07.02.1928
Neðri deild: 16. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (1615)

69. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Ólafur Thors:

Jeg vil aðeins leiða athygli hv. þd. að því, að veigamikill munur er á aðstöðu útgerðarmanns eða skipstjóra annarsvegar, og hinsvegar aðstöðu útgerðarmanns, sem tekið hefir við umboði til þingmensku. Hæstv. dómsmrh. hefir áður haldið hjer langar ræður um „fair play“ og stjórnmálaþroska. En jeg vil leyfa mjer að segja, að stjórnmálaþroski þess þingmanns væri ekki mikill, sem fyndi ekki til þess, eftir að hafa tekið að sjer umboð fyrir hjerað eins og Gullbringu- og Kjósarsýslu, að hann hefði tekið þar á sig nýjar og þungar skyldur, einmitt í svona málum. Jeg vona, að hv. þd. aðhyllist þessa skoðun mína, og þá það þar með, að jeg sje fullkomlega dómbær í þessu máli, engu síður en aðrir hv. þdm. — Ef jeg hefði verið óheill í málinu, þá hefði jeg þagað í dag og greitt atkvæði með frv., þar sem jeg hlaut að sjá vonleysi þess um að bera nokkurn árangur. Ef menn nú spyrja, hví jeg hafi ekki gert þetta, þá svara jeg því, að það er fyrir þá sök, að jeg er heill og falslaus um landhelgisvarnirnar. Jeg hefi andmælt þessu frv. sakir þess, að mjer þykir skömm að því, að það skuli koma fram, þar sem það er gersamlega tilgangslaust, hlýtur að verða vitagagnslaust og getur orðið til þess að draga úr öðrum gagnlegum ráðstöfunum til eflingar landhelgisgæslunni.

Jeg vil enda mál mitt með því að þakka hv. 1. þm. S.-M. — hinum svokallaða flm., eins og hv. þm. Barð. orðaði það — fyrir að endurtaka þau ummæli sín, að allir ræðumenn hefðu talað af hlýjum hug til málsins. Ættu þessi orð að nægja til að reka niður í hæstv. dómsmrh. þau öfugmæli hans, að þetta hefði verið meint sem skop. — Við hv. flm. og jeg eigum nú væntanlega eftir að vinna saman að þessu máli í nefnd. Jeg hefi enga trú á, að þetta frv. geti orðið grundvöllur að neinum till., sem að gagni megi koma, en e. t. v. getur það gefið tilefni til bollalegginga í nefndinni, sem kynnu að bera einhvern ávöxt.