13.03.1928
Efri deild: 46. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í C-deild Alþingistíðinda. (1474)

105. mál, nýbýli

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Háttv. 6. landsk. kvartar yfir því, að samgöngur sje hjer á landi svo erfiðar, að þetta nýbýlafrumvarp mitt sje óframkvæmanlegt. Var jeg þó raunar búinn að lýsa því, að þessi býli, sem jeg hefi hugsað mjer reist, eiga að standa þar sem völ er á betri samgöngum til góðra markaða en bændur alment eiga kost á. Háttv. þm. hafði ekki trú á, að veita fólksstraumnum úr bæjum til sveitanna, og tók til samlíkingu, sem er dálítið kynleg. Hann sagði, að það væri eins og að veita ánum aftur upp til fjallanna, sem þær væru komnar frá. Þessi samlíking finst mjer ekki heppileg. Jeg veit ekki til þess, að neinn hafi fyr en háttv. 6. landsk. látið sjer detta í hug, að æskilegt væri að veita ánum upp til fjalla. Jeg veit ekki svo sem í hvaða skyni það ætti að vera. En hitt telja allir æskilegt, og jeg held háttv. þm. líka, að veita fólksstraumnum aftur upp í sveitirnar. Hjer er því ólíku saman að jafna. Menn hafa látið sjer detta í hug, og það með nokkrum rjetti, að hægt mundi að breyta stefnu fólksstraumsins, en hitt held jeg engum hafi dottið í hug, að unt væri að veita ánum upp í móti, nema ef vera skyldi að háttv. 6. landsk. geri sjer vonir um, að það megi takast. Það hefir kanske vakað fyrir honum eitthvað líkt og piltinum í Ólafsdal, er Torfi skólastjóri spurði á prófi, hvort hægt væri að veita læknum aftur í skálina, uppi í fjallinu, sem lækurinn rann úr. Jú, sagði pilturinn; það er vel hægt, bara með því að fara með lækinn í nógu mörgum krókum!

Það, sem hv. þm. fann að frv. af skynsamlegu viti, og er álitamál og ástæða til þess að fetta fingur út í, það er það, hvort býlunum sje ætlað nógu stórt land. Það er litið svo á af þeim, sem best geta um þetta dæmt, að hægt sje að lifa á þetta stóru landi, sem um ræðir, 10–20 hektörum, vel ræktuðu og vel hirtu, og þá gengið út frá, að ábúandi hafi einhverja aðra íhlaupavinnu. Ef nýbyggjendur hafa lítið land til umráða, er meiri von til að þeir gangi vel fram í ræktun þess. Ég býst við, að margir verði til þess að viðurkenna, að stóra landið, sem bændur víðast hvar hafa til umráða — svo stórt sumsstaðar, að þeir geta ekki farið um það alt á einum degi — sje eitt meðal annars, sem verið hefir því til fyrirstöðu, að meira hafi verið ræktað en raun ber vitni. Með því að hafa landið ekki stærra en þetta, væri þeir nauðbeygðir til þess að rækta það sem best, til þess að geta lifað sómasamlega af því. Vitanlega væri altaf einhverjir, sem ekki mundu sinna um ræktunina frekar en verkast vildi. Við því verður aldrei sjeð. En þeir, sem vilja leggja sig fram, geta vel lifað af þessu landi, að áliti þeirra, er vit hafa á.

Fleiri ástæður fann hv. 6. landsk. ekki frv. til foráttu. Samgöngurnar taldi hann ekki verða bættar frá því, sem nú er, nema með járnbraut. Jeg man nú að vísu ekki afstöðu hv. þm. til þess máls í fyrra. En betri samgangna en hjer koma til greina er ekki kostur nú sem stendur.

Þegar sveitabændur koma hingað til bæjarins og kynnast umhverfi hans, þá er það ekki stórbýlið á Korpúlfsstöðum í Mosfellssveit, sem vekur mesta athygli þeirra. Þeir telja það utan við verkahring sinn og umfram getu sína að líkja eftir því. En ræktunin í Sogamýrinni og nýbýlin þar, það vekur athygli þeirra. Og það er eðlilegt, að það vekji eftirtekt þeirra, að sjá svo lítið land fullræktað og að mestu nægilegt til framfærslu heilli fjölskyldu, móts við hinar óræktuðu og stóru lendur, sem þeir hafa yfir að ráða í sveitinni, og veita þeim þó af skornum skamti lífsuppeldi, skylduliði þeirra og sjálfum þeim.

Hvar bjó alt þetta fólk áður, sem nú er samansafnað í kaupstöðum og kauptúnum landsins? Ekki eru svo margar jarðir lagðar í eyði sem fólksfækkun sveitanna samsvarar. Nei, það er fólkið úr hjáleigunum, þurrabúðarfólkið, sem hefir sópast burtu úr sveitunum. Og mest vegna þess, að bændurnir sjálfir vildu hafa meira olnbogarúm, meira landsvæði til ábúðar og umráða. En þeir gáðu þess ekki, að með þessu móti mistu þeir tökin á að geta rekið eins góðan búskap og áður, meðan fólkið var fleira í sveitunum. Útkoman er sú, að kaupstaðirnir eru yfirfyltir, en fólksfæð í sveitinni. Nú er um það að ræða, hvort það sje tilvinnandi, að beina þessu fólki, sem umfram er þörf í kaupstöðum, aftur upp í sveitirnar. Það kostar fyrirhöfn, það kostar fje. En ef við erum of fátækir til þess að hverfa að því ráði, þá má eins segja með nokkrum rjetti, að við sjeum of fátækir til þess að geta verið landbúnaðarþjóð, sem þó margir halda fram, að við eigum að vera fyrst og fremst. — Þetta kemur ekki af sjálfu sjer. Löggjöfin getur ýtt undir og veitt fje til framkvæmda. Ef hún gerir það á skynsamlegan hátt, eins og frv. fer fram á, þá mun öllu reiða vel af. Þá munu upp rísa slík sveitahverfi, sem hjer um ræðir.