07.02.1928
Neðri deild: 16. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í C-deild Alþingistíðinda. (1611)

69. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Hákon Kristófersson:

Jeg hafði ætlað mjer að sitja hjá við þessa umræðu. En af því að jeg átti nokkurn hluta af því, sem hæstv. dómsmrh. sagði, sje jeg mjer eigi fært að sitja hjá með öllu.

Jeg er svonefndum flm. frv. þakklátur fyrir áhuga hans á þessu máli, og efast ekki um, að hann sje einlægur í því. Einlægni hv. 1. þm. S.-M. er þekt um land alt!

En mjer þykja dálítið leiðinleg þau orð, sem hæstv. dómsmrh. hefir haft um þau ummæli, sem jeg hefi látið falla um landhelgiveiðar íslenskra togara. Jeg hefi aldrei kent útgerðarstjórunum um þær. Mjer er því mesta raun að því að heyra það haft eftir mjer. Helst mætti ætla, að hægt væri að búast við þessháttar rangfærslum af vefaranum mikla frá Leiti, en ekki hæstv. dómsmrh. Jeg held, að dómsmrh. ætti ekki að vera að bera óhróður á menn. Jeg þakka honum hlýjan hug í minn garð, sem hann reyndi að láta koma fram í ummælum sínum, hvort meint hafa verið eða ekki, en vísa að öðru leyti ummælum hans heim til föðurhúsanna.

Viðvíkjandi skeytaeftirliti sjávarútvegsnefndar verð jeg að segja það, að mjer finst, að hún verði að vera bundin þagnarskyldu, úr því að landsíminn verður að þegja yfir efni þeirra skeyta, sem hann fær handa á milli. — Annars held jeg, að frv. gæti verið til mikilla bóta, ef það besta er notað úr því. Og jeg er viss um, að hæstv. dómsmrh. hlýtur að ganga gott til, að fylgja því. En eins og það er nú, dreg jeg stórlega í efa, að það geti læknað þau mein, sem við erum báðir sammála um að sjeu á landhelgisgæslunni. Varðskipunum þarf að fjölga. Það er sú eina rjetta lausn á málinu. Jeg vona, að hæstv. dómsmrh. geri sitt besta í því, og hann er líka eini maðurinn, sem getur hrundið þessu nauðsynjamáli í framkvæmd, hvað það snertir, þar sem líkur eru til að samþykt verði nú á Alþingi bygging á nýju strandgæsluskipi.

Jeg held, að hv. 2. þm. G.-K. hafi tekið hæstv. dómsmrh. of alvarlega. Auðvitað hefir ráðh. ekki meint, að það ætti að setja kúlu gegnum skrokkinn á þeim skipum, sem tala saman um „Óðin“ eða „Þór“. Sem alvara gat slíkt ómögulega komið frá hæstv. dómsmrh. Það er stundum alveg bráðnauðsynlegt, að skip tali saman. Þar af leiðandi má ekki taka þau mörgu vanhugsuðu orð hæstv. ráðh., bæði í þessu máli og öðrum, sem fullkomna alvöru. Jeg vil leyfa mjer að nefna mannskaðaveðrið mikla, fyrir nokkrum árum. Þá voru skipin altaf að tala saman og spyrja hvort annað, hvernig ástatt væri. Það nær þess vegna engri átt að banna slíkt. Og ekki get jeg sjeð, að það sje ákaflega saknæmt, þó að þau minnist á varðskipin. Það er nú einu sinni áþreifanleg reynsla, að við erum eigi eins löghlýðnir og vera ber. En til þess að koma í veg fyrir landhelgisbrot, þarf að fjölga varðskipum. Það er ekkert annað, sem dugar. Við göngum öll á annara rjett í ýmsum tilfellum. Fáir geta víst hreinsað sig af því, að hafa ekki einhverntíma gert það, og það er í raun og veru afsakanlegt, þó að menn, sem fullir eru af veiðihug og ákafa, skreppi einstaka sinnum inn fyrir landhelgislínuna. En það er svívirðilegt, að þeir skuli bæði brjóta lögin og skemma veiðarfæri fiskimanna. — En af frv. vænti jeg einskis góðs, eins og það nú er. Jeg er viss um, að hægt er að senda aðvörunarskeyti, þó að eigi sjeu á dulmáli. Mjer kemur ekki í hug, að bera á móti því, að útgerðarmenn hafi sent slík skeyti, því mig brestur kunnugleika á því. En ákaflega hefir sá verið klaufskur, sem fór að tala um heilsufar ömmu, í einu skeyti. Sá maður hlýtur að vera fjarska ólíkur hv. 2. þm. G.-K. (Dómsmrh. JJ: Þetta er ættrækni!) Jeg vil nú samt slá því föstu, að þessi maður hafi verið mjög fjarskyldur hv. 2. þm. G.-K. En við verðum að álíta, að það hafi verið einn af útgerðarstjórunum, ef þetta er þá ekki ósatt.

Jeg vona nú, að jeg hafi eigi blásið að neinum óslöktum eldi hjá hæstv. dómsmrh., með þessum fáu orðum, sem jeg hefi sagt. Jeg trúi eigi öðru en að við verðum sömu vinirnir og við höfum verið, eftir sem áður, þó að mjer þyki hins vegar leiðinlegt, að hann skuli fara með rangfærslur.

Jeg ætla mjer ekki að taka aftur þau ummæli, sem jeg hefi haft um lögbrot íslenskra togara. En það get jeg sagt, að nú á seinni tímum hefi jeg orðið var við miklu færri yfirtroðslur frá þeirra hálfu en áður. Það þakka jeg auknum landhelgisvörnum. Og jeg treysti hæstv. dómsmrh. til þess að láta hana verða eftirleiðis enn betri en hingað til. Ekki vantar hann áhugann! En mjer fellur það afar illa, að hann skuli blanda alóskyldum efnum inn í þessar umræður, t. d. fyrirbænum í kirkjum og því líku. En þrátt fyrir það vænti jeg, að hans góði vilji megi sín nokkurs, og framkoma hans í þessu máli byggist á fullri alvöru og umbótaviðleitni, en ekki á hinu, að ófrægja útgerðarmenn og aðra andstæðinga sína.