12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í C-deild Alþingistíðinda. (1671)

162. mál, sauðfjárbaðanir

Hákon Kristófersson:

Jeg vildi gjarnan, með leyfi hæstv. forseta, fá að segja örfá orð utan dagskrár.

Svo er mál með vexti, að jeg hefi á þessu þingi flutt frv. á þskj. 177, og var því máli vísað til hv. landbn. þann 17. febr. síðastl. Þetta frv. er nú búið að liggja hjá hv. nefnd á 4. viku, og bendir þessi langi tími til þess, að nefndin ætli að „setjast á málið“, sem kallað er.

Jeg hefi oft vakið máls á þessu við hv. form. landbn., og hefir hann að vísu svarað mjer góðum orðum einum, en annars má segja, að hann hafi farið undan í flæmingi, og sama er að segja um alla aðra úr hv. nefnd, sem jeg hefi haft tal af.

Jeg verð að telja slíkan drátt á afgreiðslu mála úr nefndum alveg óhæfilegan, nema nefndin sje svo hreinlynd, að hún lýsi yfir því, að hún ætli alls ekki að afgreiða málið. Nú lít jeg svo á, að hjer sje um mál að ræða, sem sje í samræmi við skoðanir og vilja meiri hluta bænda um alt landið, og mundi jeg telja það vel farið, ef það næði samþykki þessa þings.

Nú skortir mig getu til að ná þessu máli úr höndum hv. landbn., og verð jeg því að snúa mjer til hæstv. forseta með ósk um, að honum mætti þóknast að taka málið á dagskrá án frekari tafar, nema hv. nefnd lofi að afgreiða málið innan 3–4 daga. Ef svo verður ekki, vona jeg, með skírskotun til þess, að það hefir verið gert áður, að hæstv. forseti taki málið á dagskrá sem fyrst, og þá helst þegar á morgun.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara frekari orðum um þetta mál. Jeg þykist nú hafa komið því í þær hendur, sem fara muni svo með það, að jeg megi vel við una.