07.02.1928
Neðri deild: 16. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (1607)

69. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Ólafur Thors:

Eftir þær ræður, sem þjer hafa verið fluttar, þarf jeg ekki að tala langt mál.

Hv. flm. sagðist ánægður með undirtektir mínar, en þótti mjer hinsvegar hafa yfirsjest í því, að ganga fram hjá ákvæðum 4. gr. En það var aðeins vegna vináttunnar, sem jeg ber til hv. flm., að jeg hlífðist við að gera þessa grein frv. að umtalsefni. Hún er svo hjákátleg, að furðu gegnir, að jafngætinn og athugull maður eins og hv. flm. er álitinn af öllum, sem til þekkja, skuli hafa lánað nafn sitt undir frv.

Í þessari gr., 4. gr. frv., er gert ráð fyrir að bókfæra öll loftskeyti til og frá íslenskum veiðiskipum, og senda þau síðan í afriti dómsmálaráðuneytinu í lok hvers mánaðar, en ráðuneytið afhendir síðan alla þessa skeytafúlgu sjávarútvegsnefndum Alþingis til frekari athugunar. Jeg veit, að okkur, sem sæti eigum í sjútvn., mundi ekki endast þessir þrír mánuðir, sem Alþingi starfar, til þess að lesa þessar einkennilegu bókmentir. Svo mörg og margvísleg eru þau skeyti, sem send eru til og frá íslenskum veiðiskipum. Ákvæði 4. gr. frv. er því svo fjarri öllu skynsamlegu viti, að það er broslegt, að slíkt skuli borið fram á löggjafarþingi þjóðarinnar.

Jeg lofaði hv. flm. aðstoð minni til að athuga málið í nefnd, þótt jeg efist um, að okkur, þrátt fyrir einlægan og góðan vilja, takist að klæða svo þessa fúnu beinagrind, að úr því verði lagasmið að nokkru liði.

Jeg sný þá máli mínu að hæstv. dómsmrh.

Mín ræða hneig að því, að gagnrýna, hvort frv. þetta mundi til bóta, ef því er slegið föstu, að grunurinn um landhelgisveiði íslenskra togara sje á rökum bygður. — Hæstv. dómsmrh. talaði um aðra og óskylda hlið málsins. Ræða hans hnje aðallega að því, að leiða líkur að því, að grunurinn um landhelgisbrot togara væri á rökum bygður. En þær málalengingar eru óþarfar, úr því jeg hefi einmitt rætt málið á þeim grundvelli. Þessa hlið málsins er því óþarft að ræða, enda leiði jeg hjá mjer að svara ýmsum staðleysum og fullyrðingum hæstv. dómsmrh. og öllum þeim fúkyrðum og getsökum, er hann ljet sjer sæma að kasta að íslenskum útgerðarmönnum.

Hæstv. dómsmrh. ljet sjer ennþá einu sinni sæma, að kasta fram þeirri fullyrðingu, að loftskeytatækin hefðu verið sett í íslenska togara í þeim eina tilgangi, að aðstoða þá við landhelgisveiðar, og bar fyrir sig orð, sem fallið hefðu hjer á Alþingi um þetta efni frá mikilsvirtum fyrv. hv. þm., en bætir svo við næsta hróðugur, að þessu hafi ekki verið mótmælt. Jú, þessu var mótmælt, og það var gert á þeim vettvangi og svo eftirminnilega, að furðu gegnir, að hæstv. dómsmrh. skuli vera búinn að gleyma því. Þessi vettvangur var „Tíminn“. Þar hafði hinn síritandi skriffinnur blaðsins, núverandi hæstv. dómsmrh., birt eina af sínum alkunnu langlokum um þetta mál, og gengið svo langt í getsökum í garð útgerðarmanna, að ritstjóri blaðsins sá sig tilneyddan að ljá rúm í blaðinu til andsvara.

Og svarið kom.

Alt var rekið ofan í hæstv. dómsmrh. og honum t. d. bent á, að þessi sami hv. þm., er hann vitnaði í, hefði litlu eftir að hann talaði þessi umræddu orð í þinginu sett loftskeytatæki í eitt veiðiskip sitt, af því að hann taldi það nauðsynlegt við löglegar veiðar.

