24.02.1928
Neðri deild: 31. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í C-deild Alþingistíðinda. (1663)

89. mál, einkasala á saltfisk

Ólafur Thors:

Jeg gat því miður ekki verið viðstaddur fyrri hluta þessarar umræðu, þar sem jeg var veikur. Mín aðstaða til að rökræða málið er því önnur en verið hefði, ef jeg hefði getað fylgst með gangi þess frá upphafi. Hv. fyrsti flm. hefir þó sýnt mjer þá velvild að segja mjer aðaldrættina úr frumræðu sinni. Einnig hefi jeg lesið handrit þingritaranna af síðari hluta ræðunnar, svo að jeg get að nokkru leyti andmælt hv. flm.

Mjer skilst, að hv. flm. hafi leitt rök að því, að sölufyrirkomulag á íslenskum saltfiski sje ekki sem best. Þetta er rjett. Því er í mörgu ábótavant og og að miklu leyti vegna þess, að salan er ekki að nógu miklu leyti í höndum Íslendinga sjálfra. Það þarf mikið fjármagn til að reka þessa verslun, en hinir íslensku bankar hafa ekki treyst sjer til að veita íslenskum mönnum það lán, er nægja mundi. Þess vegna hafa útlendingar rekið fiskverslunina; Íslendingum til skaða. Þeir hafa margir verið illa til þess færir. Oft hafa þeir verið fjelitlir, en notið óverðskuldaðs trausts íslenskra framleiðenda. En þótt svona hafi farið, er það engin sönnun þess, að sú grundvallarstefna, sem ríkt hefir um fiskverslunina, sje röng. Þetta virðist samt hv. flm. álíta, og til þess að ráða bót á því, tæpir hann á samlagi framleiðenda, en stingur upp á einkasölu.

Jeg vil leiða athygli hv. þdm. að því, að fiskverslunin er áreiðanlega erfiðasta og vandasamasta hlutverk hinnar íslensku verslunarstjettar. Þó að ekki hafi allir þeir, sem hafa rekið hana, verið jafn vel til þess færir, hafa margir duglegir menn lagst á eitt um að reyna að halda henni í góðu horfi. Það er nauðsynlegt, enda er það tilætlun hv. flm., að annaðhvort aðeins einn eða fleiri menn úr hópi þeirra manna, taki að sjer forstöðu einkasölunnar. Sjerþekking í þessu efni er bráðnauðsynleg. En þegar þessir fáu menn eiga að inna af hendi verk allra hinna, vil jeg leiða athygli manna að því, að það er enn meiri vandi að versla með allan fisk landsmanna en nokkurn hluta hans. Það er margur maðurinn nýtur, ef hann sníður sjer stakk eftir vexti, þótt ekki fái hann leyst af hendi svo mikið og vandasamt verk og einkasalan yrði. Þó að einhver reki nú sæmilega fiskverslun, er það engin trygging fyrir því, að hann gæti stjórnað sölu á öllum fiski Íslendinga. Það er sjerstaklega mikið í húfi, ef val á þeim mönnum tekst illa. Eins og hv. flm. leiddi rök að, er saltfiskurinn langstærsti liðurinn í framleiðslu Íslendinga og andvirði hans stærsti liðurinn í því, sem við fáum fyrir framleiðsluvörur okkar. Af því leiðir, að þjóðin á alt í húfi, ef illa tekst val á forstöðumönnum einkasölu. Jeg skal játa, að það má færa ýms rök að því, að einkasölufyrirkomulagið hefir ýmislegt fram yfir frjálsa samkeppni. En þau rök hljóta að falla, af því að trygging á vali forstöðumanna er of lítil í samanburði við áhættuna, ef illa tekst. Þegar útnefning slíkra manna fer fram, fer oft svo, að stjórnmálaskoðanir ráða miklu um úrslitin. En þó svo væri ekki, þá er engin trygging fyrir því, að bestu mennirnir fáist, þó að þeir yrðu fyrir valinu.

