18.02.1928
Neðri deild: 26. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í C-deild Alþingistíðinda. (1685)

104. mál, greiðsla verkkaups

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg benti á það í fyrri ræðu minni, hve ómögulegt væri að framkvæma fyrirmæli 2. gr. þessa frv. Þeir útvegsmenn, sem eru tregir til að lána hlutarmanni út á ófenginn afla, munu nota þetta ákvæði til þess að losna við fyrirframgreiðslu. Og jeg er hræddur um það, að menn fái jafnvel gegnum þetta ákvæði ástæðu til þess að geta kúgað hlutarmenn til þess að selja aflahlut sinn við fyrirfram ákveðnu verði. En það er áreiðanlega alt annað en það, sem hv. flm. vill með þessu frv. Annars vil jeg benda á það, að þegar menn eru ráðnir upp á hlut, þá er um sameiginlegan rekstur að ræða. Mjög víða er svo ástatt, að útgerðarmaður getur ekki fylgt útgerðinni. T. d. stunda bátar frá Ísafirði fiskveiðar við Suðurland, án þess útgerðarmaður fylgi útgerðinni, og væri hart að sekta hann, þó ekki gæti hann skift aflanum vikulega. Þess utan er það æði oft, að fiskurinn er ekki seldur fyr en hann hefir staðið 12 daga í landi, eða jafnvel ekki fyr en í vertíðarlok. Það er sýnt, að þessum útgerðarmönnum er það allsendis ómögulegt að borga út vikulega þá upphæð, sem svarar aflahluta sjómanns vikulega. En þessum mönnum er, samkvæmt 4. grein, bannað að gera samning um greiðslu, sem kæmi í bága við fyrirmæli 1. og 2. gr.

Annars skal jeg geta þess, að það mun víðast vera komin á sú regla nú þegar, að borga verkafólki kaup sitt vikulega, þar sem því verður við komið. Á Ísafirði hefir þeirri reglu að minsta kosti verið fylgt síðan 1909. Atvinnurekendur hafa sjálfir tekið upp þá reglu, því að þeim hefir þótt það borga sig betur. Þeim hefir þótt það margborga sig, að vera lausir við hið sífelda kvabb um fyrirframgreiðslur, og geta sagt: Við borgum vikulega, og meira ekki.