06.02.1928
Neðri deild: 15. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í C-deild Alþingistíðinda. (1591)

61. mál, heimavistir við hinn almenna menntaskóla

Flm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. er flutt af mjer eins og það var samþ. af þessari háttv. deild í fyrra. Lengra komst það ekki þá, því að það fjell í hv. Ed., að mig minnir með jöfnum atkvæðum.

Jeg skal ekkert fara út í að ræða um innihald frv., því að það var svo mikið rætt í fyrra. En jeg vil aðeins drepa á það, að sú mótbára, sem þá var helst uppi gegn þessu frv., að ekki væri rjett af þinginu að vera að samþ. svona áætlanir út í framtíðina, er nú fallin um sjálfa sig, því að nú hafa einmitt verið lögð fyrir þingið af hæstv. stjórn ýms frv., sem eru ráðagerðir um, hvað gera skuli í framtíðinni, svo að jeg geri ráð fyrir, að það muni ekki vera talið óviðeigandi, þó að slíkt sje gert í fleiri tilfellum en þar er stungið upp á.