14.02.1928
Efri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (1410)

48. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Jón Baldvinsson:

Það er ekki rjett hjá hv. 3. landsk., að þessu atriði um svifting atkvæðisrjettar vegna sveitarstyrks hafi ekki verið hreyft fyr en á seinni árum. Til dæmis hreyfði Skúli Thoroddsen því, og Bjarni frá Vogi mun hafa hreyft því við hverja stjórnarskrárbreytingu, að jeg ætla, og mun ekki hafa munað miklu árið 1919, að það næði fram að ganga. Þá hafa margar þjóðir leitt í lög hjá sjer, að veita mönnum 21 árs að aldri kosningarrjett um opinber mál. Englendingar, sem hafa þroskaðra þingræði en margar aðrar þjóðir, hafa gert það, og sýnir það, að þeir telja ekki, að þetta sje neitt athugavert.

Ennfremur má benda á það, sem hv. frsm. meiri hl. tók rjettilega fram, að mönnum eru fengin svo margvísleg rjettindi, þegar þeir eru 21 árs, og falin svo margháttuð störf í sínu sveitarfjelagi, að það virðist ekki nema sanngjarnt, að veita þeim einnig þennan atkvæðisrjett um sveitarmálefni.

Hv. 3. landsk. sló því fram, að úrslit þessa máls mundu vera háð einhverjum samningi við hæstv. stjórn. Jeg ætla nú ekki að svara þessu, en ef hann markar það á fylgi hv. 2. þm. S.-M., þá hygg jeg, að hann hafi fylgt þessu máli áður.

Um brtt. á þskj. 117 vil jeg taka það fram, að svo gæti staðið á um einstaka menn, að þeir væru í svo miklu áliti, þótt þeir ættu ógreiddan sveitarstyrk, að æskilegt þætti, að þeir tækju þátt í sveitarstjórnarstörfum, en jeg geri það ekki neinu kappsmáli, hvort hún verður samþykt eða ekki.