Jeg ætti kanske að minna hæstv. dómsmrh. á, að þessi „snjalli“ rithöfundur, sem hrakti allar staðhæfingar hans, var einmitt jeg sjálfur.

Þá sagði hæstv. dómsmrh., að óhugsandi væri að fjölga svo varðskipum, að öryggi fengist fyrir því, að landhelgin yrði varin á öllum tímum árs. En þessi fullyrðing er á engum rökum bygð. Eins og jeg hefi áður sagt, þurfa varðskipin að vera það mörg, að togarar eða önnur veiðiskip þori ekki inn fyrir landhelgina til ólöglegra veiða.

Jeg lít svo á, að 3–4 varðskip af líkri gerð og „Óðinn“ mundu nægja til þess, að enginn skipstjóri mundi eiga það á hættu að veiða í landhelgi. Það er misskilningur, að varðskipin sjeu eins og skollinn í leiknum. Hinir mentuðu og duglegu skipherrar vita það fullvel, að freistingin til landhelgisveiða er staðbundin á vissum tíma árs, og þeim er vel kunnugt um, hvar helst er veiði von. Sá erlendur skipstjóri, sem lengst hefir farið með strandgæslu hjer við land, foringinn, sem var á „Fyllu“ í fyrra, er þeirrar skoðunar, að okkur mundu nægja 4 varðskip til þess að halda íslenskum og erlendum veiðiskipum utan landhelgi, og sömu skoðunar er jeg, eins og jeg hefi margtekið fram.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að með bendingum mínum á höfuðgalla þessa frv. hefði jeg gerst sekur um gífurlegan fjandskap við strandvarnarmálið, og það væri mín höfuðsök. Því undarlegra er þetta, þegar þess er minst, að sá maður, sem frv. flytur fyrir hæstv. dómsmrh., hv. 1. þm. S.-M., er alveg nýbúinn að þakka mjer í heyranda hljóði fyrir undirtektir mínar, og ljet þess jafnframt getið, að jeg mundi í sjútvn. líklegur til að hjálpa honum að umbæta þennan vanskapning, sem frv. er.

En hvað býr undir?

Jú, hæstv. dómsmrh. er með þessum blekkingum að reyna að rægja mig í augum kjósenda minna, einkum þó þeirra, sem búa suður með sjó og stunda smábátaveiði á grunnmiðum. En þetta þýðir ekki neitt; það hefir verið reynt áður að bera mig þessum sökum. Suðurnesjabúar þekkja mig of vel og þann hug, sem jeg ber til strandvarnanna. Jeg hefi á fundum hjá þeim marghaldið fram þessu sama og hjer: að auknar strandvarnir sjeu eina hjálpin til þess að vernda grunnmiðin og tryggja afkomu smábátaútgerðarinnar. Jeg hefi líka áður sagt, að þegar búið er að láta greipar sópa um grunnmið og hrygningarsvæði, þá þarf ekki framar að leita fiskjar á djúpmiðum. Það er því ekki nema eðlilegt, að jeg, sem útvegsmaður, vilji heill þess atvinnuvegar og skilji betur en hæstv. dómsmrh., hvað hjer er í húfi. Hann þarf því ekki að væna mig um óheilbrigði, mig, sem er fulltrúi þeirra manna, er alt eiga undir því, að grunnmiðin sjeu vernduð, og stunda auk þess sjálfur útgerð. Eyðilegging grunnmiða og hrygningarstöðva sýndi álíka hyggindi útgerðarmanna og bændur sýndu í sauðfjárræktinni með því að slátra öllum lömbunum.

Jeg skal ekki tefja tímann með því að fara að ræða um ráðstafanir, sem gerðar hafa verið við Englandsstrendur til þess að fyrirbyggja loftskeytatruflanir. Að hæstv. dómsmrh. seildist svo langt, var víst í þeim tilgangi gert að reyna að láta líta svo út, að einhver annar á undan honum hefði gerst til þess að gefa líkar fyrirskipanir og frv. fer fram á. En vitanlega liggur í augum uppi, að þessar ráðstafanir Englendinga eru alt annars eðlis en þær, sem felast í frv.

