03.03.1928
Neðri deild: 38. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (143)

1. mál, fjárlög 1929

Magnús Jónsson:

Jeg skal reyna að vera ekki heldur mjög langorður. En jeg gleymdi því áðan, þegar jeg talaði, að minnast á eina brtt., sem jeg hefi flutt, sem sje að veita Þorleifi Jónssyni póstmeistara nokkru hærri uppbót á lífeyri heldur en nefndin mælir með. Jeg get að vísu vísað til. nál. og framsöguræðu hv. frsm. (BÁ), því að ástæðurnar eru alveg þær sömu, aðeins á nú að bera það undir hv. deild, hvort ekki sje ástæða til að veita nokkru ríflegri styrk. Þess er að gæta, að þessi maður starfaði um alllangt skeið við posthúsið hjer með mjög litlum launum. Það liggur fyrir skýrsla um það, að hann hafi fyrstu fimm árin starfað með 1500 kr. launum og síðan með 2000 króna launum á ári. Hann hafði altaf ákaflega mikla fjárhagsábyrgð, þar sem hann annaðist allar póstávísanir án þess að hafa nokkurt mistalningarfje. Jeg vil líka geta þess, að þótt hann um tíma væri ekki talinn með fátækustu mönnum, en ríkur var hann aldrei, þá hafa efni hans gengið mjög til þurðar síðustu árin: Að vísu á hann hjer eina húseign, en á henni kvað hvíla mikil skuld. Jeg vildi því skjóta því til hv. nefndar, hvort henni þætti það of mikið að bæta þennan 1000 kr. lífeyri upp með 2400 kr. Jeg hygg, að það mundi ekki mælast illa fyrir eða verða eftir talið.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) var heldur að mælast til, að jeg tæki aftur brtt. mína út af uppbót á greiðslu fyrir prentun orðabókar Sigfúsar Blöndals, af því að hann kvaðst ef til vill geta fylgt minni upphæð, en ekki þessari allri. Jeg sje ekki ástæðu til þess. Hv. þingdeild greiðir atkv. um þessa upphæð, og þá tapast ekkert við það að bera fram lægri upphæð til 3. umr., ef þessi þykir of há. Jeg vil þó geta þess, hvers vegna upphæðin er svona há. Það er vegna þess, að hvor aðilinn telur sig þurfa að fá miklu meira til þess að geta heitið skaðlaus. Gutenberg fór fram á að fá 30000 kr. og Jón Ófeigsson 15000 kr., svo að það getur ekki talist nein ósvífni að fara fram á þetta hjer.

Jeg vil í þessu sambandi þakka hæstv. fjmrh., sem lagði heldur gott til með þessu máli, að minsta kosti a- og b-liðum tillögunnar. Hv. nefnd hefir tekið frekar vingjarnlega í þessa brtt. mína, og jeg viðurkenni þau rök, sem hv. frsm. (BÁ) hefir borið fram, svo sem það, að prentsmiðjan og Jón Ófeigsson hefðu ekki átt að gera samninginn, nema með því að vera viss um að geta staðið við hann. En hjer var um svo mikla óvissu að ræða, að enginn maður gat gert um þetta samning af nokkru viti, og það var meira af áhuga fyrir því að koma verkinu áfram, að það var ekki alveg stöðvað. En að því er snertir uppbótina til Jóns Ófeigssonar, þá vil jeg benda á það, að honum var hægt að fá a]la sína vinnu greidda, ef hann hefði aðeins unnið þá umsömdu fjóra tíma á dag, en þá hefði staðið miklu lengur á prentuninni, og þá hefði hann líka fengið sína fjóra tíma borgaða miklu lengur. En hann hafði svo mikinn áhuga á starfinu, að hann vildi ekki tefja það. Það er sorglegur sannleikur, sem hv. frsm. sagði, að menn, sem vinna hjer að slíkum störfum, verða að gefa mikið af sínu verki. Jeg býst ekki við, að nein þjóð á Norðurlöndum kunni að meta slík störf nema Svíar; þeir greiða prófessorum sínum eins há laun og bankastjórum, þeir meta andlegu störfin eins hátt og hin, en án þess þó að kasta nokkurri rýrð á þau, sem meira eru verkleg.

Það voru ummæli hv. 2. þm. Árn. (MT), sem eiginlega komu því til leiðar, að jeg stóð upp að þessu sinni. Hv. þm. fann ástæðu til að leggjast allþunglega á móti tillögu minni um styrk til þess að styðja að útgáfu ítarlegrar sögu Íslands. Mjer virtist koma fram svo merkilega mikill áhugi hjá hv. þm. á móti þessari tillögu minni, sem annars er nú ekki neitt sjerlegt stórmál, að hv. þm. skyldi fara að þykja nokkur nauðsyn á að standa upp til þess að berjast á móti henni, alveg eins og það væri einhver sjerlegur voði þarna á ferðinni.