Um gallana á einkasölu á saltfiski skal jeg ekki fjölyrða úr hófi. Þó vil jeg minna á þrent, sem mjer þætti miður fara. Í fyrsta lagi óttast jeg minni vöruvöndun en áður, en það vita allir landsmenn, að við eigum velgengni okkar fyrst og fremst að þakka vöruvöndun. Jeg ætla, að jeg megi með fullri vissu staðhæfa, að ef einkasala á saltfiski er lögfest nú, þá er það gegn vilja flestra framleiðenda. Margir framleiðendur freistast að öðru jöfnu til að vanda vöruna miður en skyldi. Vöruvöndun hefir í för með sjer allmikinn kostnað. En ef framleiðendur eiga að skifta við óvinsæla útflutningsnefnd, er jeg ekki í neinum vafa um, að sú freisting eykst að mun. Útflutningsnefnd verður skyldug til þess að taka við öllum vörum, sem ekki eru verri en það, að þær nái því matsvottorði, sem lög skipa fyrir um. En jafnvel þótt kaup og sala fiskjarins sje nú innanlands miðuð við það vottorð, þá hafa útflytjendur mikla vitneskju um það, hverjir vanda vöruna og hverjir ekki, og kaupa helst við læsta verði af þeim, sem vel vanda vöruna. Þetta verður burtu numið, með því að útflutningsnefnd er skyldug til að taka hverja þá vöru, sem matsvottorð fæst um, en þá er dregið úr þeirri hvöt, sem framleiðendur hafa nú til vöruvöndunar. Í öðru lagi er jeg ekki óhræddur um, að af einkasölunni leiði minni neyslu. Þeir, sem þekkja fiskverslun við útlönd, vita, að ýmiskonar óskir koma fram um vörugæði. Það mun ekki ofmælt, að fiskútflytjendur, sem í 20–30 ár hafa unnið að fisksölu, hafi haft gott tækifæri til að vita um þessar óskir. En ef hver einstakur erlendur innflytjandi fær ekki þá vöru, sem viðskiftavinir hans vilja fá, þá eru líkur til þess, að hans hagur af versluninni minki og hann leggi minni áherslu á hana en áður. Jeg veit ekki, hvort ástæða er til að skýra þetta nánar, en við skulum hugsa okkur, að viðskiftamenn Spánarkaupmannanna komi og vilji kaupa þá vöru, sem þeir eru vanir að fá, en varan er ekki lengur til. Afleiðingin verður sú, að annaðhvort hætta þessir menn alveg að kaupa fisk, eða þeir reyna að fá vöruna annarsstaðar, og mundu þeir margir, sem af þessum ástæðum hætta alveg við að kaupa íslenskan fisk. Í þriðja lagi óttast jeg, að einkasala dragi frekar úr framleiðslunni en auki hana. Útgerðarmenn bera meiri áhættu en aðrir atvinnurekendur, en þá er ekki óeðlilegt, að þeir vilja vera einráðir um, hvernig þeir fara með það, sem guð og gæfan gefur þeim. Þeim yrði óljúft að þurfa að glíma við þá tvöföldu áhættu, sem fyrir hendi er, þegar einkasalan er komin á. Fyrst og fremst eiga þeir að glíma við aflabrögðin, og síðan verða þeir að sæta því verðlagi, sem einhver og einhver óvinsæl nefnd skamtar þeim úr hnefa.

Jeg skal ekki fjölyrða meira um þá hlið einkasölunnar, sem snýr inn á við. En um hina hliðina, sem út á við snýr, skal jeg fara nokkrum orðum, meðfram af því, að jeg tel mig kunnugri þeirri hlið en flestir hv. þdm. Jeg get fullyrt, að innflytjendur í neyslulöndunum eru yfirleitt mjög mótfallnir einkasölu. Jeg hefi átt tal við marga þeirra, og alla þá stærstu.

Jeg hefi sagt þeim, að hugsast gæti, að Íslendingar vildu gera einhverjar ráðstafanir til þess að bæta það fyrirkomulag, sem nú er. En mjer hefir ekki tekist að ná áheyrn þeirra. Að vísu álít jeg það skakt hjá hinum erlendu kaupmönnum að beita sjer á móti einkasölu, því að það mætti á ýmsan hátt tryggja þeirra hag. En hitt er staðreynd, að þeir hafa allir sem einn maður risið einbeittir gegn slíku fyrirkomulagi. Jeg tel það vera mjög hættulegt fyrir Íslendinga að ráðast í þetta, meðan hinir erlendu innflytjendur eru því mjög andvígir. Í þessu sambandi vil jeg minna á það, sem hv. flm. gat um, að þegar sunnlenskir útgerðarmenn mynduðu samlag með sjer, þá mætti það mikilli andúð erlendis. Kaupmenn reyndu að sneiða hjá því að versla við það, og það þó að samlagið frá byrjun gerði sjer mikið far um að tryggja þeim alla sanngirni í viðskiftunum.

