni.

En hv. 3. landsk. hefir látið þau orð falla í garð meiri hl., og þá einkum minn, sem jeg get ekki látið ómótmælt. Hann hjelt því fram, að þó að fjárlög væru samin til tveggja ára í senn, væru ekki líkur til þess, að þau yrðu óáreiðanlegri en ella. Þau yrðu jafnvel áreiðanlegri. Þessu hefir hv. landsk. að mestu leyti svarað, en þó vildi jeg fara um þessi ummæli hv. 3. landsk. nokkrum orðum, því að jeg sje ekki betur en að þau sjeu, vægast sagt, fjarstæða. Það er viðurkent af hv. 3. landsk. að altaf sjeu á því miklir erfiðleikar, að semja fjárlög til eins árs. En eftir allri reyslu og sannsýni virðast vera enn meiri erfiðleikar á því að spá lengra fram. Rök hv. þm. fyrir þessari fullyrðingu sinni virtust helst hníga að því, að tvö ár, á sama fjárhagstímabili, bættu hvort annað upp. En það er ekki óskeikult. Auðvitað geta tvö ár farið saman, þannig, að annað sje gott, en hitt lakara. En svo getur þetta ósköp vel orðið þann veg, að tvö slæm ár fari saman, og þá efast jeg um, að sama röksemdafærsla dugi. Jeg er hræddur um, að þá yrði annað uppi á teningnum.

Hv. þm. vildi gera lítið úr rökum mínum fyrir því, að meiri hluti þjóðarinnar mundi ekki vera meðmæltur stjórnarskrárbreytingunni. Jeg hefi litlu við að bæta það, sem jeg hefi áður sagt um þetta atriði. Jeg veit ekki betur en að þingmálafundagerðir sjeu þær einu heimildir, sem hægt er að fara eftir. Alt annað eru fullyrðingar. En jeg er sammála hv. 3. landsk. um það, að þjóðin hafi ekki skift um skoðun í þessu máli. Hún hefir sennilega aldrei verið með þessari breytingu.

Þá þótti hv. þm. mjer hafa farist klaufalega um niðurlag 1. gr. Það má vel vera, að hæpin sje tilgáta mín um þing á hverju ári. En það er ekki einsdæmi, þó að slegið sje fram hæpnum fullyrðingum. Það virðist einnig henda hv. 3. landsk. Hv. þm. reyndi ekki heldur að bera á móti því, að af þessu leiðir, að það er alveg á valdi Alþingis, hvort þing skuli háð annaðhvert ár eða á hverju ári. Með einföldum lögum má breyta ákvæðum stjórnarskrárinnar og nema þau lög svo úr gildi á næsta ári. En það álít jeg alveg ósæmilegt um stjórnarskrá landsins, að verulegum atriðum í henni sje breytt, máske svo að segja árlega.

Að síðustu kom fram dálítið einkennileg ályktun hjá hv. 3. landsk. Hann sagði, að ef málið væri felt, þá skoðaði hann það sem traustsyfirlýsingu til fyrverandi stjórnar. (JÞ: Ekki sagði jeg það nú!). Að minsta kosti sagðist hann skoða það sem viðurkenningu. (JBald: Stjórnin sú fjekk viðurkenninguna við kosningarnar!). Jeg held, að það geti aldrei skoðast sem viðurkenning til stjórnarinnar, að fella mál, sem hún og flokkur hennar hefir borið á höndum sjer.