07.02.1928
Neðri deild: 16. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (1604)

69. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Ólafur Thors:

Jeg ætla ekki að gera grg. þessa frv. að umræðuefni, og ekki heldur þann hluta af ræðu hv. flm., sem vjek að því, hvort íslenskir togarar væru verstir í landhelgisbrotunum, eða það, hvort þeir nytu aðstoðar útgerðarmanna til þessara brota. Því er haldið fram af fleirum en hv. flm., að þetta sje svo, en því er harðlega neitað af hlutaðeigendum. Þarna stendur fullyrðing móti fullyrðingu, en þó má segja, að grunur leiki á um þetta. — Jeg vil nú gera ráð fyrir, að sá grunur sje rjettur, og ræða málið frá því sjónarmiði, hvort till. hv. þm. er líkleg til að ráða bót á þessu meini. Það á að skylda útgerðarmenn og skipstjóra til að senda dómsmálaráðuneytinu lykil að hverju því dulmáli, sem notað kann að verða í skeytasendingum til skipanna og frá þeim. Auk þess á ráðuneytið að afhenda sjerstök eyðublöð, sem öll skeytin sjett frumrituð á. Loks eiga útgerðarstjóri og skipstjóri fyrir hönd allra sendenda skeytanna að undirskrifa drengskaparvobtorð um það, að þarna búi ekkert fals undir. — Þetta eru aðalöryggisráðstafanirnar. Jeg skal ekki að þessu sinni ámæla höfundi frv. fyrir, að líklegt er, að með þessum reglum sjeu brotnar alþjóðavenjur um leynd skeytasendinga. Hygg jeg, að ekki sje hægt að heimta skeyti útgerðarmanna nema með dómsúrskurði. En af því að jeg hygg, að ráða mætti bót á þessu í nefnd, skal jeg ekki gera, það að sjerstöku umtalsefni í þetta skifti. En hinu verður ekki komist hjá, að athuga, hvað miklar líkur eru til, að höfuðtillagan nái tilgangi sínum. Höfuðtill. er þá sú, að það skuli vera skylda að láta dómsmálaráðherra í tje lykil að því dulmáli, sem notað er við slíkar skeytasendingar, og á með þessu að tryggja, að veiðiskipum berist ekki frjettir af varðskipunum. Jeg vil ekki láta hjá líða að leiða athygli hæstv. ráðh. og hv. flm. að því, að jeg hygg þessi uppástunga sje alveg gagnslaus. Maður getur náttúrlega sagt, að skyldan til að gefa drengskaparvottorð um að viðhafa ekkert í skeytum, sem geti gefið bendingar, leggi aðilum ríka kvöð á herðar. En það er ótækt að krefjast þess, að útgerðarmaður og skipstjóri ábyrgist öll skeyti til skips og frá. Jafnvel þótt aðeins væri krafist af þeim drengskaparheits um þau skeyti, er þeir sjálfir skiftast á, tel jeg að ekki sje rjett að ganga svo langt um notkun drengskaparheits, og hygg það sje ekki venja löggjafanna. En ef ekki á að byggja á drengskaparheiti einu, þá er hitt með öllu þýðingarlaust að ætla sjer að girða fyrir þau brögð, sem hjer kunna að verða höfð í frammi, með því að láta ráðuneytið hafa lykla að launmálinu. Jeg get ekki sjeð, að þeim, sem á annað borð kæra sig um að fara í kring um ákvæði þessara laga, sje með þeim gert nokkurn skapaðan hlut örðugra fyrir, en þótt lögin væru ekki. Það hlýtur að liggja hverjum manni í augum uppi, að það er alveg jafnhægt að koma skilaboðum, hvort heldur munnlega eða með loftskeytasendingu, á venjulegu mæltu máli, eins og dulmáli. Það er ákaflega auðleikið, að láta þetta mælta mál hafa ákveðna dulþýðingu. Jeg get ekki sjeð, að það þurfi slyngan bragðaref til þess að finna upp margvísleg kerfi dulmáls, sem ekki er þó á annara færi að sjá, að sje dulmál. Það er flestum hv. þdm. kunnugt, að Þjóðverjar gátu leikið sjer að því að koma frá sjer skilaboðum hvert sem þeir vildu, með skeytum, sem voru flest á venjulegu mæltu máli. Þeir voru að semja um síld og mjöl, en það þýddi þá tilkynning um það, að þessi deild kafbáta hefði siglt frá þessum stað til annars. Eða það var fyrirspurn til njósnara um það, hvort von væri á nokkrum skipum frá þeirri og þeirri höfn, svo að þeir gætu komið við kafbátum til þess að granda þeim skipum.

Jeg verð því að segja, að að svo miklu leyti sem sá grunur, sem er borinn fram í greinargerð frv., er á rökum bygður — en hjer er ekki staður til að ræða það, meðal annars af því að ekki er hægt að komast að ákveðinni niðurstöðu — en að svo miklu leyti sem hann er á rökum bygður, þá er að virða þá viðleitni, sem kemur fram í frv., til þess að ráða bót á meininu. En jeg sje ekki betur en að það sje skotið fram hjá markinu.

