27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (1488)

68. mál, hafnargerð á Skagaströnd

Guðmundur Ólafsson:

Hv. þm. Ak. byrjaði á því að tala um, hvort góð fiskimið væru þarna nálægt Skagaströnd. Jeg held nú, að óþarfi sje að deila um það. Þar er áreiðanlega um góð fiskimið að ræða. Jeg held líka, að öllum hljóti að vera kunnugt um, að síldarmiðin eru talin einna best á Húnaflóa, með öðrum orðum beint út af Skagaströnd. Þó að útgerð frá Steingrímsfirði eða öðrum fjörðum vestan Húnaflóa geti náð til þessara miða, þá höfum við Húnvetningar þess engin not. Jeg held, að sæmileg áætlun hafi verið gerð um þetta, og mjer dettur ekki í hug, að ekki hafi verið kannað, hvernig botn væri þarna, hvort það væri trygg undirstaða. Þá virtist hv. þm. ekki muna eftir neinu öðru en sjávarútvegi í sambandi við þetta. Jeg hjelt, að hann mætti þó sjá af brjefi skipstjórans á „Esju“, að þetta gæti verið til mikilla bóta fyrir siglingar á þessum slóðum. Það kemur oft fyrir, að skip geta ekki athafnað sig á Blönduósi og verða að fara til Steingrímsfjarðar, án þess að fá afgreiðslu. Nú getur farið svo, að veður batni 2–3 stundum eftir að skipið færi frá Blönduósi, og væri þá munur að geta farið til Skagastrandar, sem ekki er nema tæprar stundar ferð. — Jeg get heldur ekki fallist á, að höfnin geti talist mjög dýr, þótt hún kostaði ½ miljón króna, svo fullkomin sem hún á að verða. Hjer er líka alt tryggara en t. d. brimbrjóturinn í Bolungarvík, sem lagt er nú til svo skiftir tugum þúsunda ár eftir ár, með litlum árangri. Ennfremur vita allir, sem eitthvað þekkja til, að á Skagaströnd liggur mjög vel við með allan útveg. Það eru þarna tvímælalaust mjög góð fiskimið og síldarmið skamt undan. Við teljum, að þessi hafnargerð væri til mikilla hagsbóta fyrir hjeraðið alt, að minsta kosti fyrir austurhluta Húnavatnssýslu.