04.02.1928
Efri deild: 14. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (1395)

19. mál, stjórnarskipunarlög

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla ekki að svara háttv. 3. landsk. miklu, af því að hann hefir ekki ástæðu til þess að tala aftur. Þó verð jeg að leiðrjetta nokkur atriði í ræðu hans. Það gladdi mig að heyra, að þessi háttv. þm. skuli vera fylgjandi færslu kjördagsins. Að mjer var ekki kunnugt um þessa skoðun þm. áður, má vera að stafi af því, að við höfum verið svo stutt saman í Ed. Annars verð jeg þó að játa, að ekki hefir blásið byrlega fyrir slíkri breytingu hingað til. Eins og nú er, er hinn löglegi kjördagur 1. vetrardag, og verði frv. þetta samþykt, þá getur afleiðing þess orðið sú, að sveitirnar geti ekki einu sinni notið sín við landskjörið, því að útreikningar háttv. þm. um það, að flokkur, sem á alt sitt fylgi í sveitunum, standi eins vel að vígi við landskjörið eins og þeir flokkar, sem eiga meira og minna af fylgi sínu í kaupstöðunum, eru alveg á sandi bygðir. Það er hægt að sanna með fjölda mörgum dæmum. Get jeg t. d. nefnt dæmi frá landskjörinu 1926. Í sveit einni, sem jeg þekki til, norðanlands, voru reknir þrír hestar á undan fólkinu frá einum bæ, til þess að troða því braut gegnum fannkyngið. Er þetta dálítið annað en í kaupstöðunum, þar sem fólkið er sótt og flutt í bifreiðum, ef það vill ekki leggja á sig að ganga nokkra faðma eftir upphleyptri og sljettri götunni. Verði því landskjördagurinn fluttur til 1. vetrardags, er alveg undir hælinn lagt, að bændur landsins geti haft nokkur áhrif á landskjörið, þar sem það er sótt svo fast í bæjunum.

Þá neitaði háttv. 3. landsk. því, að hann hefði haft flokkshagsmuni í huga, þegar hann samdi frv. þetta. Um það er vitanlega ekki hægt að þræta. En þá vantar skýringu á því, hvers vegna alt var gert í fyrra til þess að hamla samkomulagi. Við háttv. 2. þm. S.-M. (SvÓ) komum með tillögu, sem trygði það, að hlutföllin breyttist ekki, þó að kosnir væru þrír menn í einu, en henni var hafnað, eins og öllu öðru, sem til samkomulags horfði. Í lok ræðu sinnar fór háttv. þm. nokkrum vel völdum orðum um, að það væri þung ábyrgð á þeim mönnum, sem greiddu atkv. á móti þessu frv. nú. En hann sá ekki ástæðu til að svara því, hvers vegna Íhaldsflokkurinn drap stjórnarskrárbreytinguna á þinginu 1924; var hún þó borin fram af forsrh. flokksins. Og þetta gerðist í þeirri deildinni, þar sem samæfður meiri hl. flokksins gat öllu ráðið, gat samþ. eða drepið alt, sem flokkurinn vildi.

Og úr því að þeir samþ. ekki stjórnarskrárbreytinguná á þingi 1924, býst jeg ekki við, að þeim hafi verið mikil alvara að koma henni á. Jeg býst heldur ekki við, að þeir hafi mikla ástæðu til að áfella þá, sem hafa sífelt, ár eftir ár, rjett þeim hendina til samkomulags, þegar þess er gætt, að öllum þeim tilraunum okkar Framsóknarmanna hefir jafnharðan verið hafnað af hv. 3. landsk. og flokki hans.

Jeg var þó svo sanngjarn, að jeg sat hjá í fyrra, við lokaafgreiðslu málsins, og gerði það til þess að málið gæti haldið sína leið til kjósenda landsins, svo að þeir gætu felt sinn úrskurð um það. Jeg hygg því, að minn baggi sje ekki svo þungur, þegar þess er gætt, hvernig aðstaða Íhaldsflokksins hefir verið til stjórnarskrárbreytinganna, bæði fyr og síðar. Það sýnist jafnan hafa vakað fyrir þeim hið sama: að flokksaðstaða þeirra gæti batnað við breytinguna. En þar sem sá hagnaður virðist vera að renna flokknum úr greipum, ætla þeir nú að skapa sjer nýjan hagnað, með því að áfellast þá menn, sem nú greiða atkv. á móti frv. Á annan hátt verður ekki skilin afstaða flokksins 1924, að þeir skyldu fella málið þá, jafn sterkir og þeir voru í deildinni. Úr því þeir telja þetta sparnaðarmál nú, hefði eitthvað átt að geta sparast á þeim árum, sem liðin eru síðan 1924, hefðu þeir samþykt stjórnarskrárbreytinguna þá.