21.03.1928
Efri deild: 53. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (1448)

49. mál, útsvör

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð, út af ummælum hv. 1. þm. Eyf. Hann taldi, að dráttur hefði orðið á þessu máli í allshn. Það er alveg rjett, en hann stafar af því, að til nefndarinnar hafa borist allmörg mál, sem hafa verið ærið tímafrek. Mjer er samt óhætt að fullyrða, að nefndin skágekk ekki þetta mál um skör fram, enda mun það vera svo, að mörg mál, sem eiga fram að ganga á þessu þingi, munu ekki vera komin lengra en þetta.

Jeg held, að þeir, sem talað hafa í þessu máli, að minsta kosti hv. þm. A.-Húnv. og hv. 1. þm. Eyf., misskilji afstöðu meiri hl. nefndarinnar. Það kom fram í ræðum þeirra, að jeg vildi viðurkenna, að agnúar væru á lögunum, en samt vildi jeg láta við þau sitja. Það er alveg rjett, að jeg viðurkenni, að lögin eru ekki fullkomin, en hitt er rangt, að jeg vilji umfram alt láta við þau sitja. Við, meirihl.menn, viljum, að úr því að lögin eru komin á, sjeu þau framkvæmd það lengi, að nokkur reynsla fáist í þessu efni, svo að síðari villan verði ekki argari hinni fyrri. Sumar hreppsnefndir eru ekki enn farnar að læra að fara með lögin og hafa gert ýmsar fyrirspurnir til stjórnarráðsins, eins og hv. 1. þm. Eyf. vjek að, um það, hvernig framkvæma skuli lögin. Það er fyrst, þegar hreppsnefndirnar eru búnar að læra að fara með lögin, að hægt er að segja, að reynsla sje fengin um þau. Það er ekki álit okkar meirihlutamanna, að lögin sjeu svo góð, að aldrei þurfi að breyta þeim. En við viljum, að það sje notað úr lögunum, sem nothæft er, og ekki breytt öðru en því, sem nauðsyn er á.

Jeg held, að hv. þm. A.-Húnv. hafi misskilið mig, að því er snertir 1. brtt. hans. Jeg viðurkendi, að það kynni að valda óþægindum fyrir sveitahreppa, að hafa almanaksárið fyrir reikningsár, en hitt tók jeg líka fram, að um aðra hreppa, sem mundu lenda undir ákvæði brtt., ef samþykt yrði, stendur svo á, að afleiðingarnar yrðu enn verri en í fyrra tilfellinu. Hv. þm. viðurkennir, að það sje miklu heppilegra fyrir bæjarfjelög að hafa almanaksárið fyrir reikningsár. Jeg benti á það í fyrra, að það væri hugsanleg leið, að fardagaárið gilti aðeins fyrir sveitahreppa. En jafnframt sýndi jeg fram á, að hún er óframkvæmanleg. Í sömu sýslunni verður að gilda sama reikningsár fyrir alla hreppa. Þó nú að lögin hafi máske ekki reynst eins vel og æskilegt hefði verið, þá álít jeg, að við ættum að læra meira af reynslunni, hvað framkvæmd þeirra snertir, heldur en við erum búnir að, áður en þeim yrði breytt.

Þá mintist hv. þm. A.-Húnv. á, að skipa þyrfti milliþinganefnd í þessi mál, því að þau væru síst minna verð, en tolla- og skattamál. Þessu er því að svara, að jeg var á sínum tíma með því, að skipa milliþinganefnd í þetta mál, en þá var þeirri till. vísað til stjórnarinnar, og árangurinn af henni eru einmitt þessi lög.

En eins og jeg tók fram áðan, þá vil jeg ekki breyta þessum lögum að svo komnu. Jeg tel alt of litla reynslu fengna um þau ennþá. En sífelt hringl í þessum efnum sem öðrum ber aldrei góðan árangur.