30.01.1928
Neðri deild: 9. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í C-deild Alþingistíðinda. (1577)

47. mál, þingsköp Alþingis

Pjetur Ottesen:

Jeg sagði bara um afstöðu hv. þm. í þessu máli gagnvart núverandi stjórn, að þannig mætti líta á þetta. Jeg studdist þar einmitt við það, að hv. þm. átti sæti á síðasta þingi og bar þá ekki fram neinar till. í þessa átt.

Þótt það muni ef til vill vera í fleiri tilfellum, að slík mál komi til kasta sameinaðs þings, en að þau komi til kasta þingsins í lagaformi, þá hafa mínar till. samt sem áður yfirburði yfir till. hv. flm. Því að þannig löguð skipun getur alveg komið að fullu gagni við afgreiðslu slíkra mála í sameinuðu þingi, en þegar slík mál væru aftur á móti borin fram í lagaformi, þá er líka fyrir því sjeð, samkvæmt mínum tillögum. Mjer skilst líka á háttv. flm., að hann geti fallist á þetta, með því að árjetta tilmæli mín til allshn. um það, að hún tæki þetta til athugunar.

Jeg gleymdi í fyrri ræðu minni að minnast á það, er hv. flm. sagði, að utanríkismálin væru að litlu leyti í okkar höndum. Þau eru einmitt að öllu leyti í okkar höndum. Því að þau afskifti, sem Danir hafa af þeim, eru þau ein, að þeir fara með þau í okkar umboði.