23.01.1928
Neðri deild: 4. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (1545)

18. mál, dýralæknar

Sigurður Eggerz:

Hæstv. atvrh. sagði, að það stafaði af ókunnugleika mínum, ef jeg hjeldi, að það væri óhagræði fyrir Vestfirðinga og Austfirðinga að missa dýralækna sína, og skildist mjer helst, að hann telja eins hægt fyrir þessi hjeruð að leita t. d. til Reykjavíkur eða Akureyrar, eins og til Stykkishólms og Reyðarfjarðar, þar sem læknarnir hafa haft aðsetur. Á þetta get jeg alls ekki fallist hjá hæstv. ráðh. Jeg fæ ekki betur sjeð en betra sje t. d. fyrir Dalamenn og Snæfellinga að hafa dýralækni búsettan í Stykkishólmi heldur en hjer í Reykjavík. Og sama má segja um Austfirðinga. Eins og það sje t. d. ekki betra fyrir Hjeraðsbúa, að hafa dýralækni búsettan á Reyðarfirði, heldur en norður á Akureyri. Jeg held því, að hæstv. ráðh. hafi ekki athugað þessi atriði í ræðu minni, þegar hann hreyfði þessum mótmælum, því að það liggur svo í augum uppi, að þetta er rjett hjá mjer, að hvert mannsbarn hlýtur að sjá það, sem á annað borð hefir opin augu fyrir þessum hlutum.

Jeg verð að segja, að mjer þótti það dálítið leiðinlegt, þegar hæstv. ráðh. fór að draga inn í þessar umr. einstakar lánveitingar við banka þann, sem jeg er bankastjóri við. Og það leiðinlegasta var fyrir hæstv. ráðh., að hann ámælti bankanum fyrir að hafa reynst Mjólkurfjelaginu illa. En jeg þori alveg að taka í ábyrgð, að framkvæmdarstjóri Mjólkurfjelagsins mun ekki taka undir þessi ummæli ráðherrans, því að sannleikurinn er sá, að við höfum stutt þetta fjelag, bæði með lánum og ábyrgðum. Þessi ásökun hæstv. ráðh. er því með öllu órjettmæt. Það má og geta þess hjer, að bankastjórn Íslandsbanka hefir nýlega gert ráðstafanir í þá átt, að bændum fyrir norðan verði lánað fje, vegna hinnar óhagstæðu kjötverslunar, sem þeir hafa haft nú síðastliðið ár. Á þetta minnist ráðherrann ekki. Annars finst mjer harla óviðkunnanlegt, að formaður bankaráðsins skuli vera að draga lánveitingar bankans inn í þessar umræður, en þó tekur út yfir alt, að hann skuli þá ekki einu sinni fara rjett með.

Hvað snertir hug minn til landbúnaðarins, þá get jeg vísað til framkomu minnar á fyrri þingum. Jeg hefi barist fyrir því, að hjer í þessu landi kæmist upp sjerstakur fasteignaveðbanki, en seðlabankinn væri í sambandi við hann. Hefði þeim ráðum verið fylgt, var búið að skipa landbúnaðinum í öndvegið. Þessum tillögum hefi jeg barist fyrir á undanförnum þingum, og jeg held, að allir hljóti að vera sammála um, að þær hefðu komið bændum og þjóðinni yfir höfuð að meira gagni, heldur en púðursykur sá, sem hæstv. ráðh. hefir viljað strá yfir bændur þessa lands. Þess vegna verður því ekki móti mælt, að jeg hefi borið fram betri tillögur til handa landbúnaðinum en hæstv. ráðh. Öllum vinum landbúnaðarins er að verða ljósara og ljósara, hve mikil lánsþörfin er. Að hæstv. ráðh. hefir unnið á móti þeim, tel jeg stafa af skilningsleysi hans, frekar en illvilja. En þegar skilningsleysi og illvilji fara saman, þá kastar alveg tólfunum.

Jeg skil ekkert í, hvers vegna fyrri ræða mín verkaði svona illa á hæstv. ráðh. Jeg var hógvær, og þakkaði það, sem þakka var vert hjá hæstv. stjórn. Er mjer því alveg ráðgáta, hvernig á þessu uppþoti ráðherrans stóð. En hvað þetta mál snertir, þá er jeg viss um, að ráðh. er í minni hluta nær alstaðar á landinu. (LH: Ekki í Skaftafellsýslu). Ja, það kann að vera, en þá er mínum góðu vinum, Skaftfellingum, illa brugðið, ef þeir kunna ekki skil á jafn-þýðingarmiklu máli fyrir landbúnaðinn sem þessu.