Þá vildi hæstv. dómsmrh. láta líta svo út, að jeg legði ekkert upp úr drengskaparloforðum útgerðarstjóra. Og þetta leyfir hann sjer að draga út úr orðum þeim, er jeg mælti áðan. En hjer er vitanlega ekki um annað að ræða en vanalegar falsanir hæstv. ráðh. á orðum andstæðinga sinna. Mjer dettur ekki í hug að ætla annað en að flestir, sem drengskaparheit gefa, haldi það. En jeg sagði, að enginn útgerðarstjóri gæti gefið drengskaparvottorð um það, að ekkert það stæði í skeytum, sem bærust til og frá skipum hans úti í sjó, er upplýsa mætti um varðskipin. Slíkt drengskaparvottorð getur enginn útgerðarstjóri gefið, og það af þeirri einföldu ástæðu, að hann getur ekkert um það vitað. Hæstv. dómsmrh., gæti meira að segja sent skeyti og orðið þess valdandi, að upplýsa um, hvar varðskipin halda sig stundina þá. Við skulum hugsa okkur, að einhver af togurum Kveldúlfs sje að veiðum í Faxaflóa. Hann fær skeyti frá dómsmálaráðuneytinu, er gæti hljóðað svo: „Viljið þjer gera svo vel að fara til móts við „Óðinn“ suður að Garðskaga og aðstoða hann við björgun.“ Nú getum við hugsað okkur, að skipstjóranum á þessum togara þyki gott að vita, hvar varðskipið heldur sig, og fari ekki til björgunarinnar. Er jeg þá drengskaparlaus maður fyrir þá sök, að þetta skip mitt hefir fengið upplýsingar um varðskipið og það í skeyti frá sjálfum dómsmálaráðherranum?

Jeg endurtek því það, sem jeg sagði í fyrri ræðu minni, að eins og frv. er úr garði gert, þá er ekki hægt að gefa slík drengskaparvottorð. Hinsvegar vil jeg benda á, að ef drengskaparvottorð ætti að heimta í þessu efni, þá mundi rjettara að koma því fyrir á annan auðveldari hátt, t. d. að skipstjórarjettindin væru bundin því, að enginn fengi leyfi til þess að fara með botnvörpung, nema hann undirskrifaði áður drengskaparvottorð um það, að veiða aldrei í landhelgi. Og svo slyngur maður sem sjálfur dómsmálaráðherrann er í lagasmíðinni, ætti ekki að verða í vandræðum að finna ráð til að koma slíkum ákvæðum í frv.

Jeg hefi bent á, að þrátt fyrir ákvæði þessa frv. geta allir, sem annars vilja það, farið í kringum lögin, og landhelgisveiðar þess vegna haldið áfram. Menn geta eftir sem áður sent hundrað setningar á venjulegu máli, sem þó geta haft ákveðna merkingu. (Dómsmrh. JJ: Þá er það dulmál!) Hver getur dæmt um það? — Við skulum hugsa okkur, að eitthvert skip fái loftskeyti, sem hljóðar á þessa leið: „Guð blessi dómsmálaráðherrann!“ Er þetta saknæmt, að biðja fyrir ráðherranum? Jeg veit ekki betur en að í öllum kirkjum landsins sje beðið fyrir stjórninni. (Dómsmrh. JJ: Þeir skrópa nú í því efni, sumir íhaldsklerkarnir!) Þess þá heldur ætti að vera þörf á því, að aðrir tækju sig til og bæðu guð að blessa ráðherrann.

Jeg hefi þá með þessu, er jeg hefi nú sagt, sýnt hæstv. dómsmrh. fram á, að tilraunir hans um að gera mig tortryggilegan hafa algerlega misheppnast. Hv. flm. hefir þakkað undirtektir mínar og fúslega viðurkent, að frv. þurfi lagfæringar við. Þetta mál þarf að hugsa miklu skarpara en frv. ber vott um. Af samning þess getur hæstv. dómsmrh. engan heiður haft, annan en þann, að hafa ef til vill meint eitthvað gott með því. En eins og frv. er, ber það vott um frámunalega fljótfærni og ófyrirgefanlegt hirðuleysi um lagasmíð.