22.02.1928
Neðri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í C-deild Alþingistíðinda. (1695)

108. mál, einkasala á tóbaki

Ólafur Thors:

Jeg er ekki sammála hv. flm., að hag ríkissjóðs sje á neinn veg betur borgið, þótt tóbak sje í einkasölu. Fengin reynsla liðinna ára sannar mitt mál.

Það er svo stutt síðan tóbakseinkasalan, sællar minningar, var afnumin, að það ætti öllum að vera í fersku minni. Þær tölur, er þá komu fram og sýndu afkomuna, eru þannig, að árin, sem ríkið rak einkasölu á tóbaki, reyndust tekjur ríkissjóðs af þeirri verslun að meðaltali árlega 764 þús. kr. En síðan einkasalan var lögð niður og verslun með tóbak gefin frjáls, hefir hagnaður ríkissjóðs af tóbakstollinum reynst meiri, eða rúml. 1 milj. kr. á ári, það er 250 þús. kr. meira en meðaltekjur meðan einkasala átti sjer stað. Jeg efast ekki um, að sú hliðin, sem snýr að almenningi, sje eitthvað svipuð. Jeg trúi hv. 2. þm. Reykv. eins vel til þess að reka verslun með tóbak í eigin hagsmunaskyni svo að þörfum og smekk neytenda sje fullnægt, og gæði vörunnar og gott verð haldist í hendur, eins og einhverjum og einhverjum, sem falin væri forsjá ríkiseinkasölu á tóbaki. En hv. 2. þm. Reykv. rekur sem kunnugt má vera stærstu tóbaksverslun þessa lands, og jeg ber það traust til verslunarhæfileika hans, að hagsmunum neytenda sje ekki síður borgið í höndum hans en í höndum einhvers tóbakssöluforstjóra ríkisins.

Flokkaskifting á þingi er nú öll önnur en hún var árið 1925, er tóbakseinkasalan var afnumin. Jeg tel ekki nema sjálfsagt, að svo hljóti að fara, að þessu sinni, að við verðum enn að nýju að búa við samskonar einkasölu. Það er ekki nema í samræmi við ríkjandi stefnu þeirra flokka, er nú hafa tögl og hagldir í sameiningu. En þótt ekki verði við því spornað, að svo fari sem þeir vilja, tel jeg samt rjett, að við, sem erum einkasölu andvígir, bendum á, að það er ekki gert í þarfir ríkissjóðs, heldur frekar það gagnstæða, ef farið er eftir þeim tölum, sem fyrir liggja.