09.02.1928
Neðri deild: 18. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í C-deild Alþingistíðinda. (1633)

76. mál, fyrning skulda

Flm. (Halldór Stefánsson):

Það er ekki þörf langrar framsögu um þetta mál, með því að í grg. er gerð allnákvæm grein fyrir efni frv. og ástæðunum til þess, að það er borið fram. Aðaltilgangurinn er sá, að draga úr hinni miklu skuldasöfnun, hinna almennu, ósamningsbundnu skulda, verslunarskuldanna, með því að stytta fyrningarfrestinn, og koma þannig í veg fyrir, svo sem unt er, að verslunin sje milliliður á milli almennings og hinna eiginlegu lánsstofnana, bankanna.

Með þrennu móti er ætlað að takmarka fyrningarfrestinn.

Í fyrsta lagi með því að stytta fyrningarfrest þessara umræddu skulda úr 4 árum niður í 1 ár.

Í öðru lagi, að fyrningarfrestinum verði ekki viðhaldið með áframhaldandi viðskiftum.

Og í þriðja lagi með því að láta ekki einfalda viðurkenning á skuld slíta fyrningu, og gildir það jafnt um allar skuldir.

Með frv. er ekki ætlunin að ganga of nærri því, að skuldaeigendur geti innheimt skuldir sínar. Eins árs frestur ætti að vera nægilega langur til þess að hægt sé að heimta skuldirnar inn, eða þó a. m. k. að fá þær viðurkendar með því að samþ. víxil fyrir henni — það er mjög fljótlegt — eða þá að stefna til greiðslu á þeim og fá fyrir þeim dóm eða samning. Í öllum þessum tilfellum er slitið fyrningu.

Það má vera, að sumum þyki þessi frestur of stuttur, en jeg tel, að svo sje ekki; hann eigi að vera svo stuttur sem hægt er. Þetta ætti heldur ekki að hamla því, að venjuleg reikningsviðskifti geti átt sjer stað áfram eins og áður, en aðeins verður nauðsynlegt báðum aðilum, bæði lánveitendum og hinum, sem lán þiggja, að sýna meiri gætni, miða viðskiftin meira við getuna en átt hefir sjer stað. Slík lagaákvæði sem þessi hljóta að verða mönnum hvöt til þess, þegar menn annarsvegar geta átt von á að gengið sje eftir því, að viðskiftin sjeu greidd upp, en hinsvegar, ef það bregst, gefinn sem stystur frestur til innheimtu. Jeg er þess fullvís, ef þessi hefði verið venjan, að það hefði reynst báðum aðilum holt og verslunarskuldir hefðu verið miklum mun minni en er. Menn hefðu lært að sníða stakkinn betur eftir vexti, og það er altaf það farsælasta.

Jeg hefi orðið þess var, að ýmsir hv. þm. muni ekki vera frv. fylgjandi, en jeg geri þó ráð fyrir, að það fái að fara til nefndar, og leyfi jeg mjer að leggja til, að því verði vísað til hv. allshn.