23.01.1928
Neðri deild: 4. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (1544)

18. mál, dýralæknar

Einar Jónsson:

Það er einatt svo, þegar framkvæma á einhverjar fækkanir á starfsmannahaldi ríkisins, að einhverjir verða til að mæla þar á móti. Jeg fyrir mitt leyti er sammála háttv. þm. Borgf. um það, að fækka megi embættismönnum í kaupstöðum landsins, en síður í sveitum. Hvað snertir þau embætti, sem hjer eru til umræðu nú, þá er því svo varið fyrir mjer, að jeg hefi aldrei talið verulegt gagn að þeim, að minsta kosti ekki eins og þau hafa verið rekin. Hjer er farið fram á að fækka þessum embættismönnum um tvo, og mjer er kunnugt um, að annað frv. mun koma fram, þar sem farið verður fram á að fjölga þeim upp í 7. Ennfremur komu með mjer að austan tillögur, sem samþyktar voru af stjórn Búnaðarsambands Suðurlands, þar sem þess er æskt, að dýralæknum verði hvorki fækkað nje fjölgað, heldur látnir hafa sömu tölu og þeir hafa nú. Hver þessara þriggja tillagna verður ofan á, skal jeg ekkert um segja, og mína afstöðu til þessa læt jeg ekki uppi, fyr en við atkvgr.

Hvað snertir gagnsemi þessara embættismanna fyrir almenning, þá lít jeg svo á, að þeirra verði ekki full not við sóttir og veikindi fjenaðar fyr en þeir eru orðnir jafnmargir og hreppar eru í landinu. Þá fyrst væri um alment gagn af þeim að ræða. En eins og nú er háttað, tel jeg, að mest gagn yrði að þeim með því að þeir rituðu meira í blöð og tímarit um húsdýrasjúkdóma og varnir gegn þeim en þeir hafa gert hingað til. Jeg er t. d. í engum vafa um, að skrif Jóns Pálssonar dýralæknis um lungnaormasýkina hafi gert mikið gagn, þeim, sem eftir hafa tekið. Annars er jeg hálfhissa á því, að þessi stjórn, sem telur sig vera bændastjórn, skuli koma með frv. þetta, því að ef það er skaði að fækka dýralæknunum, þá eru það vitanlega bændurnir, sem fyrir honum verða.

Að svo mæltu skal jeg ekki fjölyrða um málið við þessa umr., en vil vekja athygli nefndar þeirrar, sem fær það til meðferðar, á því, að hún mun fá erindi frá Búnaðarsambandi Suðurlands, þar sem farið er fram á, að dýralæknum verði ekki fækkað frá því, sem þeir eru nú, heldur látnir halda sömu tölu. En hvort sem dýralæknar verða hjer eftir 2, 4, eða 7, má vita, að gagnsemi þeirra kemur best og almennast að notum með aukinni fræðslu í ritum og ræðum, t. d. á námsskeiðum sem víðast. Með ferðalögum og handlækningum við einstaka gripi er ekki nægilegs gagns að vænta af svo fáum starfsmönnum í þessari grein, sem hjer er um að ræða.