23.02.1928
Efri deild: 30. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í C-deild Alþingistíðinda. (1515)

123. mál, veðlánasjóður fiskimanna

Halldór Steinsson:

Út af ræðu hv. 1. þm. Eyf. vil jeg taka fram, að mjer finst enginn vafi geta leikið á því, til hvaða nefndar málinu eigi að vísa. Jeg tel alveg sjálfsagt, að það fari til fjhn. Þangað hefir verið vísað frv. um atvinnurekstrarlán, og þar sem hjer er um svo náskylt mál að ræða, sje jeg ekki betur en að þau verði að athugast saman í sömu nefndinni. Jeg styð því þá till., sem fram er komin um að vísa frv. til hv. fjhn.

Við erum alveg sammála um það, hv. flm. og jeg, að sjálfsagt sje að hjálpa á einhvern hátt smábátaútgerðinni, svo að þeir menn, sem hana stunda, þurfi ekki að selja aflann blautan og við litlu verði. Það er aðeins um leiðirnar, sem okkur greinir á. Jeg álit fyrir mitt leyti, að það náist ekki með frv. að tryggja smábátaútgerðinni hærra verð fyrir afla sinn. Mjer er kunnugt um það, að fyrir vestan settist nýlega að maður, er kaupa vildi fisk, og hafði nægilega peninga handa milli, til þess að borga fiskinn með. En hvað skeður? Menn lögðu ekki inn fisk hjá þessum manni, þrátt fyrir peningana, sem í boði voru, og sem þeir hefðu að sjálfsögðu getað keypt fyrir nauðsynjar sínar.

Þarna er yfirleitt um fátæka menn að ræða, sem byggja afkomu sína á aflavonum. Þeir hafa áður verið upp á kaupmanninn komnir, og þorðu því ekki beinlínis að eiga á hættu að brjóta hann kanske af sjer, með því að selja fiskinn öðrum, og standa svo allslausir, þegar aflinn bregst. Það hafði komið fyrir, að kaupmennirnir gáfu þau svör: „Aflann geti þið selt hverjum sem vera vill, en þið getið varla búist við, að jeg haldi áfram að lána ykkur ótakmarkað eftir sem áður allan þann tíma, sem ekkert aflast.“ Og hvert eiga þá þessir menn að flýja, þegar búðinni er lokað fyrir þeim? Sjóðurinn verður líka að geta útvegað mönnum þær lífsnauðsynjar, sem á þarf að halda yfir vertíðina eða þangað til búið er að koma aflanum fullverkuðum í verð.