01.02.1928
Neðri deild: 11. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (1402)

50. mál, menntaskólinn í Reykjavík

Flm. (Magnús Jónsson):

Vegna þess, að mál þetta hefir legið fyrir allmörgum undanförnum þingum, að vísu ekki eins orðað, en sömu stefnu verið fylgt, og svo hinsvegar vegna þess, að frv. fylgir mjög ítarleg greinargerð, þá mun jeg ekki þreyta menn með langri ræðu um það, að svo komnu.

Eins og menn vita, hafa aðallega komið fram tvær stefnur, um fyrirkomulag þessa skóla. Fram að árinu 1904 var hann óskiftur lærður skóli, en með reglugerð það ár er skólanum breytt þannig, að hann verður tvískiftur skóli með gagnfræðadeild og lærdómsdeild.

En nú á síðari árum fer að bera á þeirri stefnu, að breyta skólanum aftur í gamla horfið og gera hann að óskiftum 6 ára skóla. Rök þau, er borin hafa verið fram með þessu og móti, nenni jeg ekki að fara að telja upp, enda yrði það ekki annað en endurtekning frá ári til árs. Jeg vil aðeins taka það fram, að mjer hefir virst, að meðal þeirra manna, er rætt hafa málið hjer í Reykjavík, og þó einkum hjer á Alþingi, beinist stefnan í þá átt, að breyta skólanum og gera hann óskiftan. Þegar fram kom till. 1921 um að breyta skólanum þannig, var lagst mjög eindregið á móti því hjer á Alþingi. En að því er virðist, eru fleiri og fleiri að komast á þá skoðun, að þessi breyting væri heppileg. Jeg sje ekki ástæðu til þess, að gera grein fyrir þessu frv. sjerstaklega, því að það er hjer um bil eins og frv. frá 1926, nema með þeim breytingum, sem á því höfðu verið gerðar þá.

Eins og hv. þdm. muna, var þá skilið við málið fremur ósjálfbjarga, en þó langt frá því dauðvona. Það, sem jeg hefi vikið við í frv., er, að jeg hefi tekið upp annað nafn en verið hefir í hinum fyrri frv. og sett mentaskóli í stað hins lærða skóla. Finst mjer það nafn bæði fallegra en hitt, og svo er það orðið mönnum tamara. Þá hefi jeg sett það atriði í frv., að hafa latínukenslu í öllum bekkjum skólans; þó tel jeg, að megi sníða það atriði burt, ef menn fallast ekki á það, og vil jeg í engu, að það atriði verði því til fyrirstöðu, að fyrirkomulagi skólans verði breytt og skólinn verði gerður óskiftur. Þá vil jeg hafa enskukenslu í skólanum svo mikla, að nemendur geti talist kunna það mál, að afloknu stúdentsprófi. Það er nú svo komið, að enskan er að verða alheimsmál, er hverjum manni er nauðsynlegt að kunna. Þarf þar sem dæmi ekki að taka annað en útvarpið, sem nú fleygir fram árlega. Mun varla líða á löngu, þar til hverjum útvarpsnotanda verður nauðsynlegt að vera, vel fær í ensku.

Grískukenslu háskólans vil jeg færa inn í mentaskólann. Má öllum vera það augljóst, hve það er miklu heppilegra fyrir þá, er ætla sjer að lesa guðfræði, að geta notað tímann í mentaskólanum til þess náms, í stað þess að þurfa að tefja sig frá háskólanámi.

Ákvæðinu um heimavistir hef jeg haldið, og vil láta það vera tengt við breytingar á skólanum að öðru leyti, enda álít jeg, að það sje annað höfuðatriðið í þeim umbótum, sem breytingin mundi gera á skólanum. Aftur á móti er það algert nýmæli, í niðurlagi 11. gr., að afnema skólagjöldin. Mjer finst, að þegar komið hefir verið upp góðum heimavistum fyrir utanbæjarmenn, þá sje það alveg meiningarlaust, að leggja skólagjald á innanbæjarmenn. Þar að auki ætti ríkið að setja metnað sinn í, að menn veldust í skólann eftir gáfum, en ekki eftir efnahag, og ætti heldur að ljetta undir með fátækum efnismönnum, heldur en að íþyngja þeim með gjöldum.

