20.02.1928
Efri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (1467)

105. mál, nýbýli

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þetta mál var hjer frammi í fyrra, og var því vísað til landbn. Það kom til deildarinnar aftur, og var þá vísað til milliþinganefndarinnar í búnaðarmálum. Ekkert hefir komið frá þeirri nefnd enn, enda mun varla ástæða til að búast við því, svona á fyrsta ári.

Þetta er nauðsynjamál, og verður ekki hjá því komist að hrinda því í framkvæmd, því að það er eina leiðin til að bægja til sveitanna aftur þeim fólksstraum, sem þaðan hefir leitað til kaupstaðanna undanfarið. Frv. um byggingar- og landnámssjóð er að vísu spor í áttina, en það verður í smáum stíl, og því er þetta aðalráðið, að koma upp nýbýlum í stórum hverfum, þar sem ræktunarmöguleikar eru góðir.

Mönnum gefst tækifæri til að eiga í sameiningu vjelar og fleira, er að búnaði lýtur, en slíkt er hverjum einstökum manni ofvaxið að kaupa og eignast af eigin ramleik.

Annars gerði jeg grein fyrir þessu frv. í fyrra. En jeg vildi bera þessa till. fram nú, svo að málið hjeldist vakandi og yrði ekki þagað í hel í milliþinganefndinni. En mjer virtist anda heldur kalt til málsins í fyrra.

Hitt er mjer kunnugt um, að margir þeir, sem standa framarlega í búnaði, eru málinu meðmæltir, og telja, að það muni vinna landbúnaðinum mikið gagn, ef það næði fram að ganga.

Þetta mál verður að sjálfsögðu athugað í landbn. deildarinnar, og get jeg þá komið því að í nefndinni, að leitað verði álits búnaðarfrömuða vorra um málið, þeirra, er hafa látið sig nýrækt mestu skifta.

Hefi jeg þá ekki fleira að segja, en vonast til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til landbn.