23.02.1928
Efri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 150 í C-deild Alþingistíðinda. (1513)

123. mál, veðlánasjóður fiskimanna

Flm. (Jón Baldvinsson):

Við vitum það, að lánsþörf atvinnurekenda er mikil; sjómenn vantar lán áður en vertíð byrjar, og bændur vantar lán frá vori til hausts, eða frá vetri til hausts. Menn vantar líka lán út á vörur, eftir að búið er að afla þeirra eða framleiða þær.

Hv. þm. Snæf. lagði aðaláherslu á það, að menn þyrftu að fá lán áður en afli væri fenginn. Jeg geng út frá, að þetta sje rjett, en á það má líka benda, að það litla, sem bankarnir lána bátaútveginum, það lána þeir í byrjun vertíðar. Og það álít jeg einmitt að ætti að vera verkefni bankanna að gera. En til þess svo að ná fullu verðmæti úr þessum afla fiskimannanna, álít jeg að eigi að hjálpa þeim um lán út á fiskinn, jafnóðum og hann kemur á land, eftir því sem menn þurfa, svo að þeir geti verkað fiskinn sjálfir til útflutnings.

Jeg skildi ekki hv. þm. Snæf. svo, að hann væri á móti frv., heldur að hann teldi meira þurfa að gera en frv. fer fram á. Það gæti vel verið, að hægt væri að sameina að einhverju leyti þá lánastarfsemi, sem hjer er stungið upp á, við þá starfsemi, sem flutningsmenn atvinnurekstrarlánanna stinga upp á. Annars held jeg, að það, sem aðallega dregur bátaútveginn niður, sje það, að þeir eru nauðbeygðir til að láta af hendi fiskinn nýjan, fyrir lægra verð að jafnaði heldur en þeir gætu fengið með því að fullverka hann. Jeg held, að með því að fá aðstöðu til að verka fiskinn, mundu menn verða styrktir fjárhagslega til þess að geta eignast eitthvað, ef til vill til þess að geta smámsaman safnað sjer rekstrarfje, svo að þeir þyrftu ekki lán.

Það var ekki annað en þetta, sem hv. þm. Snæf. hafði út á frv. að setja, en að honum fanst annað ennþá brýnni þörf en þessi lán. En jeg held, að fyrir þessa smærri fiskimenn sje þetta allra brýnasta þörfin. Það er nú regla, að útvegsmenn ráði háseta upp á hlut. Geta þeir eftir mínu frv. fengið lán upp á sinn afla, en útvegsmenn útvega aftur það fje, sem þarf í upphafi í veiðarfæri. Þeir eiga auðveldara með að fá lán til atvinnurekstrar heldur en þeir, sem aðeins eru hluttökumenn. Þeir eiga ekki annars úrkostar en fara til kaupmannsins og fá lán hjá honum. Kaupmenn og kaupfjelög eru þeirra banki, og skuldirnar eru sá mylnusteinn, sem heldur þeim niðri. Það eru þessir menn, sem mitt frv. miðar fyrst og fremst til að hjálpa.