07.02.1928
Neðri deild: 16. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (1609)

69. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Pjetur Ottesen:

Það verður ekki um það deilt, að landhelgisgæslan er hin mesta þjóðarnauðsyn. Að því leyti sem þetta frv. gæti stuðlað til þess að torvelda landhelgisveiðar, þá er það sjálfgerður hlutur fyrir alla þá, sem hafa opin augun fyrir því nauðsynjamáli, að vinna að því, að þessi lagasmíð geti náð sem best tilgangi sínum. En jeg er, því miður, hræddur um, að það sje mjög hæpið, að þetta frv., eins og það liggur nú fyrir, nái tilgangi sínum, og ef til vill verði erfitt að búa það svo úr garði. Og jeg álít það mjög hæpið fyrir þá menn, sem ant er um landhelgisgæsluna, að varpa alt of miklum áhyggjum upp á það, að þetta frv. verði til þess að bæta hana verulega. Aðalatriðið í því máli er að auka gæsluna. Mjer varð þetta enn þá ljósara við ræðu hæstv. dómsmrh. áðan, sjerstaklega eitt atriði í henni. Hann sagði sem sje, að togarar, sem hefðu miðunaráhöld, gætu altaf vitað, hvar varðskipin væru. Þessi tæki eru enn sem komið er í fáum skipum. En þegar tekið er tillit til þess, hve sorgleg reynsla er fengin um það annarsvegar, hve ákaflega hættulegar eru siglingar hjer við land, og hinsvegar, hve mikið öryggi er í því fyrir skipin, að hafa þessi áhöld, þá má ganga að því vísu, að það líði ekki á löngu áður en flest skip útvegi sjer þessi tæki. Og ef það má altaf vita með hjálp þessara tækja, hvar varðskipin eru, þá má ekki búast við því, að bót verði ráðin á því að ljetta undir með landhelgisgæsluna á þann hátt, sem frv. þetta ætlast til. Þess vegna vildi jeg aðeins láta í ljós þá skoðun mína, að menn megi ekki varpa alt of miklum áhyggjum á þá úrslausn, sem þetta frv. felur í sjer. En jeg vil eigi að síður vinna að því, að ná sem bestum árangri, sem hægt er, á þann hátt.

Það var þó annað atriði í ræðu hæstv. dómsmrh., sem gaf mjer sjerstaklega ástæðu til þess að standa upp. Hann talaði um loftskeytanotkun togaranna í sambandi við þá hlið þessa máls, sem snýr að útlendingum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að útlendingar, sem hjer eru teknir og dæmdir í sektir fyrir landhelgisbrot, þykjast oft grátt leiknir. Sjerstaklega eru það þýskir og enskir togarar, sem oftast verða fyrir barðinu á varðskipunum. Þegar eftir heimkomu þeirra til Englands eða Þýskalands hafa útgerðarmenn skipanna mjög oft snúið sjer til fulltrúa sinna á þingi og beðið þá að krefjast þess, að það yrði rannsakað, hvort togararnir hafi ekki verið beittir órjetti hjer. Það er auðvitað, að þegar skipstjórarnir koma heim eins og halakliptir hundar, þá halda þeir því fast fram, að þeir sjeu alsaklausir og hafi verið rangindum beittir. En það hefir, sem betur fer, altaf sýnt sig hingað til, að kærur þessar hafa ekki haft við nein rök að styðjast.

Því hefir verið haldið fram, að íslensku togararnir hafi betri aðstöðu til landhelgisveiða, vegna þess, að þeir hafi loftskeytatæki. Þar er því til að svara, að mörg hinna útlendu botnvörpuskipa hafa einnig loftskeytatæki, og hafa þau því sömu aðstöðu hvað þetta snertir. Það hefir verið sagt, að ísl. togararnir standi betur að vígi í þessu tilliti vegna þess, að þeir sjeu hjer að veiðum við sitt eigið land. Aðstaða útlendinga er að sama skapi betri, er þeir veiða við sínar eigin strendur, og er hjer því enginn munur á. Meðan okkur tekst að halda því orði á varðskipunum okkar, að þau sjeu óhlutdræg, hver sem í hlut á, og sömuleiðis öll framkoma þeirra, sem um framkvæmd laganna sjá, þá stafar okkur engin hætta af árásum útlendinga í þessu efni. Og sem betur fer hafa þær raddir, sem upp hafa komið um það hjer á landi, að nokkuð sje áfátt þessu öryggi, dáið sjálfkrafa út, og þeir menn, sem hafa komið fram með slíkt, hafa orðið að bera kinnroða fyrir fullyrðingar sínar. En það má ekki heyrast nein rödd, sem veikt geti þessa rjettarstöðu okkar gagnvart útlendingum, og ef slíkt kemur fyrir, verður jafnharðan að kveða þann orðróm niður, því það geta verið nógu miklir erfiðleikar á því, að ráða niðurlögum á gremju þeirri, sem þungar sektir vekja hjá erlendum lögbrjótum, þótt þeim sje ekki gefið undir fótinn með ummælum um það innanlands, að ef til vill sje ekki hið sama látið ganga yfir þá og innlenda togara. Jeg vil stuðla að því á allan hátt, að landhelgisgæslu okkar stafi sem minst hætta af notkun loftskeytatækja, og jeg mun af einlægum hug styðja hverja tilraun, sem fram kemur, og úr hvaða átt sem hún kemur, til þess að draga úr þeirri hættu.