Út af ræðu hv. flm. datt mjer í hug, hvað það væri nú erfitt að meina skipum að senda sín á milli skeyti, sem þá gætu falið í sjer fullar upplýsingar um, hvar varðskipin væru stödd á hverjum tíma. Hv. flm. var að tala um að skip, sem er statt við Reykjanes og mætti þar varðskipinu á austurleið, gæti tilkynt skipum austur við sanda, að nú væri varðskipsins von. Við skulum hugsa okkur, að svona sje. Er nú þetta saknæmt? Er það saknæmt. ef togari, sem er á leið til Reykjavíkur, sendir skipi, sem er á veiðum fyrir austan, frjettir um það, að hafa mætt varðskipinu? Er þetta gert í þeim tilgangi að aðvara skipið um komu varðskipins, eða er það aðeins símað sem algeng frjett? Til þess að gera dæmið enn gleggra, skulum við hugsa okkur, að togarinn mætti 3–4 öðrum skipum, togurum og millilandaskipum, og sendi frjettaskeyti um það til annara skipa eystra; þá er frjettaskeytið ekki saknæmt. En er þá verknaðurinn orðinn saknæmur, ef varðskipið er nefnt?

Nei, jeg hygg það sje örðugt að búa svo um hnútana, að ekki sje að minsta kosti hægt að senda skeyti á alveg venjulegu mæltu máli, sem geti haft alt aðra þýðingu.

Af hinum minni göllum frv., sem jeg hefi tekið eftir við fyrsta lestur, vil jeg benda á einn. 7. gr. gerir ráð fyrir því, að brot gegn 2. og 3. gr. skuli varða sektum frá 15–50 þús. kr. Frá þessum fyrirmælum er engin undantekning. Nú er það eitt af fyrirmælum 3. gr., að á sjerhverju skipi skal frumrita öll skeyti, sem frá því eru send, á eyðublöð frá dómsmálaráðherra. Jeg, sem er nokkuð kunnugur togaraútgerð, get vel hugsað mjer, að það komi iðulega fyrir, að skipstjóri gleymdi því, þegar hann færi úr íslenskri höfn, að slík eyðublöð væru á þrotum. Og nú kemur skipið út á veiðistöðvar. Við skulum segja, að því hlektist á og sendi neyðarskeyti. Það getur ekki frumritað skeytið á eyðublað frá dómsmálaráðuneytinu, og sje jeg þá ekki betur en að vörður rjettvísinnar verði að sjá um, að fyrir þetta sæti skipið sektum frá 15–50 þús. kr. En þetta er einn af minni göllunum, sem hægt er að ráða bót á, ef á annað borð er hægt að búa til eitthvað utan um þá hugmynd, sem mun felast í frv., er að gagni mætti koma.

Jeg vil einnig benda á það, að það hefir oft verið talað um, að togarar fengi talstöðvar. Það fjelag, sem jeg hefi meðgerð með, hefir sett talstöð á eitt af sínum skipum. Á þá ekki að banna í þessu frv. slíkar talstöðvar? Mörg erlend skip nota mikið talstöðvar sín á milli, til þess að gefa upplýsingar um aflabrögð.

Jeg get ekki leynt því, að mjer finst þetta mál ákaflega vanhugsað; og mjer er nær að halda, að maður, sem hefir þá reynslu, sem hv. flm. hefir, hafi hreint ekki lesið yfir þetta frv., áður en hann gerðist flutningsmaður að því, og höfundur þess er hann áreiðanlega ekki. Það er lítil og skemtileg saga í greinargerð frv., nefnilega þetta, að „ömmu líður vel“, og „ömmu líður ennþá vel“, og „amma er að byrja að verða lasin“, sem segir til um faðerni frv. Hún er svo lík ýmsu, sem fellur frá hæstv. dómsmrh., að engum blandast hugur um, að frá honum er hún komin. — En frv. sjálft er svo vanhugsað, að það gæti ekki átt neinn „afa“ að höfundi. Jeg hygg, að jafn reyndur og greindur maður og hv. flm. hafi ekki lagt hausinn í bleyti — ef jeg má komast svo óþinglega að orði — til þess að laga galla þessa frv.

Jeg nota nú tækifærið — af því að jeg hefi ekki altaf þá ánægju að tala við hæstv. dómsmrh., sjerstaklega ekki svo hitalaust sem nú — til þess að benda á eitt ráð, sem dugar í þessum efnum. Það er aðeins eitt ráð til þess að fyrirbyggja ólöglega veiði íslenskra og erlendra togara, og það er að fjölga varðskipunum. Það liggur fyrir frv. í Ed., frá hv. þm. Snæf., um það, að Landhelgissjóður byggi nýtt strandvarnaskip. Jeg vænti, að sá hugur, sem liggur til grundvallar fyrir þessu frv. hæstv. ráðh., lýsi sjer í framkvæmd með því að hann taki vel því máli. Og mín skoðun er sú, að landhelgisveiðin verði ekki stöðvuð með öðru en því, að girða svo landhelgina, að hvorki íslenskir nje erlendir togarar þori inn fyrir. Mjer er það ekkert launungarmál — og jeg segi það mínum kjósendum, sem eiga manna mest undir því, að landhelgin sje vel varin, — að þegar skipstjórar ekki einungis sæki auðinn inn fyrir línuna, heldur líka sinn metnað, þá verða landhelgisveiðar ekki stöðvaðar nema með því einu, að hafa svo öfluga vörn, að þeir þori ekki inn fyrir. Hjer eru þeir, sem hæsta sýna sölu á enskum markaði, eðlilega taldir mestir fiskimenn. En sumir þeirra manna, sem heppnastir eru taldir á ísfiskiveiðum, eru einmitt þeir, sem mest hafa valdið þeim grun, sem kemur fram í greinargerð þessa frv. Það er mannlegt, að skipstjórar láti metnað sinn ráða nokkuru um framkomu sína í þessu máli. En fyrir löggjöfina, sem á að skilja þær mannlegu tilfinningar og um leið að gera við þeim brotum, sem framin kynnu að verða — fyrir okkur er það eina ráðið, að auka varðskipaflotann og gera það sem fyrst.