23.01.1928
Neðri deild: 4. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í C-deild Alþingistíðinda. (1547)

18. mál, dýralæknar

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Það fer hjer, eins og stundum hefir viljað brenna við áður, að inn í umr. dragast önnur mál og fjarskyld. Í þetta sinn hefir hv. þm. Dal. heiðurinn af því, að hafa komið af stað umr. um bankamál, sendiherrann í Kaupmannahöfn og fleira, sem liggur jafnfjarri því máli, sem hjer er á dagskrá.

Ræðum þeirra beggja, hv. þm. Rang. (EJ og GunnS), þarf jeg engu að svara, og sný mjer því að hv. þm. Dal. Hann vildi nú í seinni ræðu sinni gefa í skyn, að afstaða hans til bankamálsins hefði jafnan mótast af velvilja hans til landbúnaðarins. Það er því undarlegra að heyra þetta af vörum hv. þm., þegar öll alþjóð veit, að á bak við framkomu hans í þessu máli hefir legið alt annað en umhyggja hans fyrir landbúnaðinum. Skraf hans um fasteignabankann er marklaust hjal, og ekkert annað en orðin innantóm. — Annars vona jeg, að á næsta þingi gefist tækifæri til að prófa í reynd þennan velvilja hans til landbúnaðarins, og að þá sjáist, hvernig hv. þ. m. Dal. stendur við þetta loforð um að styðja að auknum og hagkvæmum lántökum landbúnaðinum til handa.

Þá þótti bankastjóranum undarlegt af mjer, sem formanni bankaráðsins, að draga hjer inn í umr. einstakar lánveitingar bankans. En hjer var aðeins um einstaka neitun bankans að ræða, um einstakt lán til sjerstaks fjelags, sem alt var um garð gengið, áður en jeg gerðist formaður bankaráðsins. Hvort bankastjórnin hefir sjeð sig um hönd og veitt þessu fjelagi lán, skal jeg ekkert segja um. Jeg hefi ekki haft það til siðs, að vera með nefið niðri í einstökum lánveitingum bankans, síðan jeg varð formaður bankaráðsins.

Þá var sami hv. þm. að hrósa sjer af því, að bankinn hefði nú nýlega gert ráðstafanir til þess að bjarga bændum í Norðurlandi, vegna erfiðleika, sem þeir ættu í fjárhagslega. En sannleikurinn er sá, að bankinn neitaði fyrst að veita bændum þetta lán, en eftir kröfu frá mjer varð það þó úr, að lánið fjekst að einhverju leyti. Þessi tvö dæmi ættu að vera næg sönnun þess, af hvað miklum heilindum hv. þm. Dal. mælir, þegar hann er að tala um velvilja „bankastjórans“ til landbúnaðarins. Í bæði þessi skifti hefir hann beinlínis reynst fjandsamlegur í garð landbúnaðarins.