Jeg sagðist líta svo á, að vel mætti framkvæma einkasölu, án þess að hún færi í bága við hagsmuni erlendra innflytjenda. En líklegt er, að neytendur yrðu að kaupa vöruna dýrari en áður. Það er enginn vafi á því, að þau eru rök erlendra innflytjenda gegn okkur, að við ætlum að reyna að hækka verðlag á fiski. En hagsmunir viðskiftamanna þeirra, neytendanna, eru að fá fiskinn sem ódýrastan. Með þessu mundu þeir reisa þá öldu gegn okkur, sem riði okkur að fullu. Þó að okkar fiskur sje á Spáni álitinn bestur, má ekki af því álykta, að hann sje eini fiskurinn, sem Spánverjar vilji sætta sig við. Innflytjendur geta ráðið því, að annar fiskur komi í staðinn.

Jeg vil segja hv. þdm. frá því, en jeg veit ekki, hvort það á við rök að styðjast, að spánskir innflytjendur hafa haldið því fram við mig, að við hefðum alls ekki rjett til einkasölu, samkvæmt Spánarsamningnum. Jeg álít, að þetta sje athugunarefni. Það er óvitaháttur að gera nokkuð það, sem getur svift okkur þeim hlunnindum, sem við njótum á Spáni.

Þá ætla jeg að víkja að örfáum fullyrðingum úr ræðu hv. frummælanda, sem jeg hefi grípið af handahófi úr handriti ritaranna. Hv. frummælandi vildi sýna fram á veilur á því fyrirkomulagi, sem nú er, með því að geta um það, hve miklar verðbreytingar hefðu orðið hjer á landi hvert einstakt. ár á síðari árum. Hann fullyrti, að slíkar verðbreytingar hefðu ekki átt sjer stað í neyslulöndunum. En þetta er með öllu rangt. Verðbreytingar hafa þar verið líkar og jafnvel meiri en hjer, enda er það svo, að það ræður yfirleitt sveiflunum hjer, hverjar sveiflur eru á hinum erlenda markaði, og yfirleitt skeður verðfall fyr þar en hjer, og oftast verðhækkun líka.

Þá sagði hv. flm., að útgerðarmenn hefðu litið reynt að afla nýs markaðar og lítið orðið ágengt. Þetta er ákaflega röng staðhæfing, og byggist áreiðanlega á vanþekkingu hv. flm. Útflytjendur hafa gert ákaflega mikið til þess að reyna að afla markaðar, og þeim hefir orðið ákaflega mikið ágengt; enda veit jeg, að hv. flm. muni skilja þetta, ef hann athugar framleiðslumagn íslensks saltfisks fyrir nokkrum árum og nú síðustu árin. Það get jeg sagt hv. flm., að einmitt hin síðari árin hefir verið unnið að þessu með mjög miklu kappi og þá mest eftir að verslunin fór að færast yfir á íslenskar hendur. Það er nefnilega svo um þessa verslun, að fyrsta áratug þessarar aldar var verslunin öll svo að segja í höndum erlendra manna, en hefir verið að smá-færast yfir á hendur innlendra manna, og því meiri hefir árangur markaðsleitar orðið. Nú senda íslenskir útflytjendur fisk bæði til Suður-Ameríku og Cuba og um alla Afríku. Togaraeigendur hafa myndað fjelagsskap, sem hefir sent mann til Suður-Ameríku til að vinna að útvegun markaðar. Og einstakir útflytjendur hafa unnið mikið í þessu efni líka. Jeg get sagt frá því um eitt fjelag, sem mjer er vel kunnugt um, að undanfarin ár hefir það gert ýmsar tilraunir, sem hafa borið mikinn árangur, svo að t. d. þeir, sem hafa keypt 10–20 kassa fyrir tveim árum, kaupa nú 2–3 þús. kassa. Og hjer er um alveg nýjan markað að ræða. Jeg vil ennfremur benda á, að á síðari árum hafa landsmenn tekið upp þann sið, að verka saltfisk sinn á sem misjafnastan hátt. Áður mátti heita, að allur stórfiskur væri verkaður á einn og sama hátt. Nú er hann sendur alt frá því að vera hálfverkaður og alt að því að vera beinharður, alt eftir því, hvers neytendur krefjast. Framfarirnar hafa því orðið ákaflega miklar á síðari árum, enda mikið að málinu unnið. Er þess vegna ómaklegt að segja um útflytjendur og framleiðendur, að þeir hafi lítið aðhafst í þessu efni. En einmitt þetta, hvað framtak útgerðarmanna væri lítið, átti að vera höfuðsönnun hv. flm. fyrir nauðsyn einkasölu. Jeg þykist þegar hafa hrakið þá staðhæfingu.

