20.02.1928
Neðri deild: 27. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (1558)

18. mál, dýralæknar

Gunnar Sigurðsson:

Nú er þegar liðið mjög á fundartímann, og verður sennilega að ræða þetta mál lengur en í dag. Flestir ræðumenn hafa talað um þetta mál eins og smámál, en það er engan veginn rjett. Því er algerlega óheimilt að flýta umræðunum svo, að hv. þdm. þurfi að greiða atkv. að óathuguðu máli.

Mjer sýnist nú ekki vera miklar horfur á, að mínar till. nái samþykki að þessu sinni. En það er svo um mörg góð mál, og einkum þau bestu, að þeim hefir ekki orðið framgengt við fyrstu atlögu. Jeg er alveg viss um, að framtíðarskipulagið verður fjölgun dýralækna, ef nokkrar framfarir eiga að verða í búskapnum. Jeg skal benda á skylt atriði, fjölgun lækna í landinu á sínum tíma — en það er meiri skyldleiki þarna á milli en jeg hygg, að menn geri sjer alment grein fyrir. — Það þótti stórt spor, þegar læknum var fjölgað úr einum í fjóra, og þurfti mörg ár til að sannfæra menn um, að þetta væri ekki óþörf eyðslusemi. — Þörfin fyrir dýralækna eykst með auknu afurðamagni. Jeg hefi áður bent á, að vátrygging búpenings getur ekki talist möguleg, nema með dýralækniseftirliti. Eins er um eftirlit með útfluttum búsafurðum og þó einkum varnir gegn útbreiðslu alidýrasjúkdóma, sem áreiðanlega verður ilt að koma í veg fyrir, að endrum og eins berist til landsins.

Jeg get skotið því hjer inn, að eins og jeg hefi áður tekið fram, er það ekki ætlun mín, að þegar í stað verði settir 7 dýralæknar. Þess er máske varla þörf enn, og það er ekki heldur hægt að koma því í framkvæmd, vegna þess, að ekki eru til nógu margir menn með hina nauðsynlegu þekkingu. En frv. því, er jeg bar fram, er ætlað að vera framtíðarskipulag þessara mála. Jeg vona, að með því takist að tjalda til meira en einnar nætur, enda þótt þetta úreldist auðvitað síðar, eins og alt annað.

„Höggur sá, er hlífa skyldi“, má segja um hv. 1. þm. Árn., er hann gerist fyrstur manna til að mæla með fækkun dýralækna, þótt með hverju ári verði háværari kröfurnar um Suðurlandsundirlendið að fá þeim fjölgað. Um kostnaðinn af þessum embættismönnum vil jeg benda á, að ekki þurfa þeir að bjarga lífi margra stórgripa, til þess að vinna fyrir sjer. Jeg fyrir mitt leyti hefi t. d. áreiðanlega mist 2 stórgripi þau 4 ár, sem jeg hefi stundað búskap, sakir þess, að ekki náðist til dýralæknis.

Hjer hefir verið minst lauslega á störf dýralæknanna, og er óneitanlega einkennilegt að heyra ummæli í þá átt, að eiginlega hefðu þeir ekkert gert til gagns. Hvað hafa þeir t. d. gert í kláðamálinu? (Forsrh. TrÞ: Já, hvað hafa þeir gert í kláðamálinu?) Þeir hafa tekið upp og framfylgt þeirri stefnu, að sjálfsagt væri að útrýma kláðanum með lækningu, en ekki niðurskurði. (Forsrh. Trp: En það hefir aldrei verið hægt að fara að þeirra tillögum). Þess vegna er fjárkláðanum heldur ekki útrýmt. Eins hafa þeir unnið mikið starf í því að halda niðri bráðapestinni með bólusetningum, og lungnaormaveikinni í sauðfje. Hygg jeg, að það verk þeirra hafi ekki enn verið til peninga metið.

Jeg skal taka fram, að nú þegar hafa komið allmargar áskoranir til Alþingis, þar sem fækkun dýralækna er harðlega mótmælt, og er jafnvel sumstaðar krafist, að þeim sje fjölgað. Eru þessar áskoranir einkum af Austurlandi, og má sjerstaklega geta þess, að eitt brjefið er frá Búnaðarsambandi Austurlands. Eitt fjelag, sem mikið tillit ætti að taka til í þessu máli, Dýraverndunarfjelagið, hefir ennfremur lýst fylgi sínu við mína stefnu. Fyrir þessar sakir leyfi jeg mjer að fullyrða, að alt, sem fram hefir komið, hnígur í þá átt, að fjölga beri dýralæknum. Þeir hv. þm. V.-Sk. og hv. 3. þm. Reykv. eru mjer líka að mestu sammála, þar sem þeir leggja á móti stjfrv. og till. hv. 1. þm. Árn. En þótt jeg fallist á margt hjá hv. meiri h1. landbn., ber jeg þó fram aðra till. til rökstuddrar dagskrár, og ef hún verður samþykt, mun jeg taka aftur frv. mitt, sem hjer er á eftir á dagskránni. Get jeg sannast sagt ekki skilið, hvernig menn geta verið því andvígir, að Búnaðarfjelag Íslands og búnaðarsamböndin athugi málið til næsta þings. Það er heldur fáránleg ályktun hjá hv. 1. þm. Árn., ef hann hefir nokkra trú á sínum málstað, að gera ráð fyrir því fyrirfram, að þau hljóti að fylgja mínu frv. (JörB: Það er fyrirfram búið að „agitera“ í þeim).

Ef svo er, að öll búnaðarsamböndin og Bf. Í. eru nú þegar með fjölgun dýralækna, þá er það aðeins ný sönnun fyrir ágæti málsins.

Jeg skal fúslega játa, að mjer er dálítið um hönd að biðja hæstv. landsstjórn að semja frv. um fjölgun dýralækna. En hæstv. atvmrh. sagði við 1. umr., að sjer væri þetta mál ekki kappsmál, og þar sem hann er talsvert riðinn við búnaðarfjelagið, tel jeg víst, að honum verði ekki mikið á móti skapi að bera fram tillögur þess.

Sem ástæður móti dagskrártill. hv. meiri hl. vil jeg geta þess, að fyrir mjer er það aðalatriði, að dýralæknunum verði falin kensla í meðferð algengustu húsdýrasjúkdóma og eftirlit með sýningum á kvikfjenaði. Vona jeg að mönnum skiljist, að þeir hafa betri aðstöðu, hvað þekkingu snertir og fleira, heldur en búnaðarráðunautarnir, til þess að leysa þetta vel af hendi. Dýralæknarnir hafa beinlínis sjerfræðipróf í þessu, enda gegna ýmist dýralæknar, eða menn með prófi frá dýralæknaskólum í húsdýrarækt og húsdýrasjúkdómum, samskonar embættum í öllum menningarlöndum.