Þetta mál stendur í nánu sambandi við önnur mál, er nú liggja fyrir Alþingi. Það hefir verið fært fram sem aðalástæða gegn því, að mentaskólinn yrði óskiftur, að þá vantaði gagnfræðaskóla í Reykjavík. Nú hefir stjórnin lagt frv. fyrir Ed. — sem jeg að vísu er ekki ánægður með — að stofnaður verði gagnfræðaskóli í Reykjavík. Þá skýrði hæstv. forseti frá því, að útbýtt hafi verið frv. um samskóla í Reykjavík, sem mundi eflaust leysa þetta mál til fullnustu, ef samþykt verður. Þessi ástæða gegn breytingu mentaskólans er því algerlega á burtu numin.

Jeg vil aðeins minnast á það, á hvern hátt þetta mál stendur í sambandi við eitt af þeim vandamálum, sem nú er mikið um rætt, nefnilega stúdentafjölgunina á síðari árum. Jeg hefi haldið því fram, að stúdentafjölgunin standi að meira eða minna leyti í sambandi við breytingu þá, er gerð var á mentaskólanum 1904. Þessu til sönnunar hefi jeg sett í greinargerðina tölu stúdenta frá aldamótum til síðasta árs. Menn sjá þá, að fyrstu árin, eða frá 1901–1909, útskrifast 151/9 stúdentar að meðaltali. En eftir breytinguna á skólanum, frá 1910–1927, útskrifast 301/6 stúdentar að meðaltali: Síðari helming þessa tímabils hafa útskrifast miklu fleiri. Mjer finst því mikið rannsóknarefni, hvort þessi hóflausa stúdentafjölgun standi ekki í beinu sambandi við breytinguna, sem gerð var á fyrirkomulagi skólans 1904. Fyrstu árin gætir að vísu ekki mikilla áhrifa frá breytingunni, og svo koma stríðsárin, með alla sína erfiðleika. En eftir að menn eru farnir að jafna sig eftir stríðið, koma áhrifin greinilega í ljós. Árin 1922–27 útskrifast að meðaltali 392/3 stúdentar á ári, en 3 síðustu árin er tala stúdenta 45. — Með öðrum orðum: þegar fyrirkomulag skólans fer að njóta sín, keyrir stúdentafjölgunin alveg úr hófi. Þetta er auðvitað ekki eina ástæðan fyrir þessu vandamáli; þar liggja auðvitað fleiri ástæður að.

Á hinn bóginn virðist það sjálfsagt að reyna að ráða bót á þessu, á heilbrigðan og þvingunarlausan hátt, með breyttu fyrirkomulagi mentaskólans, einkum þar sem sú breyting yrði heppileg fyrir þá, er skólans njóta. Það er margt, sem mælir með því, að skifting skólans og aðrar breytingar á fyrirkomulagi hans 1904 sje völd að stúdentafjölguninni.

Það fyrirkomulag, er nú er, hefir gert skólann meira laðandi að ýmsu leyti; neðri bekkirnir eru yfirleitt ljettir, og það er margt, sem dregur þá, er í þeim sitja, til þess að halda námi áfram til stúdentsprófs. Það er ekki nema eðlilegt, þótt gagnfræðingum renni kapp í kinn, þegar þeir sjá önnur bekkjarsystkini sín halda áfram, og margir fylgjast með þeim upp í efri bekkina, þótt þeir hafi ætlað að láta staðar numið við gagnfræðapróf. Mjer finst þetta fyllilega eðlilegt, og mun eflaust hafa einhverju valdið um stúdentafjölgunina.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta mál frekar, en vil mælast til, að frv. verði vísað til 2. umr. og mentamálanefndar.