27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í C-deild Alþingistíðinda. (1480)

68. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Guðmundur Ólafsson:

Jeg verð að segja, að hv. nefnd hefir ekki farið illa með þetta mál — geymt það vel og vandlega, og skilar því svo með hlýjum ummælum eftir þann tíma, sem ráðgert var í fyrstu að slíta þingi. Hefir hún verið svo heppin, að þetta hefir reynst á annan veg en þá var spáð, svo að hún gat athafnað sig. Og hv. nefnd er svo sammála um, að það sje hreint ekki svo vitlaust að leggja út í þetta mannvirki einhvern tíma, enda mun það verða álit flestra, sem eitthvað fara um þetta að hugsa. En mjer fanst hv. frsm. nefndarinnar gera helst til lítið úr þessari rannsókn, sem fram hefir farið. Jeg held, að rannsóknin sje sæmileg. Jeg hefi ekki að minsta kosti vitað meira álit á öðrum rannsóknum en rannsóknum Kirks heitins, sent þarna starfaði að, og þegar hann sagði, að þarna ætti að byggja steinsteypugarð, þá hefir hann auðvitað rannsakað botninn, þar sem garðinn skyldi byggja. Og jeg skil ekki brjef vitamálastjóra, sem nefndin hafði með höndum, á þann veg, að botninn hafi ekki neitt verið rannsakaður. Hann segir einmitt, að botninn hafi verið rannsakaður, og af þeirri rannsókn hafi verið dregið, að garðurinn skyldi bygður úr steini.

En mjer getur aldrei þótt nema skynsamlegt af þinginu, þegar það fær svona stórmál til meðferðar, þó að það vilji ekki flaustra þeim af á fyrsta þingi, sem hefir þau til meðferðar, þó að jeg búist við, að mörg mál hafi verið afgreidd á því, sem lakar voru undirbúin en þetta mál.

Það er nú ekki nema að hálfu leyti rjett, sent hv. frsm. sagði, að hafnargerð þessi væri dýr; jeg álít, að hún sje fremur ódýr, þá er miðað er við þær hafnargerðir, sem hjer er búið að framkvæma, því að þetta verður fremur stór höfn, og að minni hyggju og margra annara góð höfn. En hvað snertir það, sem Þórólfur Beck skipstjóri hefir bent á í brjefi til nefndarinnar, þá get jeg ekki lagt mjög mikið upp úr því; mjer þykir sem sje ólíklegt, að annar eins maður og Kirk heitinn hefði ekki komið auga á þetta, því að þetta umgetna hafnarstæði er fast við hliðina á hinu. (IP: Nei.) Það er ekki hinumegin við höfðann, en þar er bara sker, sem ætlast er til að komi í staðinn fyrir hafnargarð að sunnanverðu. Jeg hefi einmitt frjett af þessu, að Þórólfur Beck áliti, að komið geti til mála, að heppilegra sje annað hafnarstæði alveg við hliðina á þessu; en jeg fyrir mitt leyti trúi því ekki, að það verði ofan á. Sýslunefndin hefir beðið stjórnina að láta rannsaka botninn betur, áður en hafist yrði handa, og af því að jeg treysti hinni núverandi hæstv. stjórn mjög vel, þá býst jeg við, að hún leggi þetta mál fyrir næsta þing, svo vel undirbúið, að sú nefnd, sem þá hefir það til meðferðar, geti ekkert haft að athuga við undirbúning þess. Annars fanst mjer hv. frsm. gera mun meira úr þessu undirbúningsleysi en hann hafði ástæðu til.