01.02.1928
Neðri deild: 11. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (1584)

55. mál, gagnfræðaskóli á Ísafirði

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Þetta frv. er samhljóða frv., sem í fyrra var flutt hjer af þáverandi þingmanni Ísafjarðarkaupstaðar. Því var þá vísað til mentmn., og átti það ekki afturkvæmt þaðan. Nú flyt jeg frv., eftir tilmælum bæjarstjórnarinnar á Ísafirði og þingmálafundar þar. En þó að jeg flytji frv. eins og það var í fyrra, eru í því ýms ákvæði, sem jeg felli mig ekki allskostar við. Til dæmis er í 7. gr. gert ráð fyrir, að í reglugerð skuli ákveða, að nemendur skólans greiði skólagjald, en jeg er yfirleitt á móti því, að nemendum við opinbera skóla sje gert að greiða skólagjöld. Hins vegar er mjer það ljóst, að þar sem greitt er skólagjald í öðrum svipuðum skólum á landi hjer, muni það ekki verða til þess að greiða fyrir frv. þessu nú, ef ákvæðið um skólagjald væri felt úr því.

Í raun og veru er óþarft að fjölyrða um þetta mál. Eins og hv. þm. er kunnugt um, hefir Ísafjarðarkaupstaður og Vestfirðir yfirleitt orðið mjög útundan, þegar úthlutað hefir verið fje til fjórðungsskólanna, Akureyrarskólans, Eiðaskólans og Flensborgarskólans. Jeg hefi tekið upp í greinargerð frv., hvernig framlög ríkissjóðs skiftast á milli skólanna árið 1924–1925. En það var á þessa leið: Akureyrarskóli, alls kr. 5441.00, kr. 504.00 á hvern nem., kr. 14.40 á námsviku hvers nem. Eiðaskóli (samsvarandi tölur) kr. 19365.00, 605.00, 20.86. Flensborgarskóli (samsvarandi tölur) kr. 14000.00, 258.00, 9.92. Sama ár var Ísafjarðarskóli, með 2 deildum og 45 nemendum, styrktur með 2600.00 krónum, eða aðeins kr. 2.06 á námsviku hvers nemanda. Árið eftir, 1926, var styrkurinn lækkaður niður í 2500.00 krónur, en hækkaður síðastliðið ár upp í 4000.00 krónur.

Þá ber og þess að gæta um Flensborgarskólann, að hann er svo að kalla undir handarjaðrinum á Reykjavík, og skyldi maður því ætla, að síður væri ástæða til að styrkja hann en hina fjórðungsskólana. Hlutföllin milli framlags ríkissjóðs til þessara skóla, miðað við námstíma og nemendafjölda, urðu þannig fyrir skólaárið 1924–25: Akureyrarskóli ca. 7.00 kr. Eiðaskóli ca. 10.00 kr. Flensborgarskóli ca. 5.00 kr., í hvert skifti sem Ísafjarðarskólinn fjekk eina krónu. — Sjá allir, hve hróplegt misrjetti þetta er. — Eitthvað mun þetta hlutfall þó hafa breyst til bóta tvö síðustu árin; styrkurinn hefir verið 4000 krónur.

Ennfremur vil jeg biðja hv. deild að minnast þess, að enda þótt þetta frv. sje flutt af þingmanni Ísafjarðarkaupstaðar einum, er það þó engu að síður hjeraðsmál allra Vestfjarða. Unglingaskólinn á Ísafirði var settur á stofn árið 1904, og heldur bærinn honum uppi að mestu leyti, en nemendur sækja til hans af öllum Vestfjörðum og jafnvel víðar að. Stjórn og kensla skólans hefir jafnan verið í besta lagi og skólinn mikið sóttur. Skólinn er í tveim deildum, og síðustu árin hafa verið þar um 50 nemendur. Ef húsrúm leyfði, væru nemendur sennilega mun fleiri.

Alt frá stofnun þessa skóla hefir því verið hreyft öðru hvoru, að Ísafjarðarkaupstaður, og þá um leið Vestfirðir, ættu ekki minni rjett til gagnfræðaskóla en hinir fjórðungar landsins. Áskoranir til þings og stjórnar hafa verið samþyktar, en engan árangur borið. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1929 er gert ráð fyrir, að Akureyrarskóli skuli styrktur með 59300 kr., Eiðaskóli með 19000 kr. og Flensborgarskóli með 16000 kr. En liður sá, sem ætlaður er öllum öðrum alþýðuskólum, þar á meðal Ísafjarðarskólanum, ert hækkaður úr 42000 kr. upp í 45000 kr. Kjör Ísafjarðarskólans verða því, eftir fjárlagafrv., hjer um bil þau sömu og áður. Nú býst jeg við, að hv. þdm. hljóti að verða mjer sammála um, að hvorki er vit nje sanngirni í því, að gera þennan skóla svo afskiftan um fjárstyrk.

Jeg þykist ekki þurfa að lýsa því fyrir hv. deild, hver þörf sje á því, að hafa sæmilegan skóla á Vestfjörðum, eins og í öðrum fjórðungum landsins, og það því síður sem nú liggja fyrir hv. deild tvö frv. um alþýðuskóla í Reykjavík. Það ber vott um, að hv. deild sje ljós nauðsyn alþýðlegra skóla og gagnsemi þeirra. Í Reykjavík hefir þó til þessa af bestum efnum og mannafla verið haldið uppi allskonar menningarstarfsemi og skólum.

Vænti jeg, að hv. deild geti fallist á ástæður mínar og greitt götu frv. Vil jeg að lokum mælast til, að því verði vísað til mentmn.