Hv. flm. gat þess, svona til þess að sýna, hver munur væri á sölu á saltkjöti og saltfiski hinsvegar, að nú væri þegar farið að flytja út fryst kjöt en ekki saltað eingöngu. En jeg vil benda honum á, að það hefir verið svo frá því að íslensk togaraútgerð hófst, að fiskur hefir verið fluttur út bæði saltaður og í ís. Svo að það er ekki um neitt meiri fullkomnun að ræða um sölu kjöts en fisks í þessu efni.

Jeg held jeg geti þá staðhæft það og bygt þá staðhæfingu á alveg fullkominni þekkingu, að einkasala er, eins og nú standa sakir, alveg óforsvaranleg. Einkasalan er frá mínu sjónarmiði einnig og jafnvel aðallega hættuleg vegna þeirrar sjerstöku aðstöðu, að þeir, sem eru aðalviðskiftamenn okkar erlendis, eru andvígir henni. Og fyr en þeim er sæmilega sýnt fram á, að ekki er verið að ráðast harðvítuglega á þeirra hagsmuni, tel jeg alveg óforsvaranlegt að taka upp einkasölu. En hitt er rjettara, sem hv. flm. var að tæpa á, að talsvert mætti bæta úr þeim meinum, sem nú eru á fyrirkomulagi saltfiskssölunnar, ef landsmenn vildu hafa ýmiskonar samlög, t. d. eins og þau samlög, sem þegar hafa verið reynd. Jeg álít það ekki heppilegt, að þetta komi alt í einu, það er eðlilegra og betra, að þróunin verði smámsaman. Útgerðarmenn í Vestmannaeyjum seldu ýmist alla eða mesta framleiðslu sína árin 1926 og 1927 á þennan hátt, og gafst alveg ágætlega. Það er mikið talað um, að togaraeigendur eigi að hafa meiri samtök í þessu efni. Þessi árin voru töluverð samtök, og voru þetta 3–4 stór fjelög, sem seldu þannig alla sína framleiðsluvöru. Yfirleitt vil jeg segja það um samlögin, hvort sem þau eru þrengri eða víðari, að það er sá höfuð-munur á þeim og einkasölu, að þar ráða framleiðendur öllu um, hverjir fara með þeirra mál; en það er ákaflega veigamikið atriði. Hv. flm. hafði það á móti samlögum, að þá mundu þeir, sem hann kallar „stórlaxa“, njóta sín miklu betur. Þetta byggist á misskilningi; því ef það skipulag kemst á, mundu allir fá eitt og sama verð, jafnt þeir stærri og minni.

En aðalrök hv. flm. gegn samlögum voru þau; að útgerðarmenn væru yfirleitt svo andvígir þeim, að það þýddi ekkert að nefna þau. En ef útgerðarmenn eru nú svona andvígir samlögum, að ekki þýðir þau að nefna, þá er hitt víst, að þeir eru langtum andvígari einkasölu. En það er frumskilyrði fyrir því, að einkasala geti orðið með sæmilegum árangri upp tekin, að þeir, sem eiga við hana að búa, uni henni sæmilega vel. En meðan málið horfir þannig, að innlendir menn eru andvígir einkasölu og þeir útlendu menn, sem við eigum mest undir í þessu efni, mega ekki heyra hana nefnda, þá finst mjer óráð hið mesta að fara fram á, að löggjöfin ljái lið sitt til þess, að slík fyrirmæli nái lögfestu.

Jeg vil enda mitt mál með því að staðhæfa, að það sje fyrst og fremst okkur Íslendingum alveg nauðsynlegt að vita um hug hinna stærri erlendu viðskiftamanna til einkasölu á hverju sviði sem er, áður en við ráðumst í slíkt fyrirkomulag. Og ef það ráð verður einhverntíma upp tekið, að fiskur verði allur seldur fyrir milligöngu ríkisskipaðrar útflutningsnefndar, þá vænti jeg þess, að valdamennirnir hafi hugfast, að þeir þurfi áður að reyna að tryggja sjer samúð hinna erlendu viðskiftamanna, er fiskinn kaupa.