27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (1483)

68. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Jeg þarf ekki mikið að segja. Mjer virtist hv. flm. (GÓ) vera nefndinni mikið sammála. Það, sem á milli ber, er það, að hann vill ekki kannast við annað en að rannsókn sje sæmileg, gerð af ágætum manni, sem megi treysta. En það vill svo óheppilega til, að við getum ekki notið hans við, og þau plögg, sem til eru frá hans tíð, virðast vera ófullkomin. Getur verið, að þau hafi verið fullkomnari. Og viðvíkjandi rannsókn á botninum vil jeg benda á það, að vitamálastjóri svaraði brjefi nefndarinnar á þá leið, að við rannsókn á sjávarbotninum, sem gerð hefði verið, væri miðuð sú bráðabirgðaáætlun, sem gerð var. En hann sagði ennfremur, að sjálfsagt yrði að fara fram ítarlegri rannsókn, bæði á þessu og öðrum atriðum viðvíkjandi hafnargerðinni, áður en á verkinu yrði byrjað. Þarna virðist hann viðurkenna, að rannsókn sje ekki orðin nægileg, og höfum við þá fyrir okkur orð vitamálastjóra.

Annars er óþarfi að deila mikið um þessi atriði, því að jeg hefi lýst yfir því fyrir hönd nefndarinnar, að hún hefir alls ekki viljað taka þessu máli óvingjarnlega. Hún telur þá afgreiðslu, sem hún leggur til, í alla staði skynsamlegasta, og mjer skilst hv. flm. geta sætt sig við hana. Einnig tel jeg, að treysta megi því, að hæstv. stjórn láti rannsókn fram fara á þessu ári, svo að málið þurfi ekki ófyrirsynju að tefjast.