Hann taldi þá ástæðu helst til þess, að ekki væri enn hægt að rita hina ís]ensku sögu, að ennþá væri verið að draga fram í dagsljósið heimildir, og fyr væri ekki hægt að fara að rita en því væri lokið. En það er, eins og gefur að skilja, óendanlegt verk að prenta allar heimildir. Dr. Jón Þorkelsson vann sjerstaklega að því að safna ýmsu slíku, því að það var miklu fremur hans upplag að safna og gefa út heldur en að rita. Það væri í sjálfu sjer nauðsynlegt að koma út heimildarritunum, en við getum vel þurft að bíða eftir því í ein 100 ár, því að heimildarritin eru svo mikil, að það má heita gersamlega ófært verk að koma þeim öllum út, og ef maður ætlar að vinna þetta verk, þá er ómögulegt að bíða eftir þv í, að allar heimildirnar komi á prent, enda óþarft. Það er t. d. að segja um frændþjóð okkar Norðmenn, að þeir eru vitaskuld langt frá því að vera búnir að draga fram í dagsljósið allar sínar heimildir. En þeir hafa ekki sjeð ástæðu til að fresta sagnaritun fyrir því. Þeir, sem síðar koma, geta þá bætt um verkið, ef þá eru fram komnar nýjar heimildir. Margir hafa skrifað ágæt verk frá þeim árum, sem engar heimildir eru prentaðar frá; það er aðeins meira verk að leggjast í söfnin og plægja í gegnum þau heldur en að fara eftir prentuðum heimildum. Það dettur víst heldur engum í hug að halda því fram, að þessi Íslandssaga eigi að vera slíkt verk, sem hægt væri að búa að um aldur og æfi, og einmitt þess vegna hefir verið hugsað að láta fleiri menn skrifa, fela hverjum einstökum manni stutt tímabil, og jeg ljæ því ekki eyru, að ekki verði hægt að rita þessa sögu vel sómasamlega, einkum ef margir menn vinna verkið. Dr. Páll E. Ólason skrifaði Menn og mentir siðaskiftaaldarinnar, Jón heitinn Aðils prófessor skrifaði sögu Skúla Magnússonar og sögu einokunarverslunarinnar. Þetta eru svo góð verk, að vel er viðunandi, enda þótt ekki væri búið að draga fram heimildirnar áður. Það, sem hjer er um að ræða, er það, að settur sje kraftur á verkið, þannig, að menn gangi saman að því að skrifa söguna, svo að þeir menn, sem fróðleik unna, geti beinlínis slegið upp því, sem þeir óska, og fengið að vita um það, sem hjer hefir gerst.

Hv. 2. þm. Árn. kvaðst hafa leitað álits bestu manna um þetta, en jeg veit aðeins ekki, hverjir þessir bestu menn eru. Það voru 17 áhugamenn um íslenska sögu, sem skrifuðu undir þessa áskorun, og jeg veit ekki, hve margir menn eru hjer í Reykjavík, fyrir utan þessa 17, sem hafa sjerstakan áhuga á því máli. Jeg býst því helst við, að það sje sá eini, sem ekki vildi vera með okkur, dr. Páll E. Ólason, sem hv. þm. (MT) hefir sótt vísdóm sinn í, því að jeg veit ekki um neinn annan sagnfræðing, sem jeg gæti hugsað mjer, að væri á móti þessu máli. Líka taldi hv. þm. það vera heldur til andstöðu við þetta mál, að ekki væri búið að stofna sjerstakan fjelagsskap um þetta, og taldi Vísindafjelagið íslenska eiga að hafa forgöngu. Þetta er góð og þörf uppástunga, en það er nægur tími til að lagfæra það, því að þetta gildir fyrst fyrir árið 1929, og þá er nægur tími til stefnu. En það er gott að taka þessa bendingu til greina. Það væri sjálfsagt gott, að Vísindafjelagið gengist fyrir þessari söguritun og útgáfu.

Hv. þm. sagði, að sjer fyndist einhver bitlingakeimur að þessari brtt. Jeg veit ekki, hvað hv. þm. á við með því. Jeg vil ekki binda þetta verk við neina bitlinga, og að minsta kosti er jeg ekki með þessari tillögu að mælast til neins bitlings handa mjer sjálfum. Auðvitað færi það eftir því, sem nefndin rjeði menn til starfsins, hvort jeg kæmi þar nálægt eða ekki. Annars býst jeg varla við, að jeg hefði tíma til þess, svo hlaðinn störfum sem jeg hefi verið undanfarið. Mun jeg svo ekki eyða meira af tíma þingsins til að mæla með þessari till.

Þá vildi jeg mæla hið besta með utanfararstyrknum til Björns Björnssonar. Jeg þekki þennan mann og veit, hve listfengur hann er, og tel víst, að styrkur þessi kæmi að miklu gagni.

Jeg vil mæla á móti því, að styrkur verði lækkaður til Hljómsveitar Reykjavíkur. Verður að gera svo vel við hana, að hún geti komið sómasamlega fram 1930, svo að vjer þurfum ekki að sækja slíka sveit til annara þjóða, oss til minkunar.

Ein brtt. er það, sem jeg er ekki sammála nefndinni um. Það er 31. brtt., um að hækka styrk til sundlauga og sundskýla úr 1/5 upp í. Þetta er ekki í samræmi við lögin um sundhöllina í Reykjavík, því að þar er um yfirbygða sundlaug að ræða, en hjer aðeins sundlaugar með sundskýlum. Munurinn er sá, að yfirbygðu laugina er hægt að nota alt árið í kring, en hinar ekki nema nokkurn hluta árs. Vil jeg beina því til hv. nefndar, að hún lagi brtt. sína þannig, að styrkur eftir þessum hlutföllum verði aðeins veittur til byggingar yfirbygðra sundlauga.