24.03.1928
Efri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í C-deild Alþingistíðinda. (1461)

122. mál, eignarnám á Reykhólum

Halldór Steinsson:

Í stjskr. er kveðið svo á, að ekki megi taka eignir eignarnámi, nema almenningsheill krefji. Nú er því haldið fram í þessu máli, að almenningsheill krefji slíks. En það tel jeg vafasamt í þessu tilfelli. Hjer er aðeins að ræða um að fá stað fyrir læknisbústað. Nú er það svo, að það mun vera völ á fleirum jafnhentugum eða hentugri stöðum, og það án eignarnáms. En þótt nauðsyn bæri til að læknirinn sæti á þessum stað, frekar öðrum, þá nær vitanlega engri átt að taka alla jörðina eignarnámi, og einu sinni ekki 40 hektara eða 120–130 dagsláttur, eins og brtt. minni hl. fer fram á. Jeg tel alveg nægilegt fyrir lækninn 10–20 hektara land úr jörðinni. Þegar um eignarnám á landshluta er að ræða, verður að gæta þess vandlega, að rjettur landeiganda sje ekki skertur meira en þörf gerist, en það yrði hann áreiðanlega, ef frv. eða brtt. minni hl. yrði samþykt. Jeg legg því á móti málinu í heild sinni.