03.02.1928
Neðri deild: 13. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (1567)

58. mál, dýralæknar

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg tók það fram, að jeg gerði ekki að kappsmáli, að frv. næði óbreytt fram að ganga, t. d. það, að dýralæknarnir yrði endilega 7. Aðalatriðið fyrir mjer er það, að þeim fækki ekki frá því, sem nú er, verði þá 4–5, og færðir til, þannig, að þeir kæmi að betri notum, og sitji einn á Suðurlandi, austan fjalls.

Að fresta löggjöf fyrir þær sakir, að einhverra orsaka vegna geti ekki komið til fullra framkvæmda strax, tel jeg ekki ráðlegt. Fari frv. fram á æskilegar umbætur, verður það til þess að ýta undir, að því marki verði náð, sem þar er sett upp.

Hvað undirbúning þessa frv. snertir, þá er það ekki allskostar rjett, sem hæstv. atvmrh. sagði um hann. Margir fleiri hafa þar lagt hönd að verki, lesið frv. yfir og gert við það athugasemdir, heldur en Jón Pálsson, dýralæknir, sem að vísu er aðalmaðurinn við samningu þess.

Það er heldur ekki rjett hjá hæstv. atvmrh., að engar óskir hafi heyrst um fjölgun dýralækna. Það hafa oft verið uppi óskir um þetta meðal almennings, að minsta kosti hafa oft komið fram raddir um það á Suðurlandsundirlendi.

Hvað sparnaðinum við frv. hæstv. atvmrh. viðvíkur, þá er einnig um sparnað að ræða með þeirri skipun, sem hjer er gert ráð fyrir, þótt dýralæknum yrði fjölgað upp í 7, ef hægt er að sameina önnur störf, sem hingað til hafa verið unnin fyrir sjerstakt fje, við aðalætlunarverk þeirra. Og þótt útgjöld sýni sig á pappírnum, geta þau unnist upp á ýmsan hátt, í auknu hagræði, tryggari bústofni o. s. frv. Það dugar ekki að segja eins og Danskurinn: „Lige meget hvad det koster, bare man sparer“.