18.02.1928
Neðri deild: 26. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (1680)

104. mál, greiðsla verkkaups

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg er talsvert undrandi yfir þeim þekkingarskorti hjá hv. flm., sem lýsir sjer í búningi þessa frv.

Jeg skal að þessu sinni benda á aðeins eitt atriði, og það eru ákvæðin í 2. gr. frv. um vikulega útborgun af hluta af afla. Jeg hjelt, að hv. flm. mætti vera það kunnugt, að þetta ákvæði er með öllu óframkvæmanlegt. Hvernig er hægt að útborga vikulega aflahlut, þar sem svo stendur á, að skipið er 2–3 vikur í veiðiförinni, eins og oft á sjer stað? Það er heldur ekki hægt að skifta vikulega, þegar aflinn er ekki seldur upp úr skipi, þó komið sje daglega að landi, heldur seldur 12 daga staðinn í landi, eða alls ekki seldur fyr en fullverkaður. Þetta ákvæði er líka blátt áfram hættulegt og hvetur, einkum hinn fátækari hluta fiskimanna, til þess að gera fyrirfram sölu á aflafeng sínum, og gæti einmitt þetta ákvæði orðið þess valdandi, að harðsnúnir útvegsmenn notuðu þessa aðstöðu til þess að binda fátæka hlutarmenn fyrirfram samningum um verð á aflahlut þeirra.

Með þessu ákvæði er líka mjög dregið úr hvöt þeirri, sem útvegsmenn hafa haft til þess að lána hlutarmönnum út á ófenginn afla.