17.02.1928
Efri deild: 25. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í C-deild Alþingistíðinda. (1424)

79. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Hv.1. þm. Eyf. vildi halda því fram, að kjör ljósmæðra væru eins góð og störf þeirra eins vel launuð og annara opinberra starfsmanna. Jeg held að laun ljósmæðra sjeu, eftir núgildandi taxta, langt fyrir neðan laun nokkurra annara starfsmanna hins opinbera. Þær gegna mjög ábyrgðarmiklu starfi, og þurfa að vera til taks, hvenær sem á þær er kallað. Jeg get hugsað mjer, að hv. þm. vilji bera laun þeirra saman við hreppstjóralaunin. En það hefir nú verið svo í þessu landi, frá því að hreppstjórar urðu til, að sú staða hefir verið mjög eftirsótt og álitin virðingarstaða. En það er ekki hægt að miða launakjörin við það starf, sem þær inna beint af hendi, því að staðan heimtar það, að þær sjeu ávalt tilbúnar að gegna kalli, og geta því ekki fest sig við önnur störf. Þá sagði sami hv. þm. (EÁ), að til væru yfirsetukonur, sem ekki hefðu óskað eftir launahækkun og ekki talið þörf á hækkun. Það kann nú að vera, að til sjeu einstaka undantekningar um þetta. En jeg hygg þó, að þær sjeu fáar. Og máske gera þær fáu það aðeins af kurteisi, eins og til dæmis þegar gesti er boðið kaffi, og hann telur það hreinasta óþarfa að þiggja það, þótt hann í raun og veru dauðlangi í það. En hvað sem þessari hæversku líður, hjá einstaka yfirsetukonu, þá hygg jeg að þær muni þiggja þessa launauppbót, ef hún verður samþykt. Enda hafa flestar óskað eftir því. Sjeu launakjörin borin saman við laun annara starfsmanna, þá sjest, að laun yfirsetukvenna eru alls eigi sambærileg við þau. Mjer er eigi ljóst, hvað hv. þm. átti við, er hann sagði, að það væri álit sumra, að fæðingum mundi fækka, ef þetta frv. næði fram að ganga. (EÁ: Jeg ætla mjer ekki neitt að rökstyðja það!). Fyrst svo er, þá er það bara fullyrðing, en engin rök, og þá ekki hægt að svara því.