17.02.1928
Efri deild: 25. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (1422)

79. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Fyrir tveim undanförnum þingum hefir legið frv. þess efnis, að bæta kjör yfirsetukvenna á landi hjer, en það hefir ekki tekist að koma því í framkvæmd. Þó má segja, að viðurkenning hafi fengist á því, að launin sjeu mjög lág. Nú er enn flutt frv. þessa sama efnis. Hefir fjhn. haft málið til meðferðar og orðið sammála um að mæla með, að það nái fram að ganga. Eftir lögum frá 1919 eru lágmarkslaun yfirsetukvenna í lægra launaflokkinum 200 krónur á ári, sem hækka á 15 árum upp í 275 krónur. Eins og menn sjá, eru þetta mjög lág laun. Í þessu frv. er farið fram á, að grunnlaunin hækki fyrst og fremst upp í 300 krónur, sem síðan hækka þriðja hvert ár upp í 500 krónur. Auk þess er ætlast til, að sýslu- eða bæjarsjóðir og ríkissjóður greiði dýrtíðaruppbót á laununum eftir sömu hlutföllum og launin sjálf. Það var enginn ágreiningur í nefndinni um að verða við þessu, enda er það svo, að lærðar yfirsetukonur hafa ekki fengist í öll laus umdæmi, einungis vegna hinna óviðunandi kjara. Nefndin hefir ekki gert aðrar brtt. við frv. en lítilsháttar skýringar, að öðru leyti en því, að hún vill færa saman lögin frá 1919 og 1912 og gefa þau út í einu lagi, ef þetta frv. verður að lögum. Það eru nógu óaðgengileg ýms lög, sem Alþingi hefir látið frá sjer fara, þó að þessi lög sjeu færð saman í eitt, í stað þess að vera í þrennu lagi. Annars er slíkt ekki altaf auðvelt. Það verður fyrst og fremst að vera verk stjórnandanna, en ekki einstakra þingmanna. En þar sem nú svo stendur á, að hægt er með lítilli fyrirhöfn að gera þetta, þá fanst fjhn. það rjettara.

Enn er það eitt, sem nefndin vill láta koma fram, sem sje það, að þær yfirsetukonur, sem skipaðar eru eftir gömlu launalögunum, njóti þeirrar aldursuppbótar, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, þannig, að þær, sem hafa starfað í 12 ár, fái hámarkslaun. Að þessu lýtur brtt. I, 3.

Jeg hefi ekki meira um þetta mál að segja. Jeg vænti þess, að úr því tókst að sameina nefndina um frv., muni það úr þessu eiga greiðan gang í gegnum hv. deild.