11.02.1928
Efri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (1418)

79. mál, yfirsetukvennalög

Flm. (Halldór Steinsson):

Á þinginu 1926 flutti jeg frv. um bætt kjör yfirsetukvenna hjer á landi. Frv. fjekk mjög góðar undirtektir hjer í deildinni og var samþ. með miklum meiri hluta atkvæða. Það fór svo til hv. Nd., en var þar svo dauflega tekið, að það dagaði uppi.

Á síðasta þingi var málið aftur flutt í Nd. og fjekk þá betri undirtektir, en fór þó svo, að það fjell með eins atkv. mun. En rjettlátt mál sofnar ekki, heldur hlýtur það að sigra að lokum, og í trausti þess hefi jeg nú, ásamt tveimur öðrum hv. þm., tekið málið upp aftur.

Við höfum þó ekki sjeð okkur fært að ganga eins langt og gert var 1926, heldur flytjum við það nú, eins og nefnd sú, sem um það fjallaði í Nd., gekk frá því á síðasta þingi.

Það hefir rækilega verið bent á það áður, bæði af mjer og öðrum hv. þm., hversu laun yfirsetukvenna eru nú lág og kjör þeirra óviðunandi. Hæstu laun þeirra eru nú 275 kr., og er það, eins og allir sjá, gersamlega óviðunandi. Launakjör yfirsetukvenna eru svo slæm, að þau þola ekki einu sinni samjöfnuð við kjör þess starfsflokks, sem alment er talinn lægst launaður, en það eru vinnukonur. Þær munu að jafnaði hafa eigi minna en 30 kr. á mánuði, og verða þá árslaunin upp undir 400 kr., og auk þess alt frítt. Það er því stór munur á því, hvað kjör þeirra eru betri en yfirsetukvenna vorra.

Afleiðingin er líka augljós, og hún er sú, að yfirsetukvennaskólinn hefir hin síðari árin verið svo illa sóttur, að mikill skortur er orðinn á lærðum ljósmæðrum í landinu, svo mikill, að nú er fjöldi umdæma, sem engar yfirsetukonur fást í. Jeg hefi aflað mjer upplýsinga um þetta, og er ástandið nú þannig, að um 30 umdæmi eru ljósmóðurlaus. Afleiðingin af þessu er aftur sú, að ólærðar konur neyðast til að taka þessi störf að sjer, og þegar svo er komið, þá erum við komnir út á mjög hættulega braut og alls ekki samboðna þjóðfjelagi með sæmilegri siðmenningu. Enda er þetta mikil afturför frá því sem verið hefir, því að við höfum haft lærðar ljósmæður í flestum ef ekki öllum umdæmum.

Í frv. okkar er farið fram á, að byrjunarlaunin verði 300 kr., sem fari hækkandi þannig, að þau geti orðið 500 kr. hæst. Þá er einnig gerð sú breyting á núverandi skipulagi, að laun yfirsetukvenna í sveitum skuli greidd að 2/3 úr ríkissjóði, en að 1/3 úr sýslusjóði, en nú greiðir hvor aðili helming. Þessi breyting mundi að vísu valda nokkrum útgjaldaauka fyrir ríkissjóð, líklega nálægt 40 þús. kr., en það getur naumast talist mikil upphæð, þegar um það er að ræða, að bæta kjör jafmnargra og þarfra starfsmanna þjóðfjelagsins eins og yfirsetukonur eru.

Jeg skal svo ekki hafa þennan formála lengri, en treysti því, að þessu máli verði nú, ekki síður en áður, vel tekið, og legg til, að frv. verði vísað til fjhn.