07.02.1928
Neðri deild: 16. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í C-deild Alþingistíðinda. (1613)

69. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. þm. Borgf. hefir ávalt látið sjer mjög ant um landhelgisvarnirnar. Mjer fanst þó tæplega eins mikill kraftur í ræðu hans í dag og stundum áður. En þess vænti jeg, að frv. eigi vissa liðsemd hans. — Hv. þm. virðist hafa misskilið nokkuð ræðu mína. Jeg gat um það meðal annara erfiðleika við landhelgisgæslu, að togarar gætu með miðunartækjum sínum vitað nokkuð um ferðir varðskipanna. En með þessu var jeg í raun og veru að gagnrýna gerðir landstjórnarinnar, bæði hinna fyrv. og þeirrar, sem nú situr. Hún hefir látið varðskipin tala talsvert saman, og þá geta togararnir vitað hvar þau eru. Þessu þarf að kippa í lag, og koma þá miðunartækin lögbrjótunum eigi að haldi. Jeg held, að hv. þm. hafi líka misskilið ummæli mín um íslenska og erlenda togara. Hv. þm. Snæf. hefir lýst því, hvernig skipin hafa komið inn í landhelgina, óðara en varðskipið var farið, en forðað sjer jafnskjótt sem hann var búinn að síma til Reykjavíkur og kæra. Hv. þm. Borgf. mun eigi neita þessu. En auðvitað vekur þetta grun hjá útlendingunum. Skipstjórar erlendir, sem teknir eru fyrir brot, gera auðvitað það, sem þeir geta, til þess að afsaka sig, þegar heim kemur. Og þeir geta borið það með rjettu, að okkar skip sjeu eigi tekin, þó að þau sjeu í tugatali innan landhelginnar. Það þýðir ekki að telja sjer trú um, að útlendingarnir taki eigi eftir þessu. Og ef til vill vita þeir líka ástæðuna, að ísl. togurunum er sagt til úr landi. Það er því alveg nauðsynlegt, að framvegis náist tiltölulega eins margir ísl. togarar og erlendir, í hlutfalli við brot, svo að hægt sje að segja, að jafnt gangi yfir alla.

Um ræðu hv. 2. þm. G.-K. þarf jeg fátt að segja. Við erum báðir búnir að færa fram okkar rök. Hann hjelt, að hægt væri að halda uppi sæmilegri landhelgisgæslu með 3 skipum álíka og „Óðinn“ er. Landhelgissjóður er nú að vísu svo vel stæður, að hann gæti lagt fram fje til að byggja 2 skip. En það verður erfiðara að standast rekstrarkostnað en stofnkostnað skipanna. Fjárhagsleg geta verður ávalt að ráða miklu. En ærin ástæða sýnist til þess að gagnrýna framkomu þeirra þingmanna, sem ekki vilja reyna þær umbætur, sem ekkert kosta, eins og þær, sem frv. fer fram á. Nú höfum við á að skipa 3 skipum vopnuðum til landhelgisgæslu. Samt eru lögbrot framin í stórum stíl. Að vísu er „Þór“ eigi eins góður og hin skipin, en þó er hann til nokkurs gagns. Innan skamms kemur danska varðskipið, og þá höfum við 4. Samt veitir ekki af ráðstöfunum þeim, sem farið er fram á í frv. Þá fyrst getur landhelgisgæslan orðið sæmileg, þegar þess er gætt, að togurum sje eigi hjálpað úr landi.

Hv. 2. þm. G.-K. fanst mikið til um þau ummæli mín, að mönnum væri varlega treystandi til þess að vinna samviskusamlega að málum, þar sem þeir ættu hagsmuna að gæta. Hann er nú sjálfur búinn að tala svo mikið um mannlegan breyskleika, að hann hefir alveg sannað þeta. Mótbárur hans gegn ummælum mínum eru því hreinasti barnaskapur og annað ekki.