22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (1694)

108. mál, einkasala á tóbaki

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Þegar einkasala á tóbaki var upp tekin árið 1921, þá var það gert af fjárhagsástæðum. Sú stjórn, er þá sat að völdum, áleit, að auka þyrfti tekjur ríkissjóðs allverulega, og það var þáverandi fjármálaráðherra, núverandi hv. 1. þm. Skagf., er mest gekst fyrir því, að einkasölunni var komið á. Ætlast var til, að einkasala á tóbaki gæti gefið ríkissjóði æði miklar tekjur, með því að heildsöluhagnaður af verslun með þessa vörutegund rynni í ríkissjóð til viðbótar við tollinn, sem áður var.

Þessi einkasala stóð í 4 ár, eða fram til 1925, og það sýndi sig, að ár frá ári óx hagnaðurinn af rekstri hennar.

Fyrsta árið var hann lítill til þess að gera, enda ljet þá illa í ári, og annað það, að kaupmenn flestir höfðu birgt sig upp fyrir árið, áður en einkasalan gekk í gildi, því að þeir voru hræddir við það, að verða að sæta verri kjörum um kaup og sölu en þeim gott þætti. Síðan óx tollur og ágóði af þessari verslun með ári hverju og reyndist árið 1925 liðlega 1100 þús. kr. En á því herrans ári var einkasalan afnumin og verslun með tóbak gefin frjáls hverjum sem vildi. Árið eftir, 1926, var ólíkt árinu á undan, vegna þess að innflutningur tóbaks varð þá miklum mun meiri en vant var, þar sem allar verslanir tóku að birgja sig upp í ársbyrjun, og tollur hækkaður um þriðjung.

Þrátt fyrir þessa miklu tollhækkun, þá reyndust þó tekjurnar þær sömu að. upphæð og árið áður, svo að geta má nærri, að þær hefðu verið miklu meiri, ef tóbakseinkasölunni hefði ekki verið af ljett. Þá bar að mörgu leyti vel í veiði fyrir verslun einstaklinga með þessa vörutegund; í desember það ár lækkaði verð á tóbaki erlendis, svo að minna bar á en annars mundi verið hafa, að verðið lækkaði í raun og veru í landssölu innanlands. En afleiðingar afnáms einkasölunnar urðu brátt þær, að tekjur ríkissjóðs af tóbakstolli fóru aftur minkandi, svo að 1927 eru þær um 230 þús. kr. minni en árið áður, meðan einstaklingsverslunin naut þessarar sjerstöku aðstöðu, og nálega jafnmiklu minni en þær voru síðasta einkasöluárið.

Þá má og sjá, hversu óhentugt verslunarfyrirkomulagið er, ef einstakir menn reka, af því, að fjórfalt fleiri menn vinna nú að tóbakssölu heldur en vera mundi, ef ríkið hefði hana á hendi. Þarf ekki mikinn reikningsmann til þess að sjá, hve það gerir alla verslun dýrari, og þar af leiðandi hagnað minni, ef verðið hækkar ekki að sama skapi.

Nú eru svipaðar ástæður fyrir hendi og árið 1921, er stjórnin lagði fyrir þingið frv. um einkasölu ríkis á tóbaki. Ríkissjóði er þörf tekna. Eftir því sem hæstv. fjmrh. (MK) skýrir frá, hefir tekjuhalli á rekstri ríkisbúsins árið sem leið og íhaldsstjórn fór með völd, orðið um 800 þús. — 1 milj. króna, og búast má við, að þetta árið, 1928, sem nú er að líða, þar sem fjárlögum var ráðið af Íhaldsmönnum, muni tekjuhalli reynast ½ milj. kr. Þá mun og Alþingi vart sætta sig við, að ekki verði meira um opinberar framkvæmdir næsta fjárhagstímabil en gert er ráð fyrir í fjárlfrv. hæstv. stjórnar, sem lagt er fyrir þetta þing. Mun von á till. um auknar fjárveitingar bæði frá hv. fjvn. og einstökum þm., ef að vanda lætur.

Þegar svo er komið sem nú, verður okkur Alþýðuflokksmönnum fyrst að athuga, hvort ekki sje hægt að hafa tekjur af fleiri einkasölum en þeirri einu, sem nú er við liði, en það er áfengisverslun ríkisins. Ávöxtur þeirrar athugunar er þetta frv. Það er að vísu ekki eins víðtækt og æskilegt væri. Jeg mundi hafa kosið að bera fram frv. um landsverslun, svipað eins og lögin um Landsbankann, um stjórn hennar og fyrirkomulag. Væri hægt að hafa hana í mörgum deildum, þannig, að hver deild annaðist sína vörutegund, sem í einkasölu væri. Mætti fjölga deildum og fækka eftir þörfum og vild. Allar deildir stæði undir sameiginlegri yfirstjórn og teldist ein stofnun.

En frv. í þessa átt hefði krafist mikils undirbúnings og meiri en hægt var að koma við fyrir þetta þing. Því hefi jeg lagt frv. fyrir háttv. deild, eins og það var síðast úr garði gert og samþ. 1921, með litlum breytingum. Sú eina breyting, er máli skiftir, er það, að álagning skuli miðuð við verð vörunnar að viðbættum tolli, eins og algengt er hjá öðrum verslunum, en ekki eins og fyr var ákveðið, á innkaupsverðið eitt.

Annars hygg jeg, að ekki gerist þörf að þessu sinni að mæla meira fyrir þessu frv. Jeg vil aðeins láta í ljósi þá fullvissu mína, að þess megi vænta, að þessu máli verði nú öðruvísi tekið en áður, því að hagsmunir kaupmanna, sem ráðið hafa að miklu leyti hjá þeim flokki, er því hefir verið andvígur, eru nú úr sögunni sem ráðandi um stefnu Alþingis í þessu máli.