12.03.1928
Neðri deild: 45. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (1672)

162. mál, sauðfjárbaðanir

Jón Ólafsson:

Af því að hv. form. landbn. (LH) er ekki viðstaddur, ætla jeg að segja örfá orð fyrir hönd nefndarinnar um gang þessa máls.

Við nefndarmenn höfum rætt þetta mál í nefndinni og skipað í það undirnefnd, þá hv. form. nefndarinnar (LH) og hv. 1. þm. Rang. (EJ). Jeg fyrir mitt leyti verð að segja það, að ef það á að ganga eins og á síðasta þingi um þetta mál, að það taki upp óratíma af tíma þingsins, þá óar mjer við því, að taka það á dagskrá, því að þá voru haldnar um það á annað hundrað ræður og sumar óralangar.

Það er ekki rjett hjá hv. þm. Barð., að sá dráttur, sem orðið hefir á afgreiðslu þessa máls, stafi af því, að nefndin ætli að „leggjast á málið“, heldur aðeins af því, að mikið hefir verið að gera í nefndinni og henni óar við umræðum um það.

Jeg vona, að nefndin geti gert hv. flm. ánægðan og afgreitt málið á sínum tíma, kanske ekki mikið fyrir páska, en heldur ekki löngu eftir þá.