10.03.1928
Neðri deild: 44. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

1. mál, fjárlög 1929

Frsm. samgmn. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg hefi fáu einu við að bæta nál. samgmn., sem prentað er á þskj. 437. Nefndin hefir álitið fært að lækka styrkina til nokkurra flóabáta, einkum hinna stærri, t. d. til Borgarnesbátsins um 3500 kr., til Djúpbátsins um 3000 kr., til Skaftfellings um 1000 kr., til Flateyjarbáts um 1000 kr., og einnig suma hina smærri styrki í samræmi við þetta. Nefndin telur þetta fært sakir þess, að hún álítur, að útgerðarkostnaður hafi lækkað töluvert á síðastl. ári og muni sennilega fremur lækka á þessu ári. — Hinsvegar hefir orðið að hækka styrkinn til Eyjafjarðarbátsins um 7 þús. kr. Þetta stafar af því, að undanfarin ár hefir bátur þessi fengið styrk úr póstsjóði, en nú er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi því, sem liggur fyrir þinginu, að hann verði ekki greiddur. Því er óhjákvæmilegt að hækka sem því svarar styrk til bátsins af því fje, sem ætlað er til flóabátaferða, ef á annað borð á að halda bátnum út. En á því sýnist vera full nauðsyn. Við Eyjafjörð er ekkert gagn að Esjuferðum, og segjast hjeraðsbúar ekki kæra sig neitt um, að hún komi þar á aðrar hafnir en Akureyri. Vitanlega hafa þeir þeim mun meiri not af ferðum Eyjafjarðarbátsins, sem þær eru tíðari og með fleiri viðkomustöðum en strandferðirnar. Á síðastl. ári hefir báturinn, auk ferða sinna um Eyjafjörð, farið a. m. k. 7 ferðir til Skagafjarðar og álíka margar til Húsavíkur, og jafnvel al]a leið til Kópaskers. Nefndin vill benda á til athugunar eftirleiðis, að hún telur rjett, að póstferðastyrkur flóabáta sje greiddur úr póstsjóði eins og áður var. Áður var það svo, að Faxaflóabáturinn og Djúpbáturinn fengu nálega allan sinn styrk úr póstsjóði, en póstmeistari hefir nú um langan tíma felt niður alla póstferðastyrki til þeirra báta, sem styrks njóta af ríkisfje til mann- og vöruflutninga, þótt þeim jafnframt sje gert að skyldu að annast allar póstferðir á því svæði, sem þeir sigla um.

Eins og venja er til, vill samgmn. setja það skilyrði fyrir styrkveitingum, að viðkomur verði ekki færri og farkostur ekki lakari en síðastl. ár.

Eitt, sem Samgöngumálanefnd hefir þótt á bresta nú sem fyr, er það, að útgerðir ýmsra bátanna hafa ekki sent atvinnumálaráðuneytinu skýrslur um ferðir skipanna eða reikninga yfir rekstur þeirra í tæka tíð, og nokkrir jafnvel alls ekki. En nefndin hlýtur að leggja mikla áherslu á að fá að sjá bæði reikninga og ferðaáætlanir bátanna og gjaldskrár, svo að þeir nefndarmenn, sem ekki eru kunnugir staðháttum á hverju því svæði, sem bátarnir fara um, hafi nokkurn kost þess að kynna sjer, til hvers styrkurinn gengur og hve brýnar þarfirnar eru.

Eins og í nál. segir, er ætlast til þess, að Borgarnesbáturinn fari minst 8–9 ferðir til Breiðafjarðar og Djúpbáturinn fari 3–4 ferðir til Vestur-Ísafjarðarsýslu. Ennfremur, að Eyjafjarðarbáturinn fari a. m. k. 3 ferðir til Grímseyjar og jafnframt fari hann ekki færri ferðir en síðastl. ár til Húsavíkur og Skagafjarðar og einhverjar ferðir til Norður-Þingeyjarsýslu. Um Flateyjarbátinn er rjett að taka það fram, að ætlast er til, að hann fari einhverja aukaferð til Dalasýslu, ef hann hefir tíma til, jafnframt því sem hann á að halda uppi ferðum um Austur-Barðastrandarsýslu.

Jeg vil geta þess, að í nál. eru nokkrar prentvillur, en jeg hygg, að hv. þdm. geti lesið allar í málið, nema þá, að Rauðasandsbátnum eru ætlaðar 500 kr., en á að vera 300 kr.

Þá vil jeg minnast á 2 brtt. frá sjálfum mjer. Sú fyrri er um 2000 kr. styrk, gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar frá, til vegar yfir sandgræðslusvæðið í Bolungarvík. Það er mikið nauðsynjamál að flýta sandgræðslunni í Bolungarvík. Hjeraðsbúar hafa nú þegar unnið mikið að henni og ríkissjóður lagt fram nokkurn skerf í styrk til girðingarinnar. Nú er svo komið, að sandfokið er hætt, og í sumar sem leið mun einhver heyfengur hafa náðst að þessu svæði, en þar var áður ekki stingandi strá. Land þetta liggur ágætlega við ræktun, er að mig minnir um 400 dagsláttur að stærð og er rjett hjá kauptúninu. Teknir hafa verið einstakir blettir og borið á þá þang og fiskiúrgangur, og hefir helst sprottið þar upp úr, sem eðlilegt er. En það er mjög erfitt að koma áburðinum um sandinn, sakir þess, hve laus hann er. Á veturna, meðan ísar eða snjór er yfir, er aftur á móti ekki hægt að ná þara eða þangi, vegna sífeldra brima, sem bera alt slíkt úr fjörunni aftur. Á vorin er mest um þangið, og einmitt þá er hægast að fá fiskúrganginn. En þá er illfært um sandinn, nema vegurinn fáist.

Hv. fjvn. hefir ekki getað sint kröfum Norður-Ísfirðinga um símalínu frá Ögri til Sandeyrar á Snæfjallaströnd, um Æðey. En það er vafalaust, að óvíða er önnur eins þörf á síma eins og þarna. Jeg lýsti því nokkuð rækilega við 2. umr. og mun ekki endurtaka það nú. Jeg vil aðeins segja, að atvinnuvegir íbúa Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppa líða mjög við það að fá ekki símann. Læknisleysið verður helmingi tilfinnanlegra þar, sem slíkar vegalengdir eru, þegar jafnframt er símalaust. Þess eru jafnvel dæmi, að það hafi orðið mönnum að líftjóni. — Jeg vona, að hv. deild geti litið með velvild á þessa brtt., bæði vegna hinnar miklu þarfar, og eins vegna hins, að ekki eru eftir ólagðar af línum þeim, sem voru ákvarðaðar með símalögunum 1913, nema þessi og tvær smálínur. En mörg hundruð þúsund krónur hafa verið lagðar í nýrri viðbætur hjer og þar um landið, og sem ekki stóðu í símalögunum frá 1913. Bæði landssímastjóri og fyrv. atvmrh. hafa gert till. um að taka þessa línu í fjárl. 1929.