20.02.1928
Efri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (1433)

79. mál, yfirsetukvennalög

Páll Hermannsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. við frv. Breytingin er þess eðlis, að hún þarf ekki mikilla skýringa við. Hún er borin fram af sparnaðarástæðum. Þess vil jeg strax geta, að þessir starfsmenn eru verðir að njóta þeirra launa, sem geri þeim kleift að rækja sitt starf. En hinsvegar lít jeg svo á, að þjóðin verði að sætta sig við, að laun ljósmæðra verði lág, samanborið við embættislaun. Víðast hvar í landinu hagar svo til, að ljósmóðurstarfið getur ekki orðið aðalstarf. Umdæmin eru mörg en fámenn. Því getur ekki orðið um há laun að ræða. Fjárhagurinn leyfir það ekki. Það verður að sníða sjer — hjer sem annarsstaðar — stakk eftir vexti.

Þessir starfsmenn hafa lengi farið á mis við háu launin, og þeir verða að gera það framvegis. Sú ánægja, sem þeir hafa af starfinu, hefir verið mikill hluti launanna, og þannig mun það einnig verða framvegis.

Jeg er sammála hv. 1. þm. Eyf. um það, að sá skortur, sem á ljósmæðrum er, stafi ekki eingöngu af lágum launum, heldur einnig af fækkun fólks í sveitum og því losi, sem í þjóðlífinu er, ekki síður meðal kvenna en karla. Og jeg hygg, að dvöl ljósmæðra í Reykjavík við nám eigi sinn þátt í því, að þær una síður hag sínum í sveitunum til lengdar. Jeg viðurkenni, að ljósmæður eiga við lág laun að búa, en þó eru þær ekki ver launaðar en margir aðrir opinberir starfsmenn heima í sveitunum.

Í brtt. minni er gert ráð fyrir talsverðri lækkun frá því, sem í frv. er. En mjer virðist þó auðsýnt, að hún bæti töluvert um kjör ljósmæðra, því að svo er til ætlast, að laun flestra þeirra, er starfandi eru, hækki um 75–150 kr. frá því, sem nú er. Og þegar dýrtíðaruppbótin af þessari launaaukningu bætist við, dregur talsvert um þetta.

Því hefir verið haldið fram, að ljósmæður þyrftu að verja talsverðu fje til námskostnaðar sjer. En jeg hygg, að þær hafi notið allverulegs styrks til námsins, enda væri athugandi, hvort sá styrkur ætti ekki að hækka.

Það, sem aðallega vakir fyrir mjer, er að bæta svo kjör þeirra ljósmæðra, sem starfað hafa um einhvern tíma, að þær, launanna vegna, gætu unað við starf sitt. Það er óviðunandi eyðsla, að fjöldi kvenna læri ljósmóðurstörf, án þess svo að rækja starfið að neinum verulegum mun á eftir. En of mikið vill bera á þessu nú. 50 kr. hækkun á launum þriðja hvert ár gæti kannske eitthvað ýtt undir ljósmóður að halda starfinu áfram.

Jeg sje enga þörf á því, að skýra málið frekar. Jeg býst við, að brtt. mín verði feld, vegna þess að frv. virtist eiga óskift fylgi deildarinnar við fyrri umr. málsins. En engu að síður ber jeg brtt. fram, og ekki spillir hún fyrir málinu í hv. Nd.