13.03.1928
Efri deild: 46. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í C-deild Alþingistíðinda. (1471)

105. mál, nýbýli

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Út af síðustu orðum hv. þm. (JBald) vildi ég geta þess, af því að sá ráðherra, sem þetta mál að sjálfsögðu heyrir undir, hæstv. atvrh., er ekki hjer viðstaddur, að jeg er þess fullviss, að stjórnin muni verða við tilmælum hans, og stuðla að því, að milliþinganefndin í landbúnaðarmálum taki málið til meðferðar.

Um leið vil jeg endurtaka það, sem jeg sagði í fyrra um sama efni, að þótt jeg búist við, að allmikið af till. háttv. 5. landsk. verði notað síðar, þá er jeg enn ekki sannfærður um, að það, sem hann fer fram á, sje heppilegasta leiðin, nú sem stendur. Þó að landbúnaðarfrömuðir, eins og t. d. Sig. Sigurðsson búnaðarmálastjóri, hafi komist að þeirri niðurstöðu, að heppilegt sje að rækta land í stórum spildum og byggja í hverfum, þá þykir mjer fullvíst, að slík byrjun sem þessi sje of dýr fyrir það fjármagn, sem landið hefir nú yfir að ráða.

Í öðru lagi hefir þingið þegar stigið spor í þessa átt, með því að samþykkja frv. um byggingar- og landnámssjóð. Og þótt jeg búist við, að ýmsu þurfi að breyta og bæta við síðar, finst mjer ekki ástæða til þess að samþykkja tvenn lög um sama efni á sama þingi. Er rjettara að sjá fyrst til, hversu það gefst, sem fyrr er fram komið. Aðalmunurinn á þessum tveimur kerfum er sá, að það, sem þegar hefir verið samþykt, byggir á einstaklingsframtakinu að nokkru leyti. Þeir, sem hjálpað er, verða að leggja fram talsvert á móti, bæði vinnu og eignir. Og sú hjálp, sem þjóðfjelagið ætlar að veita einstaklingunum, getur komið til greina hvar sem er á landinu, þar sem menn hafa áhuga og ástæður til þess að koma sjer upp nýbýlum og vilja leggja krafta sína og vinnu fram til þess. Jeg býst við, að háttv. 5. landsk. vinni aðalsigra sína í þessu máli, þegar Flóaáveitan og Skeiðaáveitan eru komnar í gang. Þar mun reynast óhjákvæmilegt að koma upp hverfum. Samt verð jeg að segja það, að mjer finst um of mikla rausn að ræða í tillögum hans, og álit, að býlin megi ekki vera eins dýr og hann gerir ráð fyrir.