07.02.1928
Neðri deild: 16. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (1616)

69. mál, loftskeytanotkun veiðiskipa

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Orð þau, er hv. þm. Borgf. ljet falla til sambandsþjóðar vorrar, um ljelega þátttöku í strandgæslunni, voru mjög ómakleg. Dönsku varðskipin hafa þrásinnis tekið skip að veiðum í landhelgi og sjeð fyrir, að þau yrðu sektuð. T. d. tóku þau allmörg skip á árinu, sem leið, og er það engum til hagsbóta að neita þeirri staðreynd. — Það er gott, ef hv. þm. stendur við það, að verða skeleggur í landhelgismálunum hjer eftir, og vænti jeg, að það megi verða þeim til meiri framdráttar en þátttaka hans nú í því, að breiða yfir linku og ljelegt skipulag. — En út af sneiðum hans um það, að varðskipin sjeu notuð í snattferðir, vil jeg svara því, að það er bæði gamall og nýr siður, að landsstjórnin noti þessi skip í opinberar þarfir, ef nauðsyn krefur. Vænti jeg, að síðar gefist tækifæri til að ræða það betur. En ef á að finna að því, að eitthvað sje gert við 140 þús. kr. sjóðþurð hjá sýslumanni á Vesturlandi, þótt Íhaldskjósandi sje, þá skal hv. þm. Borgf. vita, að jeg mun þar engu góðu svara, og að hann skal ekki eiga síðasta orðið í þeim viðskiftum, þótt varðskipin hafi verið notuð til að reyna að bjarga einhverju af þessu fje aftur. Hv. þm. þarf ekki að ímynda sjer, að þessi skip hafi eingöngu verið smíðuð til þess eins að gæta hans eigin fiskineta, heldur til alþjóðargagns. — Jeg mun ekki svara því, sem hv. þm. reynir að rangfæra eftir mjer, en jeg undirstrika, að það er staðreynd, að íslenskir togarar eru meira í landhelgi en útlendir, og til þess þarf mikla fávisku eða magnaða ósvífni, að neita því, að það gefi slæman grun, að þeir eru nær aldrei teknir. En vitanlega stafar það af því, að þeim er stjórnað með loftskeytum úr Reykjavík.

Það, sem helst hefir einkent ræður andstæðingaliðs míns í dag, er vonleysið um að geta nokkru komið í framkvæmd og linkan gagnvart lögbrjótunum. En hv. þm. Borgf. skal vita það, að hann á eftir að fá orð í eyra, ef hann ætlar sjer að fara að snúa við í þessu máli, frá stefnu sinni, og reyna að opna íslenska landhelgi fyrir veiðiþjófnaði pólitískra